Láglaunaráðstefnan

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Kvennaárið 1975»  Láglaunaráðstefnan

KSS63_A28_157Úr fyrirhugaðri ráðstefnu í Neskaupstað í janúar 1975 varð ekki fyrr en seinna vegna þeirra hörmulegu snjóflóða sem þar féllu og var fé það sem Rauðsokkar höfðu safnað til ferðarinnar látið renna í snjóflóðasjóðinn. Í staðinn var lagt á ráðin um mun stærri ráðstefnu í Reykjavík í lok janúar sama ár. Láglaunaráðstefnan var haldin í samvinnu við konur úr Félagi afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum (ASB), Verkakvennafélaginu Framsókn, Iðju félagi verksmiðjufólks, Starfsmannafélaginu Sókn, Starfsmannafélagi ríkisstofnana (SFR), Verkalýðsfélagi Akraness og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur (VR). Þessi ráðstefna var merkileg og áhrifarík fyrir margra hluta sakir.

Fyrir utan stofnun Kvennasögusafnsins 1. janúar 1975 var þetta fyrsta aðgerðin á kvennaárinu og þarna töluðu konur en ekki þeir karlmenn sem skipuðu flestar valdastöður innan stéttarfélaganna. Fyrst og fremst var rætt um störf og aðstæður kvenna jafnt á vinnumarkaði, í verkalýðshreyfingunni og á heimilinu. Þessi tenging á vinnuframlagi í atvinnulífinu og innan heimilisins var konum sameiginleg og veitti tækifæri til að sjá og ræða stöðu kvenna frá öðru sjónarhorni en venjulega. Láglaunaráðstefnan markaði tímamót.

KSS63_A28_141

Guðrún Ágústsdóttir frá SFR og Rauðsokkahreyfingunni setti ráðstefnuna, lýsti kjörum verkakvenna, mismunandi uppeldi kynjanna og, síðast en ekki síst, bar hún fram tillögu Rauðsokka um að „allar konur legðu niður vinnu í hálfan til heilan dag til að sýna fram á að það munar meira en lítið um okkur.“ Þótt Rauðsokkar hefðu rætt verkfallið nokkuð lengi var það fyrst þarna lagt til á opnum fundi. Dagsetningu vantaði þó. Næst var Ásdís Guðmundsdóttir frá Iðju sem benti á að launamunur kynjanna í iðnaði væri svo gífurlegur að í næstu kjarasamningum „verði hagsmunir kvenna að sitja í fyrirrúmi.” Þá tók við Hallveig Einarsdóttir formaður ASB og hvatti konur til að taka virkan þátt í starfi verkalýðsfélaganna, það væri nauðsynlegt því að við konur „lifðum í mjög smáborgaralegu karlmannaveldi.“ Guðrún Emilsdóttir úr Starfsmannafélaginu Sókn hvatti líka konur til að taka málin í eigin hendur, það þýddi lítið að „láta karlmennina eina um að leysa vandamál okkar.“ Þarna var komin konan sem fyrst varð til að höfða mál á vegum Jafnréttisráðs fyrir brot á jafnlaunalögum. Stella Stefánsdóttir frá Framsókn ávítaði forystu(karl)menn ASÍ harðlega fyrir að jafnvel á kvennaárinu væru eintómir karlar í samninganefnd hreyfingarinnar og leyfði „sér að fenginni reynslu að efast um heilindi þessara manna um málefni kvenna.“ Herdís Helgadóttir úr VR lýsti aðstæðum mæðra á vinnumarkaði, meðal annars að launað barnsburðarleyfi kvenna í VR væri „12 virkir dagar,“ aðstöðumunur kynjanna væri oft mikill á vinnustað og konum í verkalýðsstétt gæfist ekki tími til að njóta menningar eða nokkurs annars eftir langan vinnudag heima og heiman. Sigrún Clausen frá Akranesi lýsti áhrifum nýumsaminnar kauptryggingar á kjör kvenna í frystihúsum þegar ekki mátti lengur senda þær fyrirvaralaust heim launalausar þegar vantaði fisk – „og samt hefði það tekið sig heilan vinnudag og rúmlega það til að vinna sér fyrir ljóðabók sem hana hafði lengi langað í.“ Þarna kom líka fram á sjónarsviðið Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir úr Sókn, sú sem átti síðar eftir að gera garðinn frægan á Kvennafrídaginn. Hún fjallaði um húsnæðisvandann, setti fram nútímalegar hugmyndir um húsakynni fyrir alþýðufólk og fjallaði um málefni aldraðra sem væru skammarlega tekjulitlir og oft mjög einangraðir. Síðasti frummælandinn var Ingibjörg Guðmundsdóttir sjúkraliði frá SFR sem lýsti kjarabaráttu þessarar þá tíu ára gömlu kvennastéttar og viðbrögðunum við því þegar sjúkraliðar hótuðu að hætta vinnu á spítölunum. Síðan var margt rætt og þá ekki síst hugmyndin um kvennaverkfall.

 KSS63_A18_131

Verkfallstillagan var eðlilegt framhald af Skógaráðstefnu Rauðsokka sumarið áður en þar hafði megináherslan verið lögð á samstöðu með verkakonum. Jafnframt var verkfall eðlileg niðurstaða samræðna sem snúist höfðu um vanmat á vinnuframlagi kvenna. Við þetta allt bættist og vakti nokkra furðu að í ljós kom að Rauðsokkar voru þetta litla myndarlegar í eldhúsinu! Þær höfðu komið saman áður en ráðstefnan hófst og eldað reiðinnar býsn af kjarngóðri og ljúffengri kjötsúpu sem vakti mikla hrifningu ráðstefnugesta.

Fleiri ráðstefnur

Næsta aðgerð Rauðsokka á kvennaárinu var ráðstefna sem hreyfingin og Fóstrufélagið héldu í febrúar. Hún var með svipuðu sniði og Láglaunaráðstefnan: stuttar tölur, umræðuhópar og svo umræður. Framsögu höfðu Rauðsokkar, foreldrar, fóstrur, kennarar og fleiri sérfræðingar. Þarna komu þær kannanir sem Rauðsokkar höfðu gert í Kópavogi að góðum notum.

Síðan leið mars, haldið var upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna þann áttunda. Svo kom apríl, ekki bólaði á kvennaársnefndinni en Rauðsokkar fóru austur í Neskaupstað þar sem haldinn var kynningarfundur – yfir 200 manns mættu, íbúafjöldi 1672 – og rigndi fyrirspurnum yfir Rauðsokka. Daginn eftir var svo ráðstefna á vegum heimakvenna um Kjör kvenna til sjávar og sveita. Eftir samræður í hópum var ályktað um launamál, sérstaklega í frystihúsum, framtaksleysi verkalýðsforystunnar, jafnrétti til náms, leikskóla og margt fleira. Auk þess var hvatt til kvennaverkfalls og því vel tekið.

Næst kom 1. maí og Forvitin rauð og þar var helst fjallað um kjaramál kvenna, rétt til þungunarrofs og fæðingarorlof. Og loks kom Geira! Að vísu gleymdist að setja hana á fjárlög. Einnig kom út skýrsla félagsmálaráðuneytisins, Jafnrétti kynjanna, og ákvörðun um að senda þrjár konur á ráðstefnuna í Mexíkó eins og áður var minnst á. Rauðsokkar áttu aðild að samtökunum sem stóðu að hátíðarfundi í Háskólabíói þar sem Eva Kolstad fyrrverandi ráðherra í Noregi og seinna fyrsti jafnréttisumboðsmaður í heimi hélt aðalræðuna.

 

Fyrri síða Kvennaárið 1975

Næsta síða Stóra kvennaráðstefnan - verkfall verður frí