Lagasetning í dagvistunarmálum

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Dagvistun»  Lagasetning í dagvistunarmálum

KSS63_A34_019aMikil áhersla var á að fyrirliggjandi frumvarp til laga um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila, sem lagt var fram á Alþingi 1971 og 1972, hlyti brautargengi. Rauðsokkahreyfingin, Kvenréttindafélag Íslands og Úur, ungar konur í Kvenréttindafélaginu, stóðu að undirskriftasöfnun til stuðnings frumvarpinu haustið 1972.

Í kjölfarið sendi miðstöð Rauðsokka erindi til fjárveitinganefndar Alþingis um stuðning við frumvarpið ásamt undirskriftalista með rúmlega tvö þúsund nöfnum. Lögin voru síðan samþykkt á Alþingi 11. apríl 1973. Þar segir að ríkið skuli greiða 50% stofn- og rekstrarkostnaðar. Með lögum um breytingar á lögum vegna nokkurra verkefna sveitarfélaga sem samþykkt voru í árslok 1975 var hlutur ríkisins að rekstrinum felldur úr gildi.

Á ráðstefnu um kjör láglaunakvenna sem haldin var á Hótel Loftleiðum 16. maí 1976 var ályktun samþykkt  þar sem þessi breyting var fordæmd. Þar sagði að lausn fengist ekki á uppbyggingu dagvistarstofnana nema ríki og sveitarfélög stofnuðu og rækju saman eins og við átti um skóla.

Ný lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn voru samþykkt á Alþingi ári síðar, 1976. Þar var kveðið á um að ríkið styrkti að hluta byggingu heimila samkvæmt umsóknum frá sveitarfélögum eða öðrum aðilum, en reksturinn skyldi vera á hendi sveitarfélaga eða annarra aðila með styrk frá sveitarfélagi

Fyrri síða Hvatningaraðgerðir

Næsta síða Arfleifð