Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Viðbrögð samfélagsins»  Arfleifð

Ljóst er að Rauðsokkahreyfingin vakti sterkar tilfinningar bæði meðal stuðningsmanna og andstæðinga. Upplifun íslenskra Rauðsokka af ógnunum og reiðiviðbrögðum samfélagsins var sú sama og hjá systrum erlendis, en slík viðbrögð fylgja því miður öllum ögrandi, pólitískum kvennabaráttuhreyfingum. Þetta er ein af skýringum þess hve mikið gegnumstreymi var í hreyfingunni, en líka hve sterkt þær sem stóðu vaktina tengdust henni.

fréttatíminn 2016Rauðsokkum var stillt upp andspænis húsmæðrum, en í augum Rauðsokka áttu konur að eiga val um líf sitt og störf og því þyrfti þjóðfélagið að mæta. Nú var það svo að meirihluti félaga Rauðsokkahreyfingarinnar voru giftar konur og allflestar menntaðar og útivinnandi eða í námi og með ung börn. Sumir makar komu til starfa í hreyfingunni, og þeir þurftu líka að taka á sig fordóma og standa af sér árásir samfélagsins. Þannig tók baráttan sinn toll af baráttukonunum og fjölskyldum þeirra. Sumar fjölskyldur þoldu ekki álagið og leystust upp. Auk þess efnis sem birtist á prenti eða í fjölmiðlum máttu Rauðsokkar þola hatursorðræðu, hótanir, símhringingar að næturlagi og árásargirni.

Tíminn vann með málflutningi Rauðsokka og að því kom að konur gerðu kröfur Rauðsokka að sínum og hikuðu ekki við að kenna sig við þær. Hugarfarsbyltingin sem fór hægt af stað árið 1970 var komin á flug árið 1982 úti í samfélaginu, þegar Rauðsokkahreyfingin var lögð niður. Þrátt fyrir að í þjóðfélaginu hafi tíðkast nánast skotleyfi á Rauðsokka ýtti jafnréttisumræðan smám saman við fólki, sérstaklega konum. Baráttan skilaði sér smátt og smátt eins og sjá má í gjörbreyttu þjóðfélagi. Engu að síður verður baráttufólk fyrir jafnrétti og kynfrelsi enn fyrir hatursorðræðu og ofsóknum.

Fyrri síða Rauðsokkasíðan

Næsta síða Kynbundið ofbeldi