Skógarráðstefnan 1974

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Hugmyndafræði»  Skógaráðstefnan 1974

Sú gleði og sá eldmóður sem einkenndi hreyfinguna laðaði konur til fylgis við hana framan af, valddreifingin sem fólst í flatri byggingu hennar, sjálfstæði grunnhópa og persónulegri vinnu kvenna í þeim var aðlaðandi. Þegar frá leið var þörf á að setja niður hugmyndafræðilega og pólitíska stöðu, stefnu og sérstöðu hreyfingarinnar. Hún var umdeild, annars vegar var sóst eftir liðveislu hennar utan frá og hins vegar sótt að henni af mikilli óvild.

KSS63_A28_018

Rauðsokkahreyfingin stóð fyrir fjölda ráðstefna um margvísleg efni, en þær voru misjafnlega afdrifaríkar. Um sumarið 1974 var blásið til ráðstefnu Rauðsokkahreyfingarinnar. Skýr baráttumarkmið höfðu verið til frá upphafi hreyfingarinnar en miðstöð taldi engu að síður þörf á nýrri markmiðslýsingu þar sem Rauðsokkahreyfingin tæki sér afdráttarlausa stöðu í hinu pólitíska rófi. Ákveðið var að boða til ráðstefnu á Skógum undir Eyjafjöllum 15.–17. júní 1974. Á dagskrá fundarins var ný stefnuyfirlýsing sem stefnulýsingarhópur hafði útbúið. Fyrsta efnisgreinin var svohljóðandi: „Barátta kvenna fyrir jafnrétti kynjanna verður ekki slitin úr tengslum við baráttu undirokaðra stétta fyrir þjóðfélagslegum jöfnuði, né heldur verður sigur unninn í verkalýðsbaráttunni án virkrar þátttöku kvenna.“

KSS63_A28_017Þetta hefði ekki þurft að koma neinum á óvart því yfirlýsingin var í samræmi við þá þróun sem átti sér stað á Norðurlöndunum og vegna þess að Vilborg Harðardóttir, blaðamaður, og ein af frumkvöðlunum, hafði kynnt fundarefnið og rök sín á jafnréttissíðu sinni í Þjóðviljanum. Meginefni ráðstefnunnar var þar með auglýst og um leið innlegg í umræðuna eftir grein Vilborgar undir yfirskriftinni: „Þetta er stéttabarátta“.

Áður var vitað að Rauðsokkar höfðu ólíkar skoðanir á stjórnmálum og undirliggjandi ágreiningur um mikilvæg mál var farinn að hamla hreyfingunni að sögn Vilborgar Harðardóttur. Það kom miðstöð hins vegar á óvart hve mikill þessi ágreiningur var. Hart var tekist á um hina nýju markmiðslýsingu en tillagan var að lokum samþykkt með 23 atkvæðum gegn fimm. Þetta var sársaukafullt uppgjör og tók mjög á hreyfinguna.

 

Fyrri síða Markmið og skipulag

Næsta síða Innri átök