Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Útlitsdýrkun»  Arfleifð

KSS63_A49_031Tíska og tilhald eiga sínar kynferðislegu, félags- og fjárhaldslegu rætur og ekki við því að búast að Rauðsokkar og aðrar róttækar hreyfingar á áttunda áratugnum gætu sveigt þau efnahagslegu öfl sem ráða útlitsbransanum að sínum hugmyndum. Þeirri markaðsímynd kvenna sem Rauðsokkar gagnrýndu var breytt, mussur og fótlaga skór urðu góð söluvara. Fegurðarsamkeppnir kvenna hafa aldrei öðlast fyrri sess og drottningarnar eru ekki lengur einhver nútímaútgáfa af fjallkonunni eins og þær voru.

Þótt nútímakonur þurfi ekki lengur að byggja yndisþokka sinn á lífstykkjum úr beini eða málmi er ekki þar með sagt að fegurðariðnaðurinn hafi slakað á klónni. Nútímavísindin hafa komið þeim til bjargar: sýrurík hrukkukrem, geislatækni, í brjóstin plastpokar í stöðluðum stærðum sem ekki springa alltaf og háþróaðar skurðaðgerðir til að strengja upp kynfærin, jafnvel á ungum stúlkum. Æ fleiri konur sem hafa tekið þátt í fegurðarsamkeppnum hafa tekið mjög gagnrýna afstöðu til hugmyndafræðinnar sem þær byggja á þó að margar segi líka að þær hafi lært sitt hvað um líkamsburð og snyrtingu sem þær séu þakklátar fyrir. 

Titill bókar dönsku skáldkonunnar Vitu Andersen, Hold kæft og vær smuk (1978), íslensk þýðing Haltu kjafti og vertu sæt (1981), er í hnotskurn það sem Rauðsokkar börðust gegn og hópar og samtök sem tóku við af þeim hafa haldið þeirri baráttu áfram.

Í lokin má minna á orð Vigdísar Finnbogadóttur forseta í sjónvarpsviðtali árið 2021:

Í hvert sinn sem konur verða sterkari skerst ósýnileg hönd í leikinn og minnir konuna á að hún sé fyrst og fremst kynferðistákn. Allt í einu er hún í miklu styttri pilsum og öllu þröngu og með aflitað hár og eitthvað svona voða „sexí“. Þetta sé gert til að gera lítið úr konum sem andlegum verum. Strákarnir geta alla tíð gengið í jakkafötum og í hæsta lagi breyta þeir svolítið skyrtutískunni eða hálsbindinu. En stelpurnar, það er alltaf verið að breyta þeim til þess að minna þær á, eða minna okkur á: Passaðu þig góða, mundu hver þú ert.

 

 

Fyrri síða '68 og Perla Fáfnisdóttir

Næsta síða Skjöl