Um safnið

Kvennasögusafn Íslands hefur starfað sem sérstök eining innan Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu frá árinu 1996 og er staðsett á 1. hæð þess. Markmið þess er að skrá, varðveita og safna heimildum um sögu kvenna ásamt því að miðla þeirri þekkingu og hvetja til rannsókna. Það er eina safnið sinnar tegundar á Íslandi.

Safnið er opið alla virka daga. Á safninu er hægt að fá upplýsingar um sögu kvenna og afhenda skjöl. Hafið samband til að bóka heimsókn. Gögn Kvennasögusafns eru lánuð á lestrarsal Íslandssafns á 1. hæð Þjóðarbókhlöðunnar. 

Fagstjóri safnsins er Rakel Adolphsdóttir [rakel.adolphsdottir (hjá) landsbokasafn.is].

Þriggja manna stjórnarnefnd Kvennasögusafns Íslands skipa:
Bragi Þorgrímur Ólafsson, fulltrúi Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns
Vilborg Eiríksdóttir, fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands
Ragnheiður Kristjánsdóttir, fulltrúi RIKK–Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum

Fyrrum stjórnarmeðlimir:
Fulltrúar Kvenfélagasambands Íslands:
Stefanía María Pétursdóttir 1998–2005
Helga Guðmundsdóttir 2005–2016
Ingibjörg H. Hafstað 2017–2018 

Fulltrúar Landsbókasafns Háskólabókasafns:
Erna Sverrisdóttir 1998–1999
Emilía Sigmarsdóttir 2000–2006
Edda G. Björgvinsdóttir 2007–2014

Fulltrúar RIKK:
Sigríður Th. Erlendsdóttir 1998–2005
Kristín Ástgeirsdóttir maí 2005–2007
Erla Hulda Halldórsdóttir 2008–2013

Fyrrum forstöðukonur safnsins voru Auður Styrkársdóttir (2001-2016), Erla Hulda Halldórsdóttir (1996-2001) og Anna Sigurðardóttir (1975-1996).

Saga safnsins

„Vonandi verða framfarirnar í málum kvenna svo örar, að þess verði ekki langt að bíða að karlmannaþjóðfélagið sem slíkt líði undir lok, þannig að saga kvenna og karla verði samofin sem uppistaða og fyrirvaf, með jafnsterkum þáttum beggja í hvoru tveggja. Þá yrðu kvennasögusöfnin eins konar fornfræðasöfn. En hrædd er ég um, að það verði nokkuð langt þangað til.“ - Anna Sigurðardóttir  í útvarpsviðtali 20. janúar 1978. 

Safnið var stofnað 1. janúar árið 1975. Að stofnun þess stóðu Anna Sigurðardóttir, Else Mia Einarsdóttir og Svanlaug Baldursdóttir. Anna Sigurðardóttir var fyrsti forstöðumaður safnsins og rak það á heimili sínu á Hjarðarhaga í Reykjavík fram til ársins 1996.

Anna fæddist árið 1908 á Hvítárbakka í Borgarfirði og lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Hún tók virkan þátt í starfi kvenfélaga og lagði kvennabaráttunni margháttað lið. Fyrir brautryðjendastarf sitt í íslenskum kvennarannsóknum var hún gerð að heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1986, fyrst íslenskra kvenna. Hún lést árið 1996.

portrett 3

 

Markmið Kvennasögusafns Íslands hafa verið frá 1975:
1. Að safna og varðveita hvers konar prentað mál um konur að fornu og nýju, bækur og handrit eftir konur, óprentuð handrit og bréf kvenna svo og önnur skjöl, fundargerðir, starfsskýrslur og skjöl hinna ýmsu kvennasamtaka og erlend rit sem hafa gildi fyrir sögu kvenna.
2. Að sjá til þess að skráð sé allt sem safnið eignast, einnig ýmsar heimildir til sögu kvenna sem er að finna annars staðar.
3. Að greiða fyrir áhugafólki um sögu íslenskra kvenna og veita aðstoð við að afla heimilda og miðla þekkingu um sögu kvenna.
4. Að hvetja fólk til að halda til haga hvers konar heimildum sem gildi kunna að hafa fyrir sögu kvenna.
5. Að gefa út fræðslurit og heimildaskrár.
6. Að hafa samvinnu við önnur kvennasögusöfn.

Um sögu safnsins má lesa í þessum ritgerðum:

Sigríður Th. Erlendsdóttir, „Anna Sigurðardóttir“ Andvari- Nýr flokkur XLII, 125. ár (2000), bls.  11-68
Erla Hulda Halldórsdóttir, „Anna Sigurðardóttir og Kvennasögusafn Íslands“ Ritmennt. Ársrit Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns 2 (1997), bls. 81-106
Svanlaug Baldursdóttir, „Í Kvennasögusafni Íslands“ Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttir, Reykjavík 1980, bls. 1-11

Útgáfur safnsins - raðað eftir útgáfuári

Anna Sigurðardóttir, Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands, 1985.

Kvennasögusafn Íslands & Anna Sigurðardóttir. Kvennarannsóknir : 10 listar yfir ritgerðir, greinar, bækur, dagskrá og fleira, aðallega frá árunum 1968-1985, sem til er í Kvennasögusafni Íslands. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands, 1986.

Anna Sigurðardóttir, Allt hafði annan róm áður í páfadóm : Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands, 1988.

Anna Sigurðardóttir, Icelandic Libraries and Archives :, 27-28. í Hill, D. Icelandic libraries and archives : A selective guide for researchers. (Department of Scandinavian studies ; WITS Wisconsin Introductions to Scandinavia, 5). Madison, Wis.: University of Wisconsin-Madison, 1988.
 
Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir, Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands, 1998.
 
Anna Agnarsdóttir og Sigríður Th. Erlendsdóttir, Kvennaslóðir : Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands, 2001.

Auður Styrkársdóttir, Kvennasöguslóðir í Kvosinni. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands, 2002.

Auður Styrkársdóttir, Women's history walking trail in central Reykjavík. Þýtt af Keneva Kunz. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands, 2003.

Auður Styrkársdóttir, & Kristín Ástgeirsdóttir. Kosningaréttur kvenna 90 ára : Erindi frá málþingi 20. maí 2005. Reykjavík, Kvennasögusafn Íslands og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum, 2005.

Myndir úr sögu Kvennasögusafns Íslands

Anna Sigurðardóttir-stofnunKvennas.safnsJPG

 

Anna Sigurðardóttir-kvennafrísgögnJPG

 

Anna Sigurðar & Vigdis Finnboga

*Síðast uppfært 25. febrúar 2021