Efnisyfirlit
Frá byrjun lögðu Rauðsokkar mikla áherslu á að draga fram kynjamisréttið á vinnumarkaði og baráttuna fyrir bættri stöðu kvenna og horfðu þá meðal annars til vinnuaðstæðna, launa og ýmiss kona hindrana. Árið 1970 hafði um helmingur giftra kvenna í landinu einhverjar launatekjur, en aðeins þriðjungur þeirra var „virkur“ þátttakandi í atvinnulífinu, miðað við þar til greindar lágmarkslaunatekjur, og til viðbótar höfðu ógiftar konur verið fullgildir þátttakendur á vinnumarkaði um langan aldur. Sú skoðun var engu að síðar mjög útbreidd að staður kvenna væri á heimilinu og jafnvel litið á atvinnuþátttöku giftra kvenna sem „tekið væri fram fyrir hendurnar á náttúrunni“ og væri andstæð hlutverki þeirra í lífinu. Almenn viðurkenning á fyrirvinnuhugtakinu sem jafnvel naut stuðnings laga, hefðir í uppeldi og menntun kvenna og verkaskipting á heimilum og umönnun barna setti konum afgerandi skorður.
Á vinnumarkaði mættu konur mikilli kynjaskiptingu, mismunandi ráðningarkjörum kvenna og karla, kynbundnum launamun og margvíslegum öðrum hindrunum eins og skorti á dagvistun fyrir börn, mjög takmörkuðu fæðingarorlofi og samsköttun hjóna. Viðtöl við konur í atvinnulífinu í Forvitinni rauðri árið 1980 gefa áhugaverða mynd af stöðu þeirra á árum Rauðsokkahreyfingarinnar.
Samkvæmt lögum um launajöfnuð karla og kvenna frá 1961 skyldu laun kvenna hækka á árunum 1962−1967 til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkakvenna-, verksmiðju-, verslunar- og skrifstofuvinnu. Í aðdraganda laganna hafði Ísland árið 1964 fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1958 um misrétti í starfi. Með henni skuldbatt íslenska ríkið sig til að stuðla að jafnrétti í atvinnumöguleikum og starfsaðstæðum í því skyni að útrýma hvers kyns misrétti í þeim efnum, þar með talið misrétti vegna kynferðis. Í jafnlaunalögunum stóð reyndar ekki að greiða skyldi sömu laun fyrir jafnverðmæt störf – sem gerði lögin fremur haldlítil.
Sjá nánar: Fjölskyldan, Menntun.
Fyrri síða Vinnumarkaðurinn
Næsta síða Kynskipting starfa