Stuðningur og gagnrýni

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Viðbrögð samfélagsins»  Stuðningur og gagnrýni

LR ÞJV 030 014 3-3

Rauðsokkahreyfingin vakti frá upphafi gríðarlega athygli og umræður. Viðbrögð samfélagsins voru ýmist stuðningur og húrrahróp eða hörð gagnrýni feðraveldisins með árásum, háði og níði. Því var haldið fram að ekkert kynjamisrétti væri á Íslandi og staður kvenna væri á heimilunum sem mæður og húsmæður. Þeim væri nær að verja stöðu sína í stað þess að seilast út fyrir hana. Karlveldinu í landinu fannst sér sannarlega ógnað og konur hikuðu við að taka undir kröfur Rauðsokka, því það gat tekið á að standa keikar í mótvindinum.

Rauðsokkar voru beinskeyttari en þekkst hafði í kvenfrelsisumræðunni fram að þessu. Þær komu umbúðalaust að málum og framgangan þótti sumum ögrandi. Þær studdust gjarnan við kannanir og tölulegar upplýsingar. En andstaðan var hörð enda miklir hagsmunir í húfi.

Andstaða og rógur

Viðbrögð við málflutningi Rauðsokkahreyfingarinnar birtust í fjölmiðlum, í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, og spurningar dundu á Rauðsokkum. Þær skrifuðu í blöð og tímarit, mættu á fundi félagasamtaka og í útvarps- og sjónvarpsviðtöl, auk þess sem þær gáfu sjálfar út blaðið Forvitin rauð.

Í tímaritinu Samvinnunni árið 1971, á fyrsta starfsári hreyfingarinnar, svöruðu Rauðsokkar tíu algengum spurningum undir yfirskriftinni „Spurningar.... svör“, en algengar ranghugmyndir um boðskap Rauðsokka endurspeglast í þessum spurningum:

  • Er eðli karls og konu ekki mismunandi?
  • Ætlið þið að reka allar konur út að vinna?
  • Er eitthvað athugavert við að vera kvenlegur?
  • Viljið þið gera allar konur sem líkastar karlmönnum?
  • Hatið þið karlmenn, af því að ykkur hefur ekki tekizt að krækja í neinn?
  • Lítið þið niður á húsmóðurstarfið?
  • Hafið þið eitthvað á móti því að konur „haldi sér til“?
  • Hafið þið eitthvað á móti móðurást?
  • Móðirin er sá aðili sem gengur með barnið og hefur það á brjósti. Er þá ekki eðlilegast að hún hugsi um það?
  • Er ekki skaðlegt fyrir börn að alast upp á barnaheimilum eða í leikskólum?

Oft var hart tekið á málflutningi Rauðsokka eins og sjá mátti í Velvakanda sem var umræðudálkur í Morgunblaðinu á árunum 1952−1983 og var mikið lesinn. Þar komu lesendur blaðsins á framfæri skoðunum um málefni líðandi stundar, ekki endilega undir nafni. Vinsælt dulnefni var „Húsmóðir í Vesturbænum“, en á bak við það gat verið hver sem var og því engin takmörk sett sem hægt var að segja. Kona ræddi til dæmis dagvistunarkröfur Rauðsokka í Velvakanda þann 11. september 1970. Hún taldi konurnar vera að vinna gegn eðli sínu með því að afhenda ríkisreknum stofnunum uppeldi afkvæma sinna. Önnur skrifaði Velvakanda bréf í febrúar 1974. Hún sagðist vera kvenréttindakona og sæi að margt væri ógert í þeim málaflokki, en taldi að ekki mætti afhenda málstaðinn „öfgahreyfingu”  Rauðsokka með öll sín „gífuryrði” og „margþvældu öfgaskoðanir”.

Framkoma Rauðsokka í fjölmiðlum var rædd í Velvakanda. Innlegg tveggja nafnlausra lesenda birtust þar 4. september 1970 um sjónvarpsþáttinn „Á öndverðum meiði” þar sem Vilborg Dagbjartsdóttir Rauðsokka tókst á við Kristján Sigurðsson kennara, og rannsóknarlögreglumann. Báðar báru þær lof á frammistöðu Kristjáns. Annarri fannst hann hafa talað af manneskjulegri skynsemi, en að Vilborg hefði fremur talað um sjálfa sig en konur í heild. Hinni varð tíðrætt um heilagan móðurréttinn og taldi að frá náttúrunnar hendi væri það ekki eðlislægt konum að ganga út í atvinnulífið. Í febrúar 1972 mótmæltu þrjár konur jafnréttisumræðu Rauðsokka í útvarpi. Sú fyrsta taldi það rannsóknarefni fyrir sálfræðinga að greina málflutning Rauðsokka. Sú næsta ávarpaði Rauðsokka „Fákænu konur, klæðið ykkur úr rauðu sokkunum.” Hin síðasta skildi ekki hvers vegna kommúnistastelpur fengju að vaða þarna uppi með einhliða skoðanir og ljúga að fólki. Undir allt þetta tók ritstjóri Velvakanda.

Í dálkinum „Eruð þér rauðsokka?”í Vísi árið 1972 voru sex ungar konur spurðar um afstöðu þeirra til Rauðsokka. Aðeins ein svaraði spurningunni játandi þó að flestar hinna teldu hreyfinguna hafa rétt fyrir sér að meira eða minna leyti. Það gat verið erfitt að taka afstöðu opinberlega.

Frumkvæði Rauðsokka í umræðunni um stöðu kvenna í þjóðfélaginu varð einnig umfjöllunarefni fjölmiðlafólks, kröfur Rauðsokka virtust stundum of stór biti. Í greininni „Kvenfólk og pólitík“ í Mánudagsblaðinu í mars 1971 var það mat „Ajax“ (líklega ritstjóra blaðsins) að Rauðsokkar væru ósköp atkvæðalitlar og megnuðu ekki að láta taka sig alvarlega. Samt segir hann að konur standi körlum síst að baki, en að hlusta á „æstar” og „rammpólitískar” konur væri það versta sem hann kæmist í. Í annarri athugasemd ritstjóra Mánudagsblaðsins við útvarpsþátt sagði hann: „Rauðsubbur eru líka ákaflega óintresant umræðuefni” og varaði við að þeim væri hleypt í útvarpið.

Rauðsokkar brugðust oft við augljósum misskilningi á málflutningi sínum. Ein þeirra leitaðist til dæmis við að leiðrétta útbreiddan misskilning í grein í Tímanum 1973 undir heitinu „Engin kona ætti að forðast Rauðsokkahreyfinguna á þeim grundvelli einum að hún sé bara húsmóðir.” Stjórnmálamanni á framabraut fannst Rauðsokkar vega að heimavinnandi húsmæðrum í Rabbi í Lesbók Morgunblaðsins 1974. Hann taldi að Rauðsokkar hefðu í fyrstunni farið fram með rógi um húsmæður og með því fælt konur frá: „Málstaður þeirra er ekki slakur, en þær konur sem komust þar í forystu í öndverðu hafa unnið baráttumálum sínum meira ógagn en gagn.“ Í grein í Þjóðviljanum 1974 andmælti kona stjórnmálamanninum og bað hann um rök fyrir máli sínu.

varúð rauðsokkar

Það var auðvelt fyrir konur að verða sér úti um vinsældir reiðra karla með því að níða Rauðsokkahreyfinguna niður opinberlega. Þekkt fjölmiðlakona, sem kunni ekki að meta Rauðsokka, nefndi þær í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins 1978 „karlkerlingar” , sagði þær „kynferðislega óánægðar” og ganga um í „ljótum fötum og illa klipptar”. Í svargrein Rauðsokka „Varúð - Rauðsokkar!“ var hún boðin velkomin í spjall í Sokkholti. Hún sagði í viðtalinu að hún væri reiðubúin til að mæta þessum „karlkerlingum, mæta þeim skartklædd og hakka þær í mig glitrandi.” Sama kona sagði í viðtali svo seint sem 1982: „Mér finnast þessar rauðsokkur og þær sem hafa fylkt sér undir merki kommúnismans, vera einfaldlega samansafn af ljótustu konum Íslands. Ef litið er á myndir af þessum konum, þá er ekki annað hægt en að taka eftir þessu. Þær eru beinlínis ljótar, þær ljótustu sem fyrirfinnast hér á landi; eru eitthvað svo ókvenlegar, ljótar og luralegar.” Þetta viðtal var rifjað upp í Mannlífi árið 2021 tóku nokkrir karlar undir orð hennar og töldu Rauðsokkahreyfinguna hafa ógnað fjölda hjónabanda. Orðræðan minnir mjög á það sem síðar meir hefur kallað verið „styðjandi kvenleiki” í kynjafræðunum, konurnar sem verja feðraveldið og taka afstöðu með körlum gegn konum. Rauðsokkum fannst þó fengur að yfirlýsingunum, því þær skerptu umræðuna og gáfu færi á að vekja athygli á því sem við var að eiga í karllægu samfélagi. Þannig áttu fjölmiðlar sterkan þátt í umræðunni um erindi Rauðsokka, bæði til að andmæla hugmyndum þeirra og efla umræðuna.

KSS63_A18_161Þáttur kirkjunnar

Margir íhaldssamir prestar þjóðkirkjunnar snerust gegn Rauðsokkum og fluttu af stóli predikanir um heilagar skyldur kvenna við móðurhlutverkið. Eftir nokkrar tilraunir kom að því að söfnuður kaus fyrstu konuna til prestsembættis árið 1974, Auði Eir Vilhjálmsdóttur. Rauðsokkar sendu henni árnaðaróskir í tilefni kosningasigursins með tilkynningu til allra helstu fjölmiðlanna. Sjá enn fremur grein Kristínar Ástgeirsdóttur í bókinni Kvennaslóðir (2001).

Prestar sendu Rauðsokkum stundum tóninn í blaðaskrifum. Í umfjöllun um nokkra útvarpsfyrirlestra Rauðsokka sagði prestur í grein í Þjóðviljanum 1970: „Göngu hinna rauðfættu 1. maí lýsti hún [Vilborg Dagbjartsdóttir] svo vel að við sáum í anda hvernig þær roguðust með hina stóru líkneskju, við sáum þær með upplyftum höfðum og forkláruðu ásjón, eins og þann sem fundið hefur hinn stóra sannleik.” Annar prestur ritar hugvekju á mæðradaginn í maí 1972 og túlkar Biblíuna á sinn hátt þegar hann taldi að aldrei verði hægt að gera alla jafna hér á jörð, enda hafi Kristur ekki beðið um það. Í dálknum „Við gluggann” skrifaði prestur í Reykjavík að Rauðsokkar væru „vansælar sálir” sem haldi að hamingjuna sé að finna á sviði stjórnmálanna. 

Stundum var kveðið enn fastar að orði. Þriðji presturinn skrifaði blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu árið 1971 þar sem hann bar saman líknandi störf nunnanna á Landakoti, þar sem greinahöfundur lá veikur, og málflutning Rauðsokka. Presturinn sagði undir millifyrirsögninni „Tröllskessur nútímans”: „Þær eru að því leyti verri en sauðkindur, að þær nenna ekki að sjá um afkvæmi sín, en vilja gutla í öðrum ábyrgðaminni störfum, sem þær af skilningsleysi halda að séu merkilegri.” Í lok greinarinnar biður hann Rauðsokkum bölbæna svohljóðandi: „Óbyrjur skulu þær verða” og „bölvun einmanaleikans mun nísta sál þeirra.” Vanstilling nokkurra geistlegra aðila sem úthúðuðu Rauðsokkum átti ef til vill þátt í að umræða milli Rauðsokka og presta þótti eftirtektarvert fjölmiðlaefni.

Eftir kvennafrídaginn 1975

Hvörf urðu í Rauðsokkahreyfingunni eftir kvennafrídaginn þar sem konur höfðu sýnt mátt sinn svo um munaði og breytti það samfélagsumræðunni og áherslum hægt og bítandi. Ýmsar goðsagnir um að konur gætu ekki staðið saman voru slegnar úr höndum andstæðinga. Þó að konurnar sem mættu á Lækjartorg og á fundi víða um land væru ekki allar Rauðsokkar voru þær þúsundir sem mættu sannarlega komnar til að styðja baráttu kvenna. Þessi sýning á mætti og samstöðu kvenna átti eflaust þátt í harðari tón í garð hreyfingarinnar og breyttra krafna til hennar.

 

 

 

 

 

 

Fyrri síða Viðbrögð samfélagsins

Næsta síða Tónabæjarhátíðin