Kynskipting starfa

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Vinnumarkaðurinn»  Kynskipting starfa

Vinnumarkaðurinn var vandlega kynskiptur á þessum tíma, skipting starfa í kvenna- og karlastörf var skýr og afgerandi. Í atvinnuauglýsingum voru flest störf kyngreind þrátt fyrir skýlaus ákvæði í lögum því gegn. Ráðningarmöguleikar kvenna voru háðir kynjaskiptingunni.

Kvenna- og karlastörf

KSS63_A50_040Í málflutningi sínum, bæði í ræðu og riti, drógu Rauðsokkar fram hve margvíslegar og flóknar ástæðurnar fyrir verkaskiptingunni voru. Hér réði að sjálfsögðu mestu aldagamall hugsunarháttur og fordómar. Til dæmis gat hjúskaparstaða einfaldlega komið til; „hún gæti gift sig“ var ástæða þess að karl var tekinn fram yfir konu sem sótti um kennarastöðu í Reykjavík árið 1974. Árið 1978 var bent á að 84% verkakvenna ynnu svokölluð „kvennastörf“ sem væru „ekki aðeins lágt launuð heldur líka lítils metin alla jafnan.“. Fátítt var að sjá konur í hefðbundnum karlastörfum. Fólki brá við að sjá konu til dæmis aka strætisvagni eða vera læknirinn. Sjómennska var með örfáum undantekningum talin karlmannsstarf eingöngu. Viðtal við tvær stúlkur til sjós varpaði ljósi á nauðsyn þess að brjóta múra kynskipts vinnumarkaðar. Í skrifstofustörfum hjá hinu opinbera var gjarnan skýr kynjaskipting, konurnar titlaðar skrifstofumenn en karlarnir fulltrúar. Röðun í launaflokka tók síðan mið af starfsheitunum konum mjög í óhag. Hjá Stjórnarráðinu bar engin kona hærri titil en fulltrúi. Bæklingurinn Einkaritarinn sem kom líklega út í kringum 1970 gefur mynd af kröfum til dæmigerðrar kvennastéttar á þessum tíma. Aðeins fjórðungur fólks í sjónvarpsheiminum á Norðurlöndunum voru konur, flestar ungar og þokkafullar.

Fimm ára aðlögunartími að lögunum frá 1961 um launajöfnuð kynjanna reyndist hafa verið nýttur sums staðar til að flokka störf enn frekar í kvenna- og karlastörf og kvennastörfum raðað á lægstu launaflokkana án tillits til verðmætis þeirra eða menntunarkrafna. Hið sama var talið hafa gerst í öðrum löndum Evrópu sem einnig höfðu fullgilt alþjóðasáttmálann um launajöfnuð kynjanna. Verkalýðshreyfingin og viðsemjendur hennar á vinnumarkaði héldu kynskiptingunni við með því að semja annars vegar um kvennataxta og hins vegar karlataxta.

Ráðningarkjör og vinnuumhverfi

KSS63_A50_041

Ráðningarkjör kvenna í sumum stéttum skáru í augu og átti það ekki síst við um konur í fiskvinnslu. Í fiskiðnaðinum hér á landi voru konur varavinnuafl, flestar fiskvinnslukonur voru lausráðnar og mótaði sú staðreynd mjög stöðu þeirra. Þær voru kallaðar til þegar afli barst á land, en látnar sitja heima þegar hráefni skorti.

 

Samið var um kauptryggingu fiskvinnslufólks í fyrsta sinn í kjarasamningum 1974. Að vísu mátti segja fólki upp með aðeins viku fyrirvara og kauptrygging þeirra sem unnið höfðu hjá sama atvinnurekanda í fjórar vikur náði eingöngu til þriggja atvinnuleysisdaga. Í fyrstu þurfti að hvetja konur til að fastráða sig, en þær bjuggu margar við ótrygga barnagæslu og höfðu til þessa getað verið heima dag og dag ef nauðsyn bar við og kusu því að binda sig ekki. En flestar horfðu fram á bjartari tíð með atvinnuöryggi og þeim réttindum sem fylgdu því að vera á vinnumarkaði, þar með talin aðild að lífeyrissjóði. En Adam var ekki lengi í paradís. Togaraverkfall skall á og 18. apríl 1975 var öllum fastráðnum fiskvinnslukonum í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri sagt upp kauptryggingu með einnar viku fyrirvara. Atvinnulausar konur áttu rétt á atvinnuleysisbótum, þurftu að skrá sig daglega en bætur voru skertar í samræmi við tekjur maka, tekjur bótaþega skiptu hins vegar ekki máli. Í ljós kom að vinnufyrirkomulagið gjörbreyttist eftir kauptryggingarsamninginn og betri nýting fékkst á vinnuafli og hráefni.

Árið 1976 var gerð könnun á lífskjörum og högum úrtaks Sóknarkvenna á vegum Starfsmannafélagsins Sóknar undir forystu formannsins Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur, Rauðsokku og síðar alþingismanns. Af þeim sem svöruðu voru um 44% einu fyrirvinnur sinna heimila. Meðalvinnutími á viku var 37 klukkustundir meðal einhleypra, en 32 klukkustundir meðal giftra. Þrátt fyrir léleg launakjör og oft erfiðar vinnuaðstæður sagðist mikill meirihluti svarenda, eða um 69%, ekki vilja hætta að vinna þótt þær ættu þess kost.

KSS63_A50_039

Kvennastéttir urðu fyrir barðinu á breytingum í atvinnulífinu og breyttum ráðningarkjörum. Heil stétt kvenna missti til dæmis atvinnu sína þegar Mjólkursamsalan lokaði mjólkurbúðum og áttu þær margar hverjar erfitt með að fá aðra vinnu. Starfshópur Rauðsokka gerði athugasemdir við samninga Verkamannasambands Íslands í nóvember 1974 við Det Danske Rengöringselskap en í þeim samningum var, auk þess sem kveðið var á um fyrirkomulag ákvæðisvinnu, einnig fjöldi ákvæða sem snertu samskipti á vinnustað og voru nýmæli á íslenskum vinnumarkaði. Einnig voru í samningum skýr fyrirmæli um brottrekstrarsakir vegna fjarveru.

 

Flugfreyjur voru dæmigerð kvennastétt á þessum tíma, starfsaldur þeirra gat í mesta lagi orðið 16 ár og barnshafandi flugfreyjur urðu að hætta störfum og áttu ekki rétt á endurráðningu. Í kjarasamningum flugfreyja í lok árs 1973 náðist loks að hámarksaldur þeirra til starfa var felldur niður. Jafnframt var samið um þriggja mánaða fæðingarleyfi á launum, hefðu þær starfað í eitt ár, og tryggingu fyrir áframhaldandi starfi ef þær byrjuðu aftur innan sex mánaða. Þetta var í fyrsta sinn hér á landi sem atvinnurekendur, aðrir en opinberir aðilar, gerðu samning um svo langt fæðingarorlof við starfsmenn sína.

Aðstæður bændakvenna

KSS63_A50_035

Konum var meinuð þátttaka í búnaðarfélögum þar sem þær voru ekki lögaðilar, þótt ýmsir karlar væru félagar án þess. Þá höfðu bændakonur engan aðgang að lífeyrissjóðum. Við ákvörðun verðlagsgrundvallar landbúnaðarafurða árið 1973 voru bóndakonu reiknaðar 600 vinnustundir á ári við búið (ath. innan við tvær stundir á dag), en bónda 2.080 dagvinnustundir á ári, auk 412 stunda í eftirvinnu og 408 stunda í næturvinnu.

 

Á árlegu búnaðarþingi á kvennaári vorið 1975 sat engin kona. Á Kvennaráðstefnu á Hótel Loftleiðum þá um sumarið var samþykkt áskorun til Bændasamtakanna um að konur fengju aðgang að Búnaðarfélögum. Þar var einnig bent á að framlag bændakvenna til heildartekna búsins væri aðeins metið 15%. Jafnt félagsleg sem réttindaleg staða kvenna til sveita var síðan tekin til umræðu á aðalfundi Stéttarfélags bænda í ágúst sama ár en þá voru aðeins 100 konur skráðar bændur af 5.000 bændum í landinu og voru þær allar ekkjur eða einstæðar.

Bóndakona lýsti vinnu sinni á búinu í viðtali í Forvitinni rauðri árið 1980 og sagði meðal annars að allar tekjur búsins og fjármál væru á reikningi í nafni eiginmannsins, hjá kaupfélaginu, mjólkurbúinu og víðar. Tekjur konunnar kæmu hvergi fram þó hún tæki fullan þátt í bústörfunum og hún yrði því að biðja um hverja krónu. Hún taldi fáar bændakonur með eigin ávísanareikning. Í öðru viðtali við bóndakonur í vinnu í sláturhúsi að hausti er afar lélegum aðbúnaði lýst.

 

Fyrri síða Staðan 1970

Næsta síða Kynbundinn launamunur