Hugmyndirnar breiðast út

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Rauðsokkaandi um landið»  Hugmyndirnar breiðast út

KSS63_A34_086Hugmyndir Rauðsokkahreyfingarinnar bárust út um landsbyggðina eftir þátttöku kvenna á rauðum sokkum í verkalýðsgöngunni í Reykjavík 1. maí 1970 og lögðu án efa grunn að mikilli þátttöku um allt land í kvennafrídeginum 24. október 1975.

Hugmyndirnar bárust meðal annars til Neskaupstaðar. Þar var kraftmikið og samfellt starf að jafnréttismálum kynjanna á þessum árum og ef til vill öflugra en víða annars staðar og meira til af efni þaðan en frá öðrum stöðum. Það er ekki síst vegna þess að vikublaðið Austurland, sem gefið var út í Neskaupstað og dreift um allan fjórðunginn, bar gjarnan fréttir af starfinu. Einnig skiptir trúlega máli að ein af forystukonum Rauðsokkahreyfingarinnar, Gerður G. Óskarsdóttir, varð þar skólastjóri og síðar skólameistari (1974−1983) og á staðnum var frjór jarðvegur fyrir jafnréttisumræðuna.

Dreifbýlishópur Rauðsokka hvatti konur vítt og breitt um landið til umræðu og athafna, en áhrifin má einnig sjá í stofnun jafnréttisnefnda á vegum sveitarstjórna í talsverðum fjölda bæjarfélaga. Þeim var ætlað að kynna mismunandi stöðu kynjanna og vera bakhjarl Jafnréttisráðs Íslands.

.

.

.

Fyrri síða Rauðsokkaandi um landið

Næsta síða Kvennaár í Neskaupstað