Efnisyfirlit
Tiltölulega sjálfstæðir starfshópar, frá fimm og upp í fjórtán manna hver, störfuðu að margvíslegum málum. Leshringir kynntu sér kvennafræði og lögð var áhersla á að fylgjast með kvennabaráttunni í öðrum löndum og þróun hugmyndafræðinnar. Engir formenn voru í hópunum en tengiliður var í tengslum við miðstöð og sótti fulltrúafundi.
Myndaðir voru hópar sem lásu kvennabókmenntir eftir innlenda og erlenda höfunda. Leshópar lásu verk Jakobínu Sigurðardóttur, Svövu Jakobsdóttur, Ástu Sigurðardóttur og fleiri. Erlendar femínískar bækur voru lesnar og ræddar, svo sem Kvinnens lille røde eftir Berit Ås, Goðsagan um konuna eftir Betty Friedan, Kvennaklósettið eftir Marilyn French og Sexual Politics eftir Kate Millett.
Strax í upphafi fóru starfshópar að taka fyrir margvísleg mál sem tengdust daglegu lífi kvenna og möguleikum til menntunar og starfa og héldu um þau ráðstefnur og birtu greinar. Rauðsokkar fjölluðu mikið um uppeldis- og skólamál og líðan og aðstæður barna, en þar má nefna viðhorf til dagvistarmála, hjónaskilnaði og börn, upplifun barna af skólanum, fjölskylduna, ofbeldi gegn börnum á heimilum, friðhelgi einkalífsins og uppbyggilegt starf með unglingsstúlkum.
Staða kvenna á vinnumarkaðnum var ætíð eitt megin-umfjöllunarefni Rauðsokka. Þær fylgdust vel með verkalýðshreyfingunni og voru meðal þeirra fyrstu sem létu sig kjör farandverkafólks skipta. Þær efndu til láglaunaráðstefna kvenna og fleiri ráðstefna um atvinnumál. Tengdum málum svo sem fyrirvinnuhugtakinu og samsköttun hjóna voru einnig gerð skil. Gerðar voru kannanir, meðal annars á þörf fyrir dagvistun barna, um launamál, þar með talin röðun fólks í launaflokka, og starfsaldur.
Þegar á fyrstu vikum hreyfingarinnar settu Rauðsokkar fram kröfuna um rétt kvenna til að ráða yfir líkama sínum, og þar með barneignum, og hófu baráttu fyrir frjálsum fóstureyðingum við misgóðar undirtektir. Andstaðan kom víða að og var oft mikil og óvægin og varð sumum Rauðsokkum nær ofviða. Í grein frá 1973 setja Rauðsokkar fram kröfu um að konur beri ekki einar ábyrgð á getnaðarvörnum.
Á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar var stofnaður hópur um heilsuvernd og heilbrigðismál kvenna sem ákvað að þýða og staðfæra dönsku bókina Kvinde kend din krop. Vinna við bókina tók tvö ár og kom hún út undir nafninu Nýi kvennafræðarinn árið 1981.
Rauðsokkar sendu frá sér umbeðnar, og að eigin frumkvæði, athugasemdir við lagafrumvörp sem snertu réttindi kvenna, til dæmis um fóstureyðingar, skattamál, dagvistarheimili barna og hjúskaparlög. Á síðustu árum hreyfingarinnar var farið að fjalla um samkynhneigð en fram að þeim tíma ríkti þöggun í samfélaginu um samkynhneigð og samkynhneigt fólk fór huldu höfði, einnig innan Rauðsokkahreyfingarinnar. Árið 1980 birtist greinin Að hafa kynhneigð til eigin kyns í Forvitinni rauðri og árið 1981 greinin Hvernig urðum við svona. Í ítarlegum greinaflokki um konur og vímugjafa í Forvitinni rauðri 1980 fjölluðu Rauðsokkar um vandamál kvenna í neyslu.
Sjá nánar: Lesefni Rauðsokka, Menntun, Dagvistun, Fjölskyldan, Kynbundið ofbeldi, Þungunarrof, Viðbrögð samfélagsins og Vinnumarkaðurinn.
Fyrri síða Kynning á málstaðnum
Næsta síða Gjörningar, ráðstefnur og hátíðir