Kvennaárið 1975

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Kvennaárið 1975»  Kvennaárið 1975

KSS63_A18_119Alþingiskosningar fóru fram um mitt ár 1974 og þá skoraði Starfshópur Rauðsokkahreyfingarinnar um kvennaárið 1975 á stjórnmálaflokkana að „auðvelda fleiri konum en hingað til að sanna, að þær eru þess megnugar að vinna á Alþingi að hagsmunamálum þjóðfélagsins.“ Að loknum þessum kosningum áttu þrjár konur sæti á þingi, jafnmargar og þær höfðu áður verið. Starfshópur Rauðsokka var kominn af stað en þingið sat eftir.

Fyrrnefnd áskorun bar ekki árangur en Rauðsokkar veigruðu sér ekki við að átelja menntamálaráðherra harðlega fyrir að ekki hefði verið leitað til hreyfingarinnar eins og annarra kvennasamtaka um tillögur til að undirbúa kvennaárið. Þar var ráðherra bent á að fylgjast með því sem væri að gerast í samfélaginu og þá hefði varla farið fram hjá honum að Rauðsokkahreyfingin væri búin að starfa í fjögur ár.

Forsætisráðherra, Geir Hallgrímsson, tilkynnti svo upp úr miðjum janúar 1975 að skipa ætti kvennaársnefnd og var hún oft kvenna á milli nefnd eftir honum og kölluð „Geira“. Rauðsokkar höfðu þegar myndað „Geirustarfshóp Rauðsokka“ og fengu eitt sæti í nefndinni ásamt ýmsum samtökum kvenna og Félagi Sameinuðu þjóðanna, en ekkert stéttarfélag átti þar fulltrúa, þótt á þessum tíma væru til allmörg stéttarfélög kvenna.KSS63_A09 Þessu var mótmælt á ráðstefnu Rauðsokka og kvenna úr helstu verkalýðsfélögum. Þá var þetta leiðrétt og ASÍ og BSRB fengu hvort sinn fulltrúann, nefndarkonur voru þá orðnar tólf. Eftir mislangar umræður voru flestar samþykktir nefndarinnar samhljóða. Rauðsokkar lögðu til dæmis fram tillögu um að Alþingi styrkti nýstofnað Kvennasögusafn til að gefa út sögu íslenskra kvenna og áttu fulltrúa í skattanefnd sem lagði meðal annars til að taka hjúskaparstétt út úr skattalögum og að allir landsmenn eldri en 16 ára skyldu sérskattaðir. Aftur á móti taldi nefndin „það ekki vera í sínum verkahring“ að hvetja konur til að leggja niður vinnu 24. október, ein var aðgerðinni fylgjandi (fulltrúi Rauðsokka) og tvær sátu hjá.

 

Tillögur og áskoranir nefndarinnar voru margvíslegar og sumar víðtækar, einnig stóð hún fyrir hátíðarfundi í Háskólabíói 14. júní og svo kvennaráðstefnu sem þegar hafði verið undirbúin af samstarfsnefnd kvennasamtakanna. Frá henni verður sagt síðar. Nefndin vildi fá að fylgjast með málum út allan kvennaáratuginn, jafnvel þótt hún yrði fámennari, en það fannst ríkisstjórninni óþarfi og bar því við að búið væri að stofna Jafnréttisráð, sem aðeins hafði hálfan starfsmann þá, og lagði því nefndina niður í september 1976.

Fyrri síða Kvennaáratugurinn 1975−1985

Næsta síða Láglaunaráðstefnan