Staðan 1970

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Þungunarrof»  Staðan 1970

Rauðsokkar lögðu áherslu á „að fæða ekki í heiminn börn, nema þau [væru] velkomin og helst báðir foreldrar þeirra tilbúnir til að leggja sig fram um að búa vel að þeim andlega og líkamlega,“ eins og sagði í forystugrein sérblaðs af Forvitinni rauðri, blaði Rauðsokka, um fóstureyðingar frá janúar 1974, þar sem meginstefið var jafnframt sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama.

Þarna birtust í stuttu máli viðhorf Rauðsokka til þess sem nú er nefnt þungunarrof. Hér er notað orðið fóstureyðing þar sem það var notað í umræðu og lagasetningu á þessum tíma. Á þeim tíma sem hér um ræðir voru í gildi tvenn lög sem takmörkuðu verulega möguleika á fóstureyðingu. Annars vegar voru lög nr. 38 frá 1935, þau fyrstu hér landi um fóstureyðingar. Þar sagði að fóstureyðing væri leyfð ef ljóst væri að líf og heilsu konunnar væri mikil hætta búin að mati tveggja lækna, hætta væri á vanskapnaði barns eða erfðasjúkdómi. Rökstudd skrifleg greinargerð læknis og yfirlæknis sjúkrahúss þurfti að liggja fyrir. Tekið var fram í lögunum að fræðsla um getnaðarvarnir skyldi vera í höndum lækna.

KSS63_A01_089

Hins vegar voru lög nr. 16 frá 1938 um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki er komi í veg fyrir að það auki kyn sitt. Sett voru ströng skilyrði og leita þurfti álits þriggja manna sérfræðinganefndar og síðan landlæknis.

Tilraunir til að endurskoða þessi lög höfðu verið gerðar um nokkurra ára skeið, þegar hér var komið sögu, en málið komst verulega á skrið árið 1970. Frjálsar fóstureyðingar höfðu þegar á þessum tíma verið lögfestar til dæmis í Danmörku, Svíþjóð og Englandi og gátu íslenskar konur, sem efni höfðu á, leitað sér aðstoðar þar.

Barnafjöldi setti konum miklar skorður áður en öruggar getnaðarvarnir komu til. Smokkurinn í einhverri mynd á sér langa sögu, en hetta og lykkja voru til allt frá því snemma á 20. öldinni. Getnaðarvarnarpillan eða „pillan“ barst til Íslands árið 1966, en hafði stuttu áður komið á markað í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessum hormónapillum fylgdu meiri aukaverkanir í fyrstu en síðar varð, svo sem ógleði, þunglyndi og sjúkdómar. Efnasamsetning þeirra átti eftir að þróast næstu árin. Athyglisvert er að meðalfjöldi fæddra barna á hverja konu hér á landi fór hríðlækkandi í kjölfar þess að pillan kom til sögunnar, en hún kom auðvitað ekki í veg fyrir að leitað væri eftir fóstureyðingu.

Rauðsokkar tóku mjög virkan þátt í umræðum um fóstureyðingar í blöðum og á fundum, efndu til aðgerða, gáfu út efni og beittu áhrifum sínum á inntak lagafrumvarpa sem voru í smíðum. Rökin voru að ókunnugir ættu ekki að ráða yfir lífi konu, börn ekki látin fæðast við hörmulegar aðstæður eða börn neydd til að verða foreldrar. Mun algengara var að barnungar stúlkur eignuðust börn á þessum tíma en síðar varð. En baráttan var erfið og oft og tíðum sársaukafull.

Fyrri síða Þungunarrof

Næsta síða Fóstureyðingafrumvarpið 1973