Tímaás

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin»  Tímaás

 

1970

  • 24. apríl  Hópur kvenna hittist í Norræna húsinu til að ráða ráðum sínum um nýjar og róttækar aðgerðir í kvennabaráttu.
  • 1. maí – Fyrsti viðburður Rauðsokkahreyfingarinnar var þátttaka hóps baráttukvenna sem báru Venusarstyttu í kröfugöngu verkalýðsins. Við þessa aðgerð er upphaf hreyfingarinnar miðað.
  • 25. maí  Níu listakonur héldu fund á Hótel Borg um kvennabaráttuna.
  • 14. júní – Fundur, um 60 manns, haldinn í Þjóðleikhúskjallaranum og var þar kosin 20 manna framkvæmdanefnd nýrrar hreyfingar.
  • 7. september – Fyrsti fundur framkvæmdanefndar haldinn, m.a. rætt um skipulag hreyfingarinnar og drögum að markmiðum dreift til nefndarmanna.
  • 15. september – Síðasti undirbúningsfundur framkvæmdanefndar fyrir opinbera kynningu, þar mættu 20 konur sem sameinuðust um tillögu að helstu baráttumálum, skipulagi og markmiðum.
  • 19. október – Kynningarfundur Rauðsokkahreyfingarinnar haldinn í Norræna húsinu. Í hönd fór kynning og fræðsla um hreyfinguna og málstað hennar, það er baráttu fyrir frelsi og jafnrétti kvenna á við karla á öllum sviðum. Miðstöð Rauðsokkahreyfingarinnar hóf störf í kjölfar fundarins.
  • Frá byrjun nóvember – Rauðsokkar hófu að fara á fundi félagasamtaka með fræðsluerindi, 20 slíkir fundir eru t.d. skráðir í dagbókina fyrsta starfsárið.
  • 3. desember – Rauðsokkur fjölmenntu á áhorfendapalla borgarstjórnar Reykjavíkur frá kl. 19:00 til kl. 23:30 til að fylgjast með tillögu Öddu Báru Sigfúsdóttur um dagvistun barna.
  • 26. desember – Fegurðarsamkeppnum mótmælt. Rauðsokkar stóðu við inngang Laugardalshallar og dreifðu spurningalista til gestanna. Þetta vakti mikla athygli og var fyrsti pólitíski gjörningur hreyfingarinnar eftir aðgerðina 1. maí.

1971

  • 8.−10. janúar – Könnun á dagheimilisþörf gerð í Kópavogi, fór til úrtaks kvenna í bænum.
  • Janúar – Starfshópur Rauðsokka gerði athugun á röðun í launaflokka hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
  • 17. febrúar  Umræðufundur um dagheimilismál haldinn í Norræna húsinu í samvinnu við Stúdentafélag Háskóla Íslands.
  • 5. maí – Kynningarfundur um niðurstöður könnunar á dagvistarþörf í Kópavogi, haldinn í Félagsheimili Kópavogs, bæjarstjórnarfulltrúum og alþingismönnum var m.a. boðið á fundinn.
  • 8. maí  Fegurðarsamkeppnum mótmælt við Háskólabíó.
  • 27.−28. nóvember –  Opinn kynningar- og umræðufundur haldinn  Rauðsokka að frumkvæði Æskulýðssambands Íslands (ÆSÍ), undir yfirskriftinni „Eru konurnar að verða ofan á?“

1972

  • 1. febrúar – Fyrsta af tíu vikulegum útvarpsþáttum útvarpað, nefndir „Ég er forvitin rauð“, sem Rauðsokkar stýrðu í Ríkisútvarpinu, fjölmiðlinum sem allir hlustuðu á þessi árin. Tíu Rauðsokkar skiptu með sér umsjón þáttanna. Þeir fjölluðu um ýmis málefni sem vörðuðu líf og störf kvenna. Þættirnir vöktu athygli og sköpuðu umræðu. Tekjur runnu til útgáfu blaðsins Forvitinnar rauðrar.
  • 10. september  Þetta ár mótmæltu Rauðsokkar aftur fegurðarsamkeppnum og „kroppasýningum“ á konum. Keppni var haldin á Akranesi og með húmorinn að vopni leiddu Rauðsokkar þar fram kvíguna Perlu Fáfnisdóttur sem bundinn hafði verið á silkiborði með áletruninni „Miss Young Iceland“. Þessi gjörningur vakti bæði gleði og reiði.
  • 17. september  Rauðsokkar mótmæltu fegurðarsamkeppnum á Akureyri.
  • Nóvember – Fram fór undirskriftasöfnun á vegum Kvenréttindafélags Íslands (KRFÍ), Úa og Rauðsokkahreyfingarinnar til stuðnings frumvarpi til laga um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila.
  • 29. nóvemberÚtbreiðslu- og kynningarfundur í Norræna húsinu þar sem m.a. var fjallað um dagvistunarmál.
  • 23. september – Rauðsokkar mótmæltu fegurðarsamkeppnum á Dalvík.
  • 1. desember  Tímarit hreyfingarinnar, Forvitin rauð, leit dagsins ljós og strax í fyrsta hefti þess var opnugrein um frjálsar fóstureyðingar. Greinin var eftir rithöfundinn, Tove Nilsen, þýdd úr norsku. Þarna var þessu umdeilda og ögrandi baráttumáli teflt fram í fyrsta hefti málgagnsins og má skoða það sem herhvöt.

1973

  • Mikil eftirspurn var áfram eftir kynningum Rauðsokka á fundum ýmissa félaga, m.a. Dale Carnegie og Junior Chambers.
  • Febrúar – Könnun á þátttöku kvenna í stjórnmálum.
  • Febrúar – Námskeið í ræðumennsku og fundarsköpum haldið fyrir Rauðsokkur.
  • 27. október – Fundur Rauðsokkahreyfingarinnar um fyrirvinnuhugtakið haldinn í Norræna húsinu.
  • Nóvember – Fóstureyðingarfrumvarp Magnúsar Kjartanssonar, heilbrigðisráðherra, lagt fram, Frumvarp til laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Rauðsokkar studdu það eindregið með margs konar aðgerðum, t.d. með bréfi til allra alþingismanna. Síðar samþykkti Alþingi talsvert breytt frumvarp.
  • 9. desember – Félag læknanema stóð fyrir ráðstefnu um fóstureyðingar og var ein Rauðsokka meðal sex frummælenda.

1974

  • 20. janúar – Starfshópur Rauðsokka um fóstureyðingar sendi heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis umsögn um fóstureyðingafrumvarpið o.fl.
  • 3. febrúar – Bréf hreyfingarinnar um endurskoðun skattalaga sent fjármálaráðherra.
  • 12.−13. mars  Ráðstefna haldin á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar og Fóstrufélagsins um dagvistun barna og mögulegar hvatningaraðgerðir til stjórnvalda.
  • 1. maí  Forvitin rauð var þetta ár helguð baráttunni fyrir frjálsum fóstureyðingum (nú nefnt þungunarrof) og birtar voru sögur kvenna af ólöglegum aðgerðum við ömurlegar aðstæður.
  • 15.−17. júní – Ráðstefna Rauðsokka haldin að Skógum undir Eyjafjöllum þar sem  var róttæk markmiðslýsing var samþykkt. Í henni sagði að kvennabarátta yrði ekki slitin úr tengslum við stéttabaráttu. Samþykktin var umdeild og nokkrar konur sem voru ósáttar við hana hættu störfum í hreyfingunni. Þessi stefnumörkun hafði mikil áhrif á starfið á síðari hluta starfstíma hreyfingarinnar.
  • 1. október– Rauðsokkar opna húsnæði sitt, Sokkholt, að Skólavörðustíg 12 í Reykjavík. Fljótlega var þar opið daglega síðdegis og laugardagskaffi haldið vikulega.
  • 27. október – Rauðsokkar halda opinn fund um fyrirvinnuhugtakið í Norræna húsinu.
  • 4. júlí og nóvember – Bréf Rauðsokka sent til nýrra alþingismanna og síðar allra alþingismanna um fóstureyðingafrumvarpið frá 1973.
  • 9. nóvember  Fréttabréfið Staglið kom út í fyrsta sinn. Í því birtust fréttir af starfi hreyfingarinnar og var ætlað starfandi Rauðsokkum. Það kom út til 1982.
  • 9. nóvember – Hreyfingin sendi út dreifibréf til stuðnings frjálsum fóstureyðingum en verið var að endurskoða löggjöfina á Alþingi á sama tíma.
  • 23. desember – Á hápunkti jólainnkaupanna í desember vöktu Rauðsokkar athygli á því hvaða landsmenn væru þreyttastir um hátíðirnar með því að hengja upp tuskubrúðu með svuntu í Austurstræti undir yfirskriftinni „örþreytta húsmóðirin“. Þetta vakti mikla athygli og kátínu ­– en einnig reiði og þátttakendur urðu fyrir alvarlegu aðkasti.

1975

  • Þetta ár var kvennaár Sameinuðu þjóðanna og var það afar viðburðaríkt.
  • 26. janúar – Láglaunaráðstefna haldin í Lindarbæ á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar í samstarfi við Félag afgreiðslustúlkna í mjólkurbúðum, Iðju, félag verksmiðjufólks, Starfsstúlknafélagið Sókn og Starfsmannafélag ríkisstofnana. Þar var hugmyndinni um kvennaverkfall komið á framfæri utan hreyfingarinnar og tillaga um að stefna að verkfalli samþykkt samhljóða í lok ráðstefnunnar.
  • 23. febrúar – Ráðstefna um dagvistunarmál og forskólafræðslu á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar og Fóstrufélagsins haldin í Lindarbæ. Hana sóttu á annað hundrað manns.
  • 23. febrúar – Á ráðstefnunni í Lindarbæ með Fóstrufélaginu var hugmyndin um verkfall allra kvenna ítrekuð og einnig á ráðstefnu um konur til sjávar og sveita í Neskaupstað um vorið.
  • 22. mars – Birtur var listi yfir 100 konur sem sendu alþingismönnum mótmæli vegna breytinganna á fóstureyðingarfrumvarpinu frá 1973. Þær kröfðust þess að sjálfsákvörðunarréttur kvenna væri virtur
  • 24. mars – Stofnfundur haldinn á Hótel Sögu að þverpólitískum Baráttusamtökum fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna til löglegra fóstureyðinga.
  • 25.26. apríl – Kynningarfundur Rauðsokka haldinn í Neskaupstað. Daginn eftir var haldin ráðstefna um kjör kvenna til sjávar og sveita með þátttöku Rauðsokka að sunnan.
  • 11. júní Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir samþykkt á Alþingi. Baráttan um sjálfsákvörðunarrétt kvenna til fóstureyðinga varð mjög hörð þetta ár, en tvenn lög sem vörðuðu málið voru þá til umræðu. Talsverðar hömlur voru enn á valfrelsi kvenna en þær þurftu ekki lengur að fara til lækna í leyni, skottulækna eða til útlanda í neyð sinni.
  • 14. júní – Fjölmennur hátíðarfundur haldinn í Háskólabíói þar sem Rauðsokkar fluttu dagskrá um sögu kvenna í 1101 ár.
  • 20.21. júní – Fjölmenn ráðstefna með þátttöku ótal kvennasamtaka haldin á Hótel Loftleiðum. Þar var samþykkt að boða til kvennafrís á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október.
  • 26.–28. september  Ráðstefna ASÍ og BSRB haldin í Munaðarnesi um kaup og kjör láglaunakvenna þar sem konur sem störfuðu með Rauðsokkahreyfingunni tóku til máls.
  • 24. október – Kvennafrídagurinn haldinn með pomp og prakt og tóku um 25.000 konur þátt í honum í Reykjavík. Að kvennafríinu stóðu sameinuð kvennasamtök landsins og framkvæmd þessarar hugmyndar kostaði mikinn undirbúning og miklar málamiðlanir. Sönghópur Rauðsokka flutti baráttusöngva. Konur komu saman víðar um landið þennan dag, t.d. á Akureyri, Akranesi, Ísafirði, Neskaupstað, í Stykkishólmi og Vestmannaeyjum.
  • Nóvember – Fyrsta jafnréttisnefnd sveitarfélags var stofnuð í Kópavogi að frumkvæði Rauðsokku.
  • Desember – Hljómplatan „Áfram stelpur“ kom út.

1976 

  • Kvennafrídagurinn var mikill sigur og fjölmargar nýjar konur komu til starfa í Rauðsokkahreyfingunni. Ráðinn var starfsmaður í hlutastarf. Haldnir voru fundir og tekist á um skipulag og framtíð hreyfingarinnar. Eftir nokkur átök var lögð áhersla á starf grunnhópa eins og áður og starf miðstöðvar var styrkt.
  • 19. apríl – Allsherjarnefnd Alþingis send umbeðin umsögn Rauðsokkahreyfingarinnar um frumvarp til laga um jafnstöðu kvenna og karla.
  • 16. maí – Önnur láglaunaráðstefna haldin á Hótel Loftleiðum. Að henni stóðu auk Rauðsokkahreyfingarinnar fjöldi verkalýðssamtaka. Viðfangsefnið var kjör verkakvenna og staða í verkalýðshreyfingunni. Henni voru gerð góð skil í Forvitinni rauðri í desember.
  • 20.–21 september – Þing Rauðsokka haldið á Selfossi sem fjallaði einkum um skiplag og verkefni .
  • 17.–29. nóvember – Starfshópur um dagvistun barna, sem stofnaður var á ráðstefnunni um kjör láglaunakvenna 16. maí, stóð fyrir kynningarátaki í fjölmiðlum á dagvistarheimilum og uppeldisgildi þeirra.

1977 

  • 27. febrúar – Rithöfundarins Ástu Sigurðardóttur minnst með dagskrá í Norræna húsinu þar sem systir hennar, Oddný Sigurðardóttir, flutti stutt minningarorð, lesið var úr verkum hennar og sungin ný lög við ljóð hennar. Húsfyllir var.
  • Febrúar – Skattahópur Rauðsokkahreyfingarinnar sendi athugasemdir til Alþingis við frumvarp sem þá lá fyrir um skattamál, ásamt tillögum um fyrirkomulag þar sem hver maður væri sjálfstæður skattþegn (fjölfaldað í 100 eintökum).
  • 5. mars – Rauðsokkar endurtóku fyrrnefnda kynningu á rit- og myndverkum Ástu Sigurðardóttur í félagsheimilinu Egilsbúð í Neskaupstað.
  • 8. mars – Sameinuðu þjóðirnar lýstu 8. mars alþjóðlegan baráttudag kvenna. Menningar- og friðarhreyfing íslenskra kvenna (MFÍK) og Rauðsokkahreyfingin höfðu opið hús um kvöldið í Sokkholti. Þar var sögulegur aðdragandi dagsins rakinn. Á síðasta ársfjórðungsfundi Rauðsokka þetta ár var ákveðið að gera daginn að baráttudegi næsta ár. Í verkalýðshópi voru 16 manns og tók hann undirbúning að sér. Ákveðið var að þýða fræðsluefni fyrir konur um kyn og heilsu.
  • 5. nóvember Rauðsokkasíðu í helgarblaði Þjóðviljans hleypt af stokkunum.

1978

  • 18. febrúar – „Merkur tónlistarviðburður“ auglýstur í Félagsstofnun stúdenta. Rauðsokkakórinn söng og upp tróðu Neikvæði sönghópurinn, Barnaárssönghópurinn, Nafnlausi sönghópurinn og loks söngsveitin Kjarabót. Jafnframt var starf og stefna Rauðsokkahreyfingarinnar kynnt með dreifiriti.
  • 8. mars – Baráttudagskrá fór fram í Félagsstofnun stúdenta í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Mikið var í dagskrána lagt, hún skiptist í tvennt, sögulegan hluta og samtímalegan hluta. Inn í dagskrána voru fléttuð baráttulög flutt af sérstökum sönghópi Rauðsokka og kór Alþýðumenningar söng undir lok fundarins. Húsfyllir var. Dagskrá, fræðslu- og myndefni var síðan gefið út í fjölriti en að því komu 34 Rauðsokkar og vinir þeirra.
  • 3. apríl – Á ársfjórðungsfundi var rætt um ráðgjafastarfið en í ráðgjafarhópi hreyfingarinnar voru læknir, félagsráðgjafi og lögfræðinemi. Þau höfðu safnað efni um fóstureyðingar, getnaðarvarnir, jafnréttislög, félagsmálastofnun og dagvistun barna, sem lá frammi í Sokkholti, en það var opið alla virka daga milli klukkan fimm og hálf sjö síðdegis. Einnig var stofnaður hópur til að sjá um þýðingu dönsku handbókarinnar Kvinde kend din krop.
  • 1. maí  Félagar úr Eik-ml höfðu yfirgefið Rauðsokkahreyfinguna og stofnað 8. mars hreyfinguna.
  • 8. október–19. desember. Námskeið undir yfirskriftinni „Hvað er kvennabarátta?“ haldið í Sokkholti. Alls voru fluttir 10 fyrirlestrar og endað á jólaglöggi. Námskeiðið var vel sótt.
  • 14.–15. október – Ráðstefna haldin í Ölfusborgum um starfsemi hreyfingarinnar undir yfirskriftinni: Rauðsokkahreyfingin sem baráttutæki. Alls um 45−50 konur og karlar mættu á staðinn og fjöldi barna fylgdi þeim. Hópurinn fundaði, eldaði og lék við börnin. Meginniðurstaða var að fækka grunnhópum en mynda hópa um tilteknar aðgerðir sem ákveðnar yrðu á ársfjórðungsfundum. Útbreiðsla og fræðsla átti að vera verkefni næsta ársfjórðungs. 
  • 4. nóvember – Fjölskylduhátíðin Frá morgni til kvölds haldin í Tónabæ. Hátíðin hófst klukkan 10 um morguninn með sérstakri dagskrá fyrir börn og síðan var margt í boði í einu fyrir börn og fullorðna, en um kvöldið voru skemmtiatriði, dans og gleði. Viðburðurinn ól af sér nokkur blaðaskrif og árásir sem var svarað.
  • 7. desember – Hópur Rauðsokka heimsótti Akureyri, flutti dagskrá og tók þátt í umræðum.
  • 28. desember – Síðasti ársfjórðungsfundur þessa árs haldinn eftir viðburðaríkt ár. Ákveðið var í framhaldi af umræðum í Ölfusborgum að beina starfi næsta árs að þremur þemum: Barnaári Sameinuðu þjóðanna 1979, 8. mars og nýliðahópi. 

1979

  • 15. febrúar ­– Kappræðufundur milli Rauðsokkahreyfingarinnar og Eik-ml undir yfirskriftinni: Hvernig skal byggja baráttuhreyfingu kvenna?
  • 8. mars – Sameiginlegur baráttufundur Rauðsokkahreyfingarinnar og 8. mars hreyfingar Eik-ml haldinn í Félagsstofnun stúdenta. Dagskrá var sett saman í samvinnu og sönghópar frá báðum aðilum tróðu upp. Samstarfið gekk vel í þetta sinn.
  • Lok mars – Ekki varði hið nýja og góða samstarf Rauðsokka og 8. mars hreyfingarinnar lengi eins og sjá má í bréfi til Útvarpsráðs um ágreining hreyfinganna.
  • 24. mars – Útifundur haldinn um dagvistarþörf á vegum samstarfshóps fjölda aðila, þ.m.t. Rauðsokkahreyfingarinnar.
  • 7. júní – Flutt var dagskrá til heiðurs skáldkonunni Jakobínu Sigurðardóttur. Helga Sigurjónsdóttir flutti inngangsorð og síðan var leikið, sungið og lesið úr verkum höfundar sem var hylltur í lokin. Dagskráin var flutt í Norræna húsinu og síðar í Ríkisútvarpinu.
  • 7. október – Fjölmenn ráðstefna haldin um dagvistarmál, en heyrst hafði að borgin ætlaði ekki að bæta við krónu til þeirra mála.
  • 27.­­−28. október – Haustfundur Rauðsokka haldinn á Selfossi. Þar voru gerðar samþykktir, m.a. um óánægju með vinstri meirihlutann í Reykjavík og að kjósa ætti róttækar konur á þing.
  • 7. nóvember – Fundur haldinn vegna ákalls KRFÍ um að kjósa fleiri konur á þing. Það var skoðun Rauðsokka að ef kjósa ætti konur á þing væri það til þess að þær berðust fyrir aðrar konur og þær sem mest þyrftu á því að halda, það er láglaunakonur.
  • Desember – Rauðsokkar héldu basar til að hressa upp á bágborinn fjárhag hreyfingarinnar.
  • Desember – Fegurðarsamkeppnum var mótmælt á Hótel Sögu.
  • Undir lok ársins – Fimm grunnhópar störfuðu í hreyfingunni að sögn Forvitinnar rauðrar auk jafnréttissíðuhóps í Þjóðviljanum, „kroppahóps“ sem vann að þýðingu og staðfæringu dönsku bókarinnar Kvinde kend din krop og verkalýðsmálahópur endurvakinn sem átti að fylgja eftir samþykktum barnaársins. Laugardagskaffi voru haldin í Sokkholti sem fyrr og þangað komu góðir gestir, rithöfundar og fræðimenn.

1980

  • Á árinu var umbroti Forvitinnar rauðrar breytt í átt að dagblaði og útgáfu tímaritsins fjölgað í fjögur blöð á ári.
  • 26. janúar – Rauðsokkahátíð haldin í Tónabæ með fjölbreyttri dagskrá að deginum fyrir börn og fullorðna og skemmtun í Fáksheimilinu um kvöldið. Hátíðin var vel sótt og skemmtileg.
  • 8. mars – Gengið úr Sokkholti að Félagsstofnun stúdenta og haldinn þar baráttu- og skemmtifundur. Fjölmennt var á honum. Fagnað var 10 ára afmæli hreyfingarinnar.
  • 8. mars – Rauðsokkur og stúdentar í Kaupmannahöfn fluttu dagskrá í tilefni af 10 ára afmæli Rauðsokkahreyfingarinnar.
  • 8. mars – Þetta ár var í fyrsta (og síðasta) sinn haldin 8. mars ganga og baráttufundur á Héraði. Fundurinn var ekki fjölmennur.
  • 1. maí – Rauðsokkar dreifðu sér með kröfuspjöld um alla verkalýðsgönguna. Um kvöldið var haldið ball í Lindarbæ, Forvitin rauð seld og „greiddist þá úr fjárhagserfiðleikunum í bili.“
  • 1. júlí – Rauðsokkar komu Reykvíkingum verulega á óvart með því að halda Kvennauppboð á Bernhöftstorfu. Karl Ágúst Úlfsson lék uppboðshaldarann og þó gamanið væri grátt var ádeilu á markaðs- og vöruvæðingu kvenna vel komið til skila.
  • 20.–21 september – Þing Rauðsokkahreyfingarinnar haldið í Þóristúni á Selfossi um skipulag og stefnu. Talað var um tilraun síðasta vetrar til að festa í sessi og hlúa að grunnhópum og nýliðastarfi. Fjölskyldupólitík var einnig rædd sem og hvort fjölga ætti konum í stjórnmálum. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir ávarpaði ráðstefnuna á lokakvöldi.
  • 15. október – Rauðsokkasíða Þjóðviljans birtist í síðasta sinn.
  • 13. nóvember – Aftur var haldin fjölskylduhátíðin „Frá morgni til kvölds“.

1981

  •  Nýi kvennafræðarinn kom út. Á frummálinu heitir bókin Kvinde kend din krop. „Kroppahópurinn“ sem að bókinni vann samanstóð af 10 konum sem höfðu staðfært og uppfært mikinn hluta upprunalegu bókarinnar.
  • 8. mars? ráðstefna?
  • 1. maí – Rauðsokkahreyfingin sendi frá sér ávarp í síðasta sinn. Þar var m.a. lögð áhersla á styttingu vinnudagsins, sömu laun fyrir sömu vinnu, upprætingu láglaunahópa, samfelldan skóladag, góða og ókeypis dagvistun fyrir öll börn, sex mánaða fæðingarorlof, launað leyfi í veikindum barna, frjálsar fóstureyðingar og kynfræðslu í skólum og lýst var yfir stuðningi við kjarabaráttu fóstra. Síðast var minnt á andstöðu við vígbúnaðarkapphlaupið – gegn kjarnorku – fyrir friði.
  • Júní ­­- Í leiðara Forvitinnar rauðrar var boðuð umræða um hvað Rauðsokkahreyfingin vildi verða þegar hún yrði stór og hvernig kvennahreyfingu Rauðsokkar vildu. Það var jafnframt síðasta blað Forvitinnar rauðrar. Í hönd fór uppgjör um stöðu og möguleika hreyfingarinnar sem lauk með því að hún var formlega lögð niður árið 1982. 
  • 15. desember – Lögð fram tillaga um að Rauðsokkahreyfingin yrði lögð niður en sú tillaga var felld. Rauðsokkar sem vildu halda hreyfingunni óbreyttri höfðu tekið til mótmæla meðal annars á vettvangi Forvitinnar rauðrar. Hópurinn, sem að tillögunni stóð, gekk síðan úr hreyfingunni og stofnaði Kvennaframboðið í Reykjavík, sem síðar varð Kvennalistinn. Sú hreyfing átti sér sköruglegan kvennabaráttuferil næsta áratuginn.

1982

  • Rauðsokkahreyfingin lögð niður á þessu ári og Sokkholti lokað, skuldir greiddar og seinna voru gögn sem þar voru gefin Kvennasögusafni.

 

 

Fyrri síða Um vefinn

Næsta síða English