Flest baráttumálin tengd fjölskyldunni

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Fjölskyldan»  Flest baráttumálin tengd fjölskyldunni

LR 365 KVE 046 01Fjölskyldan með réttindum sínum og skyldum var í brennidepli frelsisbaráttu Rauðsokka og flest baráttumálin tengdust fjölskyldunni með einum eða öðrum hætti. Fjölskyldupólitík Rauðsokkahreyfingarinnar var skýr: Þátttaka og ábyrgð beggja kynja á heimilishaldi; jafnstaða beggja aðila í hjónabandi, þar með talin sérsköttun hjóna og fjárhagslegt sjálfstæði beggja; jafnir möguleikar kvenna og karla til menntunar og þátttöku í atvinnulífi, stytting vinnutíma, fastráðning verkakvenna, endurmat á verðmæti starfa, lífvænleg laun og atvinnuöryggi; uppeldi barna í höndum beggja foreldra, dagvistar- og frístundaheimili fyrir öll börn með áherslu á uppeldishlutverk og þroskavænleg uppeldisskilyrði þeirra utan heimilis, einsetnir grunnskólar með mötuneytum og fæðingarorlof beggja foreldra; umráð kvenna yfir eigin líkama og loks baráttan gegn lítillækkandi viðhorfum í garð kvenna og að tíska og útlit skyldi stjórna lífi þeirra. Þessar kröfur komu fram á fundum, ráðstefnum, uppákomum, í ályktunum og umsögnum. Í niðurstöðum starfshóps á Kvennaársráðstefnunni 1975 sagði að „verkaskiptingin á heimilunum [væri] grundvallarvandamálið. Með því að viðurkenna ekki þá staðreynd [gæfum] við falska mynd“. 

Forvitin rauð 3. árg, 4. tbl

 

 

Áherslan á fjölskylduna var áberandi allan tíma Rauðsokkahreyfingarinnar. Á þingi hreyfingarinnar á Selfossi árið 1980 kom til dæmis fram áhugi á að ræða fjölskyldupólitík enn frekar og þær aðstæður sem fjölskyldan byggi við í þjóðfélaginu. Rauðsokkar vildu breyta ævafornri verkaskiptingu kynjanna í fjölskyldunni, konan húsmóðir og karlinn fyrirvinna, en mættu á þeirri vegferð miklum hindrunum – sem ekki var að undra þegar skorin var upp herör gegn sjálfu burðarvirki karlveldisins.

 

Sjá nánar: Vinnumarkaður, Kvennaár, Viðbrögð samfélagsins, Útlitsdýrkun, Dagvistun, Menntun, Þungunarrof

Fyrri síða Staðan 1970

Næsta síða Húsmóðurhlutverkið