Aðgangur að námi

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Menntun»  Aðgangur að námi

Forvitin rauð  1.12. 1980

Framtíðarsýn Rauðsokka var að konur hefðu aðgang að öllu námi sem í boði væri hérlendis og sæktu sér menntun til jafns við karla eins og lýst er í tímaritinu Samvinnunni 1971, sem var tileinkað Rauðsokkahreyfingunni. En ekki var allt nám opið konum, Hótel- og veitingaskólinn og Vélskólinn voru til að mynda lokaðir konum á þessum árum. Fyrstu tvær konurnar hófu nám í Lögregluskólanum árið 1973 og fyrsta konan settist í Vélskóla Íslands árið 1974. Rauðsokkar vildu einnig opna aðgang drengja að öllum skólum, húsmæðraskólunum í landinu yrði breytt í skóla í heimilisfræðum sem væru opnir drengjum jafnt sem stúlkum og sama ætti við um Kvennaskólann í Reykjavík. Úur, sem voru ungar konur í Kvenréttindafélagi Íslands, og Rauðsokkar beittu sér fyrir undirskriftasöfnun gegn því að Kvennaskólinn fengi að útskrifa stúdent nema tryggt væri jafnframt að piltum yrði veittur aðgangur að skólanum. Stundum voru takmarkanir kvenna í námi óbeinar. Til dæmis sagði í auglýsingu frá 1970 að Loftleiðir hf. hefðu ákveðið að aðstoða nokkra pilta til flugvirkjanáms í Bandaríkjunum. Auðvelda átti valið með samkeppnisprófi í ensku, eðlisfræði og stærðfræði, miðað við námsefni gagnfræðaprófs.

Konur í Háskóla Íslands, sumar úr Rauðsokkahreyfingunni, stofnuðu umræðuhóp um jafnrétti í skólanum haustið 1980. Þeim fannst ýmislegt ábótavant í þeim efnum og lögðu áherslu á vitundarvakningu stúdenta. Hópurinn kom í október sama haust í vikulegt morgunkaffi Rauðsokka, sem haldið var á laugardögum, til að segja frá starfi sínu og ræða menntunarmál kvenna.

Forvitin rauð 8. mars 1979 bls 30

Ýmsar hindranir voru í vegi kvenna sem vildu afla sér menntunar og búa sig undir þátttöku í atvinnulífinu. Niðurstöður könnunar Rauðsokka í Kópavogi á dagvistunarþörf benti til að menntun kvenna tengdist þátttöku þeirra í atvinnulífinu, þær sem höfðu meiri menntun unnu frekar úti, og að skortur á dagvistun hindraði skólagöngu. Könnun ungra Rauðsokka á launum nemenda í ýmiss konar sumarvinnu árið 1971, sem sagt var frá í útvarpsþætti Rauðsokka, dró fram að piltar höfðu mun betri möguleika á að fá vinnu allt sumarið en stúlkur og laun þeirra gátu verið allt að helmingi hærri að meðaltali á mánuði en stúlknanna.

Í niðurstöðum starfshóps á kvennaársráðstefnunni í júní 1975 var bent á að ungar stúlkur miðuðu námsval sitt við að dreifa starfskröftunum á tvo vettvanga, heimili og vinnustað, og ætluðu sér því styttra framhaldsnám en piltar. Í öðrum starfshópi um konur og vísindi var dregið fram mikilvægi þess að uppeldisleg viðhorf breyttust, að tilfinningalíf drengja væri ekki bælt og rökhyggja stúlkna og þróttur fengju notið sín.

 

Sjá nánar: Dagvistun.

Fyrri síða Staðan 1970

Næsta síða Mismunun í námi barna og unglinga