Ráðstefnur um kjör láglaunakvenna

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Vinnumarkaðurinn»  Ráðstefnur um kjör láglaunakvenna

KSS_63_A33_49bRauðsokkar lögðu sérstaka áherslu á að draga fram í dagsljósið bágar vinnuaðstæður láglaunakvenna. Kafað var ofan í kjör þeirra, bæði ráðningar- og launakjör á vinnumarkaðnum og félagslegar aðstæður. Skrifaðar voru greinar í blöð og tímarit, ekki síst Forvitna rauða og Rauðsokkasíðu Þjóðviljans, þar sem margvíslegar staðreyndir, gagnrýni og sjónarhorn komu fram sem mjög lítið hafði verið fjallað um opinberlega áður.

Athygli vöktu ekki síst fundir og ráðstefnur um kjör láglaunakvenna sem Rauðsokkahreyfingin stóð fyrir bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu, oft í samstarfi við aðra hópa. Á kvennaárinu 1975 var til dæmis blásið til þriggja ráðstefna á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar um stöðu láglaunakvenna. Þar ber einna hæst láglaunaráðstefna í Lindarbæ 26. janúar 1975 sem hreyfingin stóð fyrir ásamt afgreiðslustúlkum í brauð- og mjólkurbúðum (ASB), Iðju, Sókn og Starfsmannafélagi ríkisstofnana (SFR). Í setningarræðu fulltrúa SFR og Rauðsokku, Guðrúnar Ágústsdóttur, kom fram að kvennaár Sameinuðu þjóðanna gæfi „ómetanlegt tækifæri til að vekja athygli á stöðu og kjörum kvenna og okkur bæri skylda til að nýta það … til hins ýtrasta.“ Einnig kom fram að þörfin fyrir úrbætur væri mest hjá þeim hópum sem áttu fulltrúa á ráðstefnunni. Áhersla var lögð á að konur úr hópi láglaunkvenna gerðu sjálfar grein fyrir kjörum sínum – sem var nýlunda. Ráðstefnan var afar vel sótt og voru allar ræðurnar birtar í Þjóðviljanum. Þarna kom meðal annars fram að á vinnustöðum Iðjufólks væru flestir karlmenn yfirborgaðir og fæðingarorlof Iðjukvenna væri aðeins tvær vikur. Rauðsokka úr VR dró upp mynd af aðstæðum húsmóður á stóru heimili sem þyrfti að samræma krefjandi heimilisstörf og vinnu utan heimilis og á hennar vinnustað skipti menntun og starfsreynsla sáralitlu máli í launakjörum kvenna. 

KSS63_A28_176

Fiskvinnslukona lýsti hvernig „tíminn sem unninn er eftir klukkan fimm ráði úrslitum um hvernig lífi maður lifir.“ Á ráðstefnunni var kynnt skýrsla sem unnin var á vegum námsbrautar í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands samkvæmt beiðni félagsmálaráðherra í kjölfar ályktunar sem samþykkt var á Alþingi 1971, en hún hafði ekki enn verið birt. Þar kom með skýrum hætti fram hvernig farið var í kringum lögin um launajafnrétti. Rauðsokkar kynntu þarna í fyrsta sinn hugmyndir sínar um kvennaverkfall á kvennaári sem síðar þróaðist í kvennafrí.

Ráðstefna um kjör kvenna til sjávar og sveita var haldin í Neskaupsstað í apríl 1975 með þátttöku Rauðsokka og sátu hana um 40 manns. Á ráðstefnunni var samþykkt ályktun til ASÍ. Þá héldu ASÍ og BSRB ráðstefnu í Munaðarnesi í september 1975 um kaup og kjör láglaunakvenna þar sem konur sem störfuðu með Rauðsokkahreyfingunni tóku til máls.

KSS63_A50_038

Rauðsokkahreyfingin ásamt fólki úr stéttarfélögum stóð að ráðstefnu um kjör láglaunakvenna á Hótel Loftleiðum árið eftir eða í maí 1976. Þjóðviljinn birti viðtöl við þrjár ræðukvenna í kjölfarið og sagðist ein þeirra vona að árangur ráðstefnunnar yrði „vakning til allra láglaunamanna um að láta hendur standa fram úr ermum i baráttunni fyrir bættum kjörum.“ Í tengslum við ráðstefnuna gekkst SFR fyrir launakönnun sem sýndi skiptingu kvenna í launaflokka og reyndist meirihluti þeirra í lægstu launaflokkunum.

 

Baráttufundur Rauðsokkahreyfingarinnar var haldinn í Félagsstofnun stúdenta 8. mars 1978 og voru kjör verkakvenna þar á dagskrá og nauðsyn þess að leiðrétta þau. Markmið fundar láglaunafólks sem haldinn var ári síðar, eða í mars 1979 í Lindarbæ, var að „efla umræður meðal launafólks um brýn hagsmunamál.“ Þar tók Rauðsokka til máls ásamt fulltrúum launþegasamtaka. Ráðstefna var haldin í Vestmannaeyjum af verkalýðsfélögum síðar sama ár um kjör verkafólks í sjávarútvegi þar sem Rauðsokkahreyfingin gagnrýndi bónuskerfið í frystihúsum eins og lesa má um í Þjóðviljanum. Loks var haldin ráðstefna um stöðu kvennabaráttunnar á Íslandi 8. mars 1981 í Félagsstofnun stúdenta þar sem „konur og verkalýðshreyfingin“ var fyrsta umfjöllunarefnið.

Þótt vinnuaðstæður og launakjör bæri hæst á ráðstefnum um atvinnumál á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar eða sem hún tók þátt í þessi ár fléttuðust aðrar hindranir á vegi kvenna í atvinnulífinu alltaf inn í umfjöllunina, svo sem fyrirvinnuhugtakið og tvöfalt vinnuálag kvenna, þörfin fyrir fæðingarorlof, skortur á dagvistun fyrir börn og samsköttun hjóna samkvæmt skattalögum.

Sjá nánar: Kvennaár, Rauðsokkaandi um landið.

Fyrri síða Kynbundinn launamunur

Næsta síða Hindranir