Upphafið

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Sagan»  Upphafið

LR JÓÞ Reykjavík 1

Rauðsokkahreyfingin á Íslandi var grasrótarhreyfing sem varð til á miklum umbrotatímum árið 1970. Á þessum tíma spruttu upp róttækir baráttuhópar kvenna sem margir kenndu sig við rauða sokka og gerðu kröfur róttækra baráttuhópa kvenna, vestan hafs og austan, að sínum. Krafa þeirra var breyting á stöðnuðum viðhorfum til kvenna og niðurnjörvuðu hlutverki þeirra í samfélaginu. Nýja kvennahreyfingin fetaði í fótspor formæðranna sem í aldaraðir háðu sína frelsisbaráttu, unnu sigra og bættu hag kvenna. Rauðsokkar tóku við keflinu og unnu með sínum áherslum að framförum og viðhorfsbreytingum sem gjörbreyttu möguleikum kvenna til aukins frelsis á síðari hluta 20. aldarinnar.

Íslensku Rauðsokkarnir störfuðu í 12 ár og voru, eins og sagan sýnir, brimbrjótar fyrir kynslóðir nýrra kvennahreyfinga. Ævintýrið hófst með því að á vordögum 1970 bárust íslenskum konum tíðindi af kynsystrum úti í heimi sem höfðu hafið róttæka kvenfrelsisbaráttu. Fréttin barst inn í saumaklúbba sem breyttust í umræðuhópa. Áhugasamar konur úr kvennastéttum, kennarar og fleiri, hófu á kaffistofum að ræða ólíka stöðu kynjanna í þjóðfélaginu og leiðir til að rétta hana af. Konur í listgreinum stukku á vagninn, því eins og Vilborg Dagbjartsdóttir komst að orði í hvatningarræðu síðar, „... á þessu vori hafa þau ánægjulegu tíðindi gerst, að hvarvetna eru ungar konur vaknaðar til vitundar um heiminn í kringum sig og til vissunnar um eigin þrótt og ábyrgð.“

KSS63_A48_006

Hóparnir hóuðu sig saman og með hjálp kunningjatengsla var boðað til stærri funda. Hópur kvenna hittist á kaffistofu Norræna hússins 24. apríl 1970 til að ræða stofnun einhvers konar opinna samtaka Rauðsokka um kvenfrelsisbaráttu. Þegar fjölgaði í hópnum fluttu þær sig niður í óinnréttaðan kjallara hússins og sátu þar í hring á gólfinu, alls 28 konur. Þarna var þátttaka í verkalýðsgöngunni ákveðin þar sem hópurinn taldi sig eiga samleið með hinum vinnandi stéttum. Ákveðið var að hafa örfá hvatningarspjöld og vísa með þeim til kvennanna sjálfra fremur en þjóðfélagsins sem heildar.

Konur sperrtu eyrun við hádegistilkynningu í útvarpinu 1. maí 1970: „Konur á rauðum sokkum, hittumst á Hlemmi klukkan hálf eitt“. Og þær hópuðust niður á Hlemm til að sameinast með sínar kröfur í verkalýðsgöngunni, reyndar í óþökk Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, sem skipaði þeim aftast í gönguna eftir þó nokkrar samningaviðræður. Þar gengu þær glaðbeittar með hvatningarspjöld með slagorðunum „Vaknaðu kona“ og „Konur nýtum mannréttindin“ og báru á öxlum sér stóra Venusarstyttu sem á stóð „Manneskja ekki markaðsvara“. Styttan var leikmunur úr leiksýningu Herranætur MR á Lýsiströtu. Óhætt er að segja að vegfarendur hafi tekið þeim vel og kunnað að meta þessa litríku uppákomu Rauðsokka. Dagblaðið Tíminn hafði komist á snoðir um væntanlega kröfugöngu Rauðsokka og gat blaðið því birt samdægurs frétt af göngunni undir fyrirsögninni „Konur mótmæla í dag!“  

LR ÞJV 034 077 4-4

Eftir árangursríka kröfugöngu kvenna rituðu tvær forgöngukonur Rauðsokka, báðar kennarar, hvatningagreinar. Í greininni „Öreigar og velferðarþjóðfélag“ í Þjóðviljanum 22. maí greinir Vilborg Dagbjartsdóttir frá því þegar 28 konur komu saman 24. apríl í Norræna húsinu til að undirbúa kvennahreyfingu. Hún segir: „Um eitt voru þær sammála, að þær vildu stofna einhvers konar opin samtök, sem ynnu að því með nýjum aðferðum að fá konur til þess að taka fullan þátt í opinberu lífi og nota réttindi sín.“ Í grein sem Helga Sigurjónsdóttir ritaði í Morgunblaðinu 30. maí, „Hvað eru rauðsokkar?“, kynnti hún Rauðsokkahreyfinguna til leiks, hvaðan hún væri sprottin og markmið hennar.

 

Níu listakonur héldu fund 25. maí 1970 á Hótel Borg. Þær ræddu meðal annars nauðsyn þess að koma kröfum kvenna á framfæri við almenning, en söguleg 1. maí ganga kvenna hafði verið sniðgengin í sumum fjölmiðlum, meðal annars bæði í útvarpi og sjónvarpi.

Sumar konur úr Kvenréttindafélagi Íslands litu Rauðsokka hornauga fyrir að koma fram sem nýtt baráttuafl fyrir réttindum kvenna í stað þess að vinna með þeim að einu öflugu félagi. Þeirri hugmynd höfnuðu Rauðsokkar frá upphafi. Æskunefnd félagsins, Úurnar, starfaði á eigin nótum og gagnrýndi meðal annars kynjahalla í skólabókum og lét til sín taka í svokölluðu Kvennaskólamáli, þar sem hún hafnaði menntaskóla eingöngu fyrir stúlkur. Í júní árið 1970 birtist grein í Vísi „Kvenréttindi - mannréttindi“, þar sem blaðamaður gerir grein fyrir því hvað skilji vinsældir Rauðsokkahreyfingarinnar frá hnignandi gengi Kvenréttindafélags Íslands og nefnir þar á meðal að Kvenréttindafélagið hafi sniðið sér þrengri stakk með því að hafna inngöngu karla.

 

Sjá nánar: Hugmyndafræði.

Fyrri síða Sagan

Næsta síða Undirbúningur að starfi