Markmið og skipulag

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Hugmyndafræði»  Markmið og skipulag

KSS 146-150d

Meginmarkmið Rauðsokkahreyfingarinnar voru frá upphafi:

 

1. að vinna að fullkomnu jafnrétti karla og kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins;
2. að vinna gegn því að kynferði komi í veg fyrir að einstaklingur geti valið sér starf í samræmi við hæfileika sína og áhugamál;
3. að hvetja konur til að notfæra sér í ríkari mæli en þær gera nú þau réttindi sem þær þegar hafa;
4. að uppræta aldagamlan hugsunarhátt og alls konar fordóma varðandi verkaskiptingu í þjóðfélaginu eftir kynjum.

 

Þessi hugmyndafræði- og félagslegu markmið voru þegar kynnt á undirbúningsfundi nýju hreyfingarinnar 7. september 1970 og jafnframt valddreift skipulag hreyfingarinnar sem Hildur Hákonardóttir lýsti myndrænt.

Rauðsokkur voru meðvitaðar um að hreyfing þeirra væri hluti af hinni alþjóðlegu kvennahreyfingu. Innblástur, lesefni, greinar, bækur og nýjar hugmyndir bárust aðallega frá Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Danskir rauðsokkar höfðu stofnað hina róttæku Rødstrømpebevægelse vorið 1970, nokkrum mánuðum á undan íslenskum Rauðsokkum. Öfugt við dönsku Rauðsokkahreyfinguna var íslenska hreyfingin bæði þverpólitísk og opin körlum. Í henni voru frá upphafi bæði róttækar konur og aðrar sem hölluðust til hægri í pólitík og gátu ekki stutt baráttumál sem stönguðust á við þá sannfæringu. Þetta var á tímum ‘68 byltingarinnar og mikilla hugmyndafræðilegra átaka á Vesturlöndum þar sem tekist var á um pólitík; fjöldafundir, óeirðir og uppreisnir voru daglegt brauð. Rauðsokkahreyfingin sem boðaði uppreisn gegn feðraveldi og kvennakúgun var augljóslega hluti þessarar róttæknibylgju. Á fyrstu árunum beindist baráttan fyrst og fremst gegn augljósu misrétti í samfélaginu og hindrunum sem lagðar voru í veg útivinnandi kvenna og kvenna í námi.

Sjá nánar: SaganLesefni RauðsokkaÞungunarrof, Dagvistun, Menntun, Vinnumarkaður og Fjölskyldan

Fyrri síða Hugmyndafræði

Næsta síða Skógarráðstefnan 1974