Umræðan hefst

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Kynbundið ofbeldi»  Umræðan hefst

Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Mexíkó 1975 var ofbeldi gegn konum ekki formlega á dagskrá. Umræðan var ekki komin út á opinberan vettvang og til ráðamanna, heldur var hún innan kvennahreyfinga sem gerðu sér æ betur grein fyrir áhrifum þessa umfangsmikla kúgunartækis á líf kvenna. Í Þjóðviljanum birtist grein um „Kvennadómstól“ árið 1975. Hann átti að vera í Brussel í Belgíu og var ofbeldi gegn konum efst á blaði viðfangsefna hans, þar með talið sifjaspell. Ekki varð af stofnun hans. Þessar áherslur sýna að umræðan var hafin fyrir alvöru. Hér á landi beindust sjónir þó einkum að nauðgunum eins og fyrr segir. Á Rauðsokkasíðu Þjóðviljans birtist grein um nauðgarann í næsta húsi. Þar var bent á að ofbeldismaðurinn væri ekki endilega ókunnur hrotti heldur gæti hann verið maðurinn í næsta húsi.

KSS63_A01_060-02Næstu árin fór umræðan stöðugt vaxandi. Þjóðviljinn birti samantekt úr þýska blaðinu Stern um nauðganir innan hjónabands sem var nokkuð sem íslensk lög náðu ekki til. Í yfirliti yfir störf Rauðsokkahreyfingarinnar 1978 kemur fram að hópur hefði verið stofnaður til að lesa sér til um ofbeldi gegn konum en ekki varð úr starfi hans. Í sama pistli kom fram að ákveðið hefði verið að þýða dönsku bókina Kvinde kend din krop og var stór hópur stofnaður í kringum bókina. Hún kom út 1981 og fékk heitið Nýi kvennafræðarinn, handbók fyrir konur á öllum aldri. Þar er kafli um nauðganir þar sem gildandi lög voru kynnt, rætt um skilning á því hvað nauðgun væri og fjallað um goðsagnir um nauðganir, eins og „hún vildi þetta“. Konum var bent á leiðir til að forðast nauðgun og sérstakur kafli var um sjálfsvörn.

Greina má nokkur tímamót í byrjun árs 1979 en í fyrsta tölublaði Forvitinnar rauðrar það ár er að finna grein um ofbeldi gegn börnum eftir Sigrúnu Júlíusdóttur félagsráðgjafa. Þar var rætt um illa meðferð á börnum, vanrækslu og slíkt en kynferðisofbeldi gegn börnum var enn algjört tabú og komst ekki á dagskrá fyrr en eftir 1980. Í þessari grein vék Sigrún að ofbeldi gegn konum og þar með hvernig litið væri á það sem einkamál og hluta af friðhelgi einkalífsins. Sigrún skrifaði:  

Þjóðfélögin setja lög sjálfum sér til varnar og viðhalds. Sömuleiðis eru sett lög með tilheyrandi refsikerfi til að vernda einstaklingana og eignaréttinn gegn ofbeldi annarra óviðkomandi einstaklinga. En hvað um það ofbeldi sem viðgengst inna friðhelgi einkalífsins? Yfir það ná engin lög á sama hátt. Þótt einstaklingum sé refsað harðlega samkvæmt lögum fyrir svo lítið sem að dangla í náunga sinn á götu, þá getur karlmaður lúskrað á eiginkonu sinni, nauðgað henni og kúgað og foreldrar beitt börn sín hinum ótrúlegustu kúgunaraðferðum og jafnvel líkamlegu ofbeldi innan friðhelgi einkalífsins án þess að yfir slíkt nái nokkur lög eða að þjóðfélaginu beri nokkur skylda til að vernda þar einstaklingana fyrir hvor öðrum.

Á sama tíma birtist viðtal í Þjóðviljanum við þær Sigrúnu Júlíusdóttur félagsráðgjafa, Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðing og Þorgerði Benediktsdóttur lögfræðing um ráðstefnu sem þær sóttu í Ósló skömmu áður. Til umræðu var ofbeldi gegn konum og reynslan af nýopnuðu kvennaathvarfi í Osló. Aðsóknin að því kom mjög á óvart og sýndi hve mikil þörf var á rannsóknum, mælingum og aðgerðum til að koma konum og börnum þeirra í skjól, sem og að vekja fólk til vitundar um ofbeldið og afleiðingar þess. Þær Sigrún, Hildigunnur og Þorgerður vöktu athygli á því hve ofbeldi gegn konum á Íslandi væri dulið, það væri erfitt viðureignar í litlu samfélagi enda við engar rannsóknir að styðjast. Þess má geta að fyrsta kvennaathvarfið í Evrópu sem byggði á femínískum grunni var opnað í London árið 1971.

Haustið 1979 efndi Ríkisútvarpið til umræðu um ofbeldi á heimilum. Stjórnendur þáttarins voru blaðamennirnir Álfheiður Ingadóttir og Halldór Reynisson. Þátttakendur í umræðunni voru afbrotafræðingur, félagsráðgjafi, prestur, lögreglustjóri og læknir. Einnig var rætt við Rauðsokkuna Silju Aðalsteinsdóttur sem hafði kynnt sér starfsemi kvennaathvarfa í London. Þar með var umræðan um ofbeldi gegn konum komin út á opinbera sviðið. Sama haust birtist grein í Rétti, þýðing og samantekt Sólveigar Einarsdóttur á viðtali við frönsku baráttukonuna og lögfræðinginn Gisele Halimi um ofbeldi gegn konum í Frakklandi og viðbragðsleysi yfirvalda við því.

KSS63_A1_60a

Allt kveikti þetta umræður meðal Rauðsokka um stöðu mála hér á landi en tími aðgerða var enn ekki kominn. Sumarið 1980 boðuðu Sameinuðu þjóðirnar til annarrar kvennaráðstefnu í Kaupmannahöfn. Fyrir ráðstefnuna bárust ýmsar fréttir utan úr heimi og þar var í fyrsta sinn sagt frá limlestingum á kynfærum kvenna í blöðum hér á landi. Þetta var mjög viðkvæmt mál en sendinefnd Íslands, þar sem Rauðsokkurnar Vilborg Harðardóttir og Ingibjörg Hafstað voru meðal fulltrúa sýndu það hugrekki að nefna þetta mál í ræðu sem sendinefndin skrifaði. Rauðsokkur sem bjuggu í Kaupmannahöfn voru iðnar við að skrifa greinar og senda fréttir heim og þar kom ofbeldi gegn konum töluvert við sögu. Meðan á ráðstefnunni stóð efndi Þjóðviljinn til ítarlegrar umræðu, þar með talið hringborðsumræðu um nauðganir: Hvers vegna er konum nauðgað? Hvað er nauðgun – hverjir nauðga?

Austur í Neskaupstað gerðust þau tíðindi í ágúst 1980 að jafnréttisnefnd bæjarins útbjó fjögurra síðna bækling, Íhugunarbréf um ofbeldi. Þar var fólk hvatt til að rjúfa þögnina um ofbeldi gegn konum, ástæður ofbeldis greindar og settar í samhengi við stöðu kynjanna. Þetta bréf er að öllum líkindum fyrsta fræðsluefnið um ofbeldi gegn konum sem gefið var út hér á landi. Nefndin hafði áður sent frá sér nokkur dreifibréf er vörðuðu málefni kvenna.

Haustið 1980 var umræða um nauðganir í laugardagskaffi Rauðsokkahreyfingarinnar. Í kjölfar kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og annarrar umræðu var farið að ræða nauðsyn þess að stofna kvennaathvarf í Reykjavík en það tók sinn tíma. Þegar hér var komið sögu var búið að opna stórt kvennaathvarf í Kaupmannahöfn í svokölluðu Dannerhúsi sem femínistar höfðu lagt undir sig. Nokkrar íslenskar konur kynntu sér starfið þar í aðdraganda stofnunar kvennaathvarfsins í Reykjavík. Samtök um stofnun kvennaathvarfs litu svi dagsins ljós 2. júní 1982. Þar með hófst nýr kafli í baráttu kvenna hér á landi fyrir jafnrétti, virðingu og öryggi kvenna.

 

 

Fyrri síða Staðan 1970

Næsta síða Arfleifð