Menning og listir

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Sagan»  Menning og listir

KSS63_A48_005

Hvers kyns listræn tjáning með femínískum áherslum styrkti Rauðsokka, svo sem veflist Hildar Hákonardóttur og grafíkmyndir Ragnheiðar Jónsdóttur. Eins má nefna fjölbreyttar myndir sem Rauðsokkar birtu í Forvitinni rauðri og á ýmiss konar veggspjöldum, einkum eftir Eddu Óskarsdóttur, og á korti eftir Sigrúnu Eldjárn.

Rauðsokkar vöktu athygli á bókmenntum og list kvenna. Ritverk og myndlist Ástu Sigurðardóttur í tali og tónum var kynnt árið 1977 fyrir fullu húsi í Norræna húsinu. Með þá dagskrá var farið út á land, til dæmis til Neskaupstaðar og Ísafjarðar. Þá var haldin kynning á skáldverkum Jakobínu Sigurðardóttur árið 1979. Sögur og leikrit Svövu Jakobsdóttur höfðu áhrif á þá vitundarvakningu kvenna sem reis á þessum árum.

Rithöfundar komu í Sokkholt og kynntu bækur sínar. Kvennabókmenntir var nýtt hugtak á þessum tíma og Rauðsokkar tóku viðtal í Þjóðviljanum árið 1976 við Helgu Kress bókmenntafræðing um konur í bókum nokkurra íslenskra rithöfunda. Helga var með innlegg á námskeiði hjá Rauðsokkum, „Hvað er kvennabarátta“, í desember 1979. Í Forvitinni rauðri birtist árið 1979 grein eftir Dagnýju Kristjánsdóttur um konur og bókmenntir undir heitinu „Um draum og veruleika í bókmenntum“.

Baráttusöngvar gegndu stóru hlutverki í Rauðsokkahreyfingunni og margir tónlistarmenn lögðu henni lið. Textana sömdu Rauðsokkar gjarnan eða þýddu. Kór Rauðsokka, sem hét upphaflega Sönghópur Rauðsokka, starfaði á árunum 1978–1980 og söngbókin Syngjandi sokkar var gefin út 1980. Platan Áfram stelpur kom út árið 1975.

 hildur og ragnheiður

 

 

 

 

 

 

Fyrri síða Gjörningar, ráðstefnur og hátíðir

Næsta síða Hreyfingin hættir