Efnisyfirlit
Margir ásökuðu Rauðsokkana íslensku og stallsystur þeirra erlendis um að segja kvenlegri fegurð stríð á hendur þegar þær snerust gegn óheilsusamlegri tísku og gróðrabralli fata- og snyrtivöruframleiðenda. Í þessu sambandi má til dæmis nefna mussurnar og brjóstahaldarabrennurnar.
Í fyrsta lagi voru Rauðsokkarnir ekki einir um það á þessum tíma að kjósa hentugan klæðnað og svo var aldrei tekinn upp neinn einkennisbúningur jafnréttissinna, hvorki hér né í nágrannalöndunum. Það var heldur ekki gert að skyldu að hætta að nota brjóstahaldara (slíkar hugmyndir eru líklega komnar frá hinu bringuslétta kyni) og þótt einhverjar konur einhvers staðar á Vesturlöndum hafi brennt brjóstahaldarana sína voru það varla brjóstamiklar konur sem þekktu þægindi þessarar flíkur og alls ekki fjölmennur hópur. Fjöldabrennur af þessu tagi eru oft kenndar við bandarísku fegurðarsamkeppnina í Atlantic City árið 1968. Þar mótmæltu konur frá „New York Radical Women“ að konur væru gerðar að söluvöru – líkt og Rauðsokkar á Íslandi seinna – þær komust inn í keppnissalinn og hentu meðal annars krullujárnum og magabeltum í „Freedom Trash Can“ en ekkert bál var kynt enda hefðu þá hinir frægu viðarpallar borgarinnar verið í hættu og slíkt leyfði lögreglan ekki.
Svo eru það mussurnar, þær voru almennt í tísku um og eftir 1970. Íslenskir Rauðsokkar áttu jafnvel sinn mussuhönnuð, Guðrúnu Auðunsdóttur, sem gerði sérstakar mussur fyrir hópinn. Hvernig sem á því stendur má enn þann dag í dag rekast á skammaryrðið „mussukerlingar".
Fyrri síða Staðan 1970
Næsta síða '68 og Perla Fáfnisdóttir