Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Menntun»  Arfleifð

Í lögum um skólakerfi sem samþykkt voru árið 1974 sagði að „í öllu starfi skóla skuli konur og karlar njóta jafnréttis í hvívetna, jafnt kennarar sem nemendur.“ Með aðalnámskrá fyrir grunnskóla sem út kom á árunum 1976−1977 urðu hannyrðir og smíðar í fyrsta sinn skylda fyrir bæði stúlkur og drengi. Í námsefni sem út kom í kjölfar þessara námskráa dró úr mismunun kynjanna, þó síst í kennslubókum í sögu. Skólasókn sex ára barna var ekki lögfest fyrr en árið 1991. Þegar leið að aldamótunum 2000 og árin þar á eftir urðu grunnskólar loks einsetnir og skóladagurinn lengdist samkvæmt grunnskólalögum frá 1995 og komið var á fót skólamötuneytum og frístundaheimilum. Á sama tíma varð mikil þróun í uppbyggingu leikskóla.

Í kringum 1980 höfðu húsmæðraskólarnir ýmist breyst í hússtjórnarskóla sem voru opnir báðum kynjum eða lagst af. Kvennaskólinn í Reykjavík varð framhaldsskóla árið 1979, opinn bæði piltum og stúlkum. Þar með voru allir skólar í landinu opnir jafnt konum sem körlum. Sókn kvenna í nám á framhaldsskóla- og háskólastigi jókst jafnt og þétt á síðasta fjórðungi 20. aldar. Á síðari hluta 8. áratugarins skreið hlutfall kvenstúdenta af fjölda tvítugra fram úr hlutfalli karla og varð um 20% af árgangi tvítugra af báðum kynjum. Upp frá því fjölgaði konum með stúdentspróf talsvert hraðar en körlum. Konur með stúdentspróf voru orðnar um 75% af fjölda tvítugra kvenna upp úr aldamótunum 2000 á móti 50% karla. Á sama tíma voru konur aðeins um 20% þeirra sem luku sveinsprófi og var það hlutfallið enn óbreytt 20 árum síðar.

Framhaldsskólum sem buðu upp á nám til stúdentsprófs fjölgaði ört á áttunda og níunda áratug 20. aldar um allt land eða um talsvert á annan tug á árunum 1975−1988 og átti eftir að fjölga enn frekar síðar. Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð sem starfaði á árunum 1972−2014 opnaði ekki síst konum nýjar leiðir til menntunar og sambærilegar námsleiðir opnuðust við aðra framhaldsskóla. Síðan hefur fjarnám í ýmsum myndum tekið við. Skólaárið 2011−2012 voru konur yfir helmingur (53%) þeirra sem sinntu kennslu í skólum á framhaldsskólastigi hér á landi.

jóðviljinn 170 tbl 8.9.1974

Árið 1987 urðu konur í fyrsta skipti fjölmennari en karlar í hópi innritaðra stúdenta við Háskóla Íslands. Það ár var Háskólinn á Akureyri stofnaður og í kjölfarið fylgdu fleiri skólar á háskólastigi. Háskólaárið 2018−2019 voru konur orðnar nær tveir þriðju stúdenta sem útskrifuðust með fyrstu háskólagráðu frá íslenskum háskólum, nokkuð yfir tveir þriðju útskrifaðra með meistaragráðu og yfir helmingur þeirra með doktorsgráðu. Talsverður munur var reyndar á námsvali karla og kvenna.

Draumar Rauðsokka um aukna möguleika kvenna til náms urðu því að veruleika á tiltölulega skömmum tíma þótt námsval kvenna tæki ekki eins hröðum breytingum og vænst var. Enn hefur saga og hlutur kvenna ekki verið dregin fram sem skyldi í námsefni barna og unglinga, þótt mikið hafi áunnist.

 

Sjá nánar: Dagvistun.

Fyrri síða Mismunun í námi barna og unglinga

Næsta síða Skjöl