Gagnrýni frá vinstri

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Hugmyndafræði»  Gagnrýni frá vinstri

Aðgerðir íslenskra kvenna á kvennaárinu 1975 vöktu mikla athygli bæði heima og erlendis en sumum þótti nóg um og brugðust við bæði í gríni og alvöru. Hljómsveitin Ðe Lónlí Blú Bojs söng til dæmis: „Kvöl er kvennaárið“ Í kjölfar baráttuársins hófust miklar umræður um stefnu, áherslur og baráttuaðferðir innan Rauðsokkahreyfingarinnar. Þegar frá leið dundi gagnrýni á hreyfinguna úr óvæntri átt – frá „villta vinstrinu“. Félagasamtök sem kenndu sig við Marxisma-Lenínisma gáfu út blöð þar sem Rauðsokkahreyfingunni var sendur tónninn, einkum í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars.

Stéttabaráttan 8. mars 1977Stéttabaráttan skrifaði: „Rauðsokkahreyfingin er í dag sundruð og ósamstæð og hana skortir heildarskipulag. Orsökin fyrir þessu er að stefnan er óljós. Hún er í rauninni sambland tveggja öfga.“ Þessar öfgar voru að karlmenn væru sagðir andstæðingar kvenna og að Rauðsokkur stefndu að breytingum innan ramma samfélagsins í stað þess að vinna að byltingu. Verkalýðsblaðið skammaði hreyfinguna fyrir samstarf við Menningar- og friðarsamtök kvenna (MFÍK) sem væru Sovétvinir og fyrir að taka ekki afstöðu gegn heimsvaldastefnu stórveldanna. Rauðsokkahreyfingin studdi að sjálfsögðu baráttu kvenna fyrir frelsi og jafnrétti um allan heim eins og glöggt má sjá á Rauðsokkasíðu Þjóðviljans en gerði ekki samþykktir um mál eins og heimsvaldastefnuna.

Í hreyfingunum Eik-ml og KSML voru stofnaðir kvennahópar sem fylgdu stefnu þessara hreyfinga. Svokölluð 8. mars hreyfing réðist af hörku á Rauðsokkahreyfinguna í dreifibréfi og í grein í Dagblaðinu þar sem hún var sökuð um „borgaralega kvenrembu og þingræðishyggju“. Dreifibréfinu var svarað í Þjóðviljanum og verkalýðshópur Rauðsokka svaraði síðan greininni ítarlega í Forvitinni rauðri. Þannig var tekist á um hvað væri róttækni og hvað borgaralegur femínismi og kvenremba, en Rauðsokkahreyfingin hélt sínu striki með aðgerðum og umræðum.

Konur í stjórnmálum

Árið 1979 urðu miklar umræður, einkum á síðum Þjóðviljans, um framtíð kvennabaráttunnar og rýran hlut kvenna í stjórnmálum og hvort þær ættu erindi inn á það svið. Rauðsokkahreyfingin tók virkan þátt í þeim með samþykktum og fundum.

Hlín Agnarsdóttir úr Eik-ml skrifaði langa grein þar sem hún gagnrýndi starfsemi Rauðsokkahreyfingarinnar. Þeirri grein svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Í kjölfarið var haldinn kappræðufundur milli Rauðsokka og Eik-ml um það hvernig ætti að byggja baráttuhreyfingu kvenna.

Öðru baráttufólki þótti sumu hverju sem Rauðsokkahreyfingunni hefði hnignað, ekki væri lengur áhersla á þau baráttumál sem sett voru fram í upphafi og það gagnrýndi málflutning Rauðsokka. Soffía Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri og femínisti, skrifaði ítarlega grein þar sem hún velti fyrir sér þróun kvennabaráttunnar og gagnrýndi Rauðsokkur, meðal annars fyrir of mikla áherslu á kynlíf. Fleiri greinar um þessi mál fylgdu í kjölfar. Einn greinarhöfundur varði Rauðsokkur og taldi að áherslan á verkakonur kæmi illa við suma þá sem völdin hefðu, en annar benti á að konur hefðu kosningarétt og gætu beitt sér fyrir breytingum.

Þessar greinar tengdust miklum umræðum sem komnar voru af stað um fjarveru kvenna frá valdastofnunum þjóðfélagsins, ekki síst Alþingi þar sem þrjár konur áttu sæti. Umræðan tengdist einnig vinstri meirihlutanum í Reykjavíkurborg. Rauðsokkur voru óánægðar með frammistöðu hans, einkum í dagvistarmálum og létu þá óánægju í ljós, meðal annars á síðum Þjóðviljans og í samþykktum á þingi sínu sem haldið var síðla árs 1979.

Haustið 1979 var óvænt boðað til Alþingiskosninga, prófkjör og forvöl fóru af stað og þá kom vel í ljós hve konur áttu erfitt uppdráttar. Á haustráðstefnu Rauðsokkahreyfingarinnar á Selfossi 27.−28. október var rætt um konur og stjórnmál og varð niðurstaðan sú að fyrst og fremst væri þörf fyrir róttækar konur á þingi. Ingibjörg Haraldsdóttir gerði grein fyrir skoðunum Rauðsokka. Hún sagði að það sem skipti máli væri að fá konur inn í stjórnmálin sem beittu sér í þágu kvennabaráttunnar en jafnréttið kæmi ekki frá Alþingi. Margrét Sigurðardóttir leikskólakennari sá ástæðu til að svara Ingibjörgu. Henni fannst Ingibjörg sýna lítinn stuðning við róttækar konur sem jafnvel væru í baráttusætum fyrir komandi kosningar. Ekki væri hægt að skilja skrif Ingibjargar öðruvísi en sem uppgjöf í jafnréttisbaráttunni.

Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ) hélt fjölmennan fund um málið með þátttöku allra stjórnmálaflokka. Á Rauðsokkasíðunni birtist frétt um fundinn undir yfirskriftinni „Konur í karlaleik“. Rauðsokkahreyfingin ákvað samt að efna til fundar um konur og stjórnmál 17. nóvember. Í kjölfarið sá Ingibjörg Haraldsdóttir ástæðu til að skýra sjónarmið Rauðsokka betur í greininni „Víst viljum við konur á þing“.

Soffía Guðmundsdóttir átti lokaorðið að sinni. Hún skrifaði grein undir heitinu „Karlamál, kvennamál eða vinstri og hægri“. Þar sagði hún meðal annars: „Fram kemur að til að mynda Rauðsokkar vilja ekki konur til opinberra starfa í stjórnmálum nema þær séu róttækar. Þarna sýnist mér að hreyfingin sé úti á hálum ís og stórra mótsagna gæti. Vitanlega eigum við í höggi við afturhaldið og borgaraskapinn, en getum við virkilega ekki hugsað okkur þá baráttu nema þar sé við karlmenn að etja? Finnst okkur óeðlilegt að líka konur séu í þeim fjandaflokki?“ 

Vigdis_Finnbogadottir_(1985)Umræðan um stöðu kvenna í stjórnmálum var rétt að hefjast. Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti Forseta Íslands sumarið 1980 vakti mikla athygli og beindi sjónum að valdaleysi kvenna. Þann 8. mars 1981 hélt Rauðsokkahreyfingin ráðstefnuna Hvar stendur kvennabaráttan á Íslandi? þar sem voru flutt erindi um stöðu kvenna á vinnumarkaði, konur og tölvubyltinguna, fjölskyldupólitík og konur og menntun. Síðan ræddu fulltrúar Kvenréttindafélags Íslands og Rauðsokkahreyfingarinnar um stöðu kvennabaráttunnar á Íslandi. Sagt var frá ráðstefnunni í Forvitinni rauðri en þó aðeins frá erindunum.

Sumarið 1981 hófust umræður um sérframboð kvenna innan Rauðsokkahreyfingarinnar og á síðum Þjóðviljans og náðu þær til kvenna sem ekki höfðu verið tengdar hreyfingunni. Mörgum Rauðsokkum fannst hvorki ganga né reka í kvennabaráttunni og að þörf væri nýrra aðgerða og nýrra hugmynda. Öðrum fannst kvennaframboð út í hött en stefnan var tekin á það.

Þessar umræður vöktu nokkurn skjálfta inna stjórnmálaflokka, einkum á vinstri vængnum. Alþýðubandalagið í Reykjavík, þar sem margar Rauðsokkur höfðu beitt sér, efndu til fjölmenns og fjörugs fundar um stöðu kvenna innan flokksins. Þegar Þórunn Klemensdóttir hagfræðingur horfði yfir þennan fjölda spurði hún: „Hvar hafið þið konur verið?“ Nýtt tímabil í kvennabaráttunni var að hefjast.

 

Fyrri síða Innri átök

Næsta síða Rauðsokkahreyfingin lögð niður