Efnisyfirlit
Dagvistun barna var hornsteinn í baráttu Rauðsokka fyrir markmiðum sínum um jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum, eins og sjá má á markmiðum samtakanna til dæmis frá 1970, 1976 og 1979. Rauðsokkar vildu að öll börn ættu kost á heilsdagsdvöl á dagvistarheimili þar sem fram færi markvisst uppeldisstarf. Gæta yrði þess að heimilin yrðu ekki gæslustofnanir heldur jákvæð uppeldisheimili. Lögð var áhersla á að ríki og sveitarfélög rækju heimilin eins og við ætti um barnaskóla og þau væru staðsett í íbúðarhverfum fremur en við vinnustaði. Sama átti við um frístundaheimili við grunnskóla, eins og fjallað var um í einum útvarpsþætti Rauðsokka. Á þessum tíma var talsvert fjallað um að hlutverk kvenna væri að annast og ala upp börn sín en ekki ætti „að yfirtaka uppeldið með ríkisreknum uppeldisstofnunum“. Á fundi bæjarstjórnar í ónefndu sveitarfélagi féllu þau orð að konur vildu vinna utan heimilis til að safna sér peningum fyrir lúxus og kröfur um dagheimili væru lítillækkun á starfi konunnar á heimilunum. En slíkum hugmyndum var mótmælt harðlega og horft var til annarra landa, þar sem málin voru talin í betra lagi. Mikilvægt skref var að sýna fram á þörfina.
Fyrri síða Staðan 1970
Næsta síða Kannanir á dagvistunarþörf