Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Fjölskyldan»  Arfleifð

KSS63_A28_024Mörg ár liðu þar til hugsjónir Rauðsokka um sem jafnasta stöðu kvenna og karla í hjúskaparlögum og fæðingarorlofslögum urðu að veruleika. Enn lengri tími átti eftir að líða þar til hreyfing varð á hugmyndum um styttingu vinnutíma. Um tíu árum eftir lok Rauðsokkahreyfingarinnar voru tveir fyrrnefndir lagabálkar um hjúskapinn frá 1923 og 1972 felldir saman í ein hjúskaparlög árið 1993 sem samin voru með hliðsjón af norrænum lögum (einstökum greinum hefur síðan alloft verið breytt). Í greinargerð með frumvarpinu sem lagt var fyrir Alþingi árið 1992 er sérstaklega bent á greinar í lögunum um jafnrétti og verkaskiptingu innan fjölskyldu. Í 2. grein segir: „Hjón eru í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. ... Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.“ Síðan segir í 3. grein: „Hjón skulu skipta milli sín verkefnum á heimili eftir föngum, svo og útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu. Hjónum er skylt að veita hvort öðru upplýsingar um efnahag sinn og afkomu.“ Reglur um hjónaskilnaði voru gerðar einfaldari og hjónaskilnaðarákvæðum fækkað. Með þessum lögum má segja að sýn Rauðsokka um lagalega stöðu beggja aðila í hjúskap hafi loks orðið að veruleika í lagatexta.

Lög um fæðingar- og foreldraorlof frá 2000 (oft breytt á árunum 2002−2019) voru stefnumarkandi þar sem fæðingarorlof var lengt úr sex mánuðum í níu (þrír mánuðir hvort foreldri um sig og þrír mánuðir til sameiginlegrar ráðstöfunar), feðrum veittur sjálfstæður réttur til töku fæðingarorlofs og greiðslur til foreldra tekjutengdar. Um 20 árum síðar eða með lögum um fæðingar- og foreldraorlof frá 2020 öðluðust foreldrar loks sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig, en foreldri heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Orlofið greiðist úr Fæðingarorlofssjóði í vörslu Vinnumálastofnunar sem er fjármagnaður með tryggingargjaldi og vöxtum af innistæðufé.

Í fyrstu jafnréttislögum bæði frá 1976 og 1985 eru engin ákvæði um fjölskylduna. Í næstu útgáfu laganna frá 1991 segir að á „öllum skólastigum [skuli] veita fræðslu um jafnréttismál, meðal annars með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi.“ Aftur á móti segir í markmiðsgrein jafnréttislaga frá árinu 2000, í c-lið að gera eigi bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, og síðan er sérstök grein (nr. 16) um ráðstafanir atvinnurekenda til samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs (sama í næstu lögunum frá 2008).

Hugmyndir um styttingu vinnutíma og ábyrgð á heimilishaldi áttu talsvert lengra í land. Um hálf öld leið frá samþykkt laga um 40 stunda vinnuviku árið 1971 þar til frekari stytting vinnutímans varð að veruleika. Í flestum kjarasamningum sem undirritaðir voru veturinn 2019−2020 var heimild til að stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir fyrir starfsfólk í 100% starfshlutfalli. Samkvæmt viðhorfskönnun RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum og fleiri frá 2003 báru konur meiri ábyrgð á heimilisstörfum en karlar. Rannsóknir frá árunum 2005, 2010 og 2013 leiddu það sama í ljós. Þegar einstök verk voru skoðuð birtist gamalkunnugt mynstur þar sem þvottar og þrif voru þau húsverk sem karlar koma síst nálægt. Þorgerður Einarsdóttir hefur reyndar ályktað að fjarað hafi undan kynjakerfi fjölskyldulífsins þar sem færri karlar njóti persónulegra yfirráða á einkasviðinu en áður var, færri konur lúti húsbóndavaldi en fyrr og margar fjölskyldugerðir búi við mikið jafnrétti.

Fyrri síða Friðhelgi einkalífsins

Næsta síða Skjöl