Sjálfsákvörðunarréttur kvenna

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Þungunarrof»  Sjálfsákvörðunarréttur kvenna

KSS63_A23_102

Rauðsokkar lögðu áherslu á að halda málinu vakandi og kappkostuðu við að koma umfjöllun um frumvarpið frá 1973 á dagskrá áfram eftir ýmsum leiðum. Rauðsokkahreyfingin helgaði eitt tölublað af blaði sínu Forvitinni rauðri fóstureyðingum í janúar 1974 með frásögnum af reynslu kvenna, ráðleggingum og umfjöllun um gildandi lög og fóstureyðingafrumvarpið frá 1973.

Á rauðlitum síðum blaðsins birtust tíu reynslusögur kvenna sem fengið höfðu neitun um fóstureyðingu. Ástæðurnar voru meðal annars að læknir eða aðrir sérfræðingar töldu að heilsufar þeirra væri ekki nógu slæmt eða ekki var tekið tillit til félagslegra aðstæðna. Þær höfðu því farið í ólöglega fóstureyðingu eða komið var af stað fósturláti, og borguðu þær jafnvel meira en mánaðarlaun fyrir.

Sumar fóru í löglega fóstureyðingu í London, í einhverjum tilfellum með aðstoð Rauðsokka, og ein hafði farið til eins Norðurlandanna og fengið nær ókeypis fóstureyðingu. Í blaðinu voru gefin upp heimilisföng og símanúmer stofnana erlendis sem framkvæmdu löglegar fóstureyðingar og talin upp lönd þar sem fóstureyðing var lögleg. Einnig var unnt að fá hjá Rauðsokkahreyfingunni enn nánari upplýsingar þar um

KSS63_A28_042

Hjá hreyfingunni lágu einnig fyrir leiðbeiningar um ferlið við umsókn um fóstureyðingu samkvæmt lögunum frá 1935 og 1938 og umsókn um fóstureyðingu erlendis, en lögð áhersla á að þeim væri ekki dreift en aðeins veittar þeim sem leituðu eftir. Ákveðinn hópur sá um að veita þessar upplýsingar.

Ítarlegur samanburður var gerður í blaðinu á þágildandi tvennum lögum sem snertu fóstureyðingar og frumvarpinu sem lagt hafði verið fram árið 1973. Þar var einnig birt yfirlit yfir synjanir um fóstureyðingu eða vönun á árunum 1964 til 1970 þar sem lesa mátti um aðstæður þess fólks sem um ræddi, andlega og líkamlega heilsu og hvers vegna leyfis var synjað. 

KSS63_A48_007

Grein í blaðinu, skrifuð af lögfræðingi, fjallaði um gildandi lög, ástæður þess að kona leitar hugsanlega eftir fóstureyðingu og rök fyrir sjálfsákvörðunarvaldi kvenna í þessum efnum. Í lok hennar sagði: „Konan getur ... ekki orðið manninum jafnrétthá fyrr en hún býr við jafnmikið kynferðislegt frjálsræði ...“ og ef „til séu viss frumréttindi sem öllum ... beri að jöfnu ... þá eru beinlínis brotin lög á konum á meðan frelsi þeirra, einkalíf og sjálfsákvörðunarréttur er ekki fyllilega virtur.“ 

Önnur grein eftir lækni lýsti löglegri og ólöglegri fóstureyðingu og þeim hættum sem fylgdu aðgerð við óviðunandi aðstæður. Í grein um kynlíf og kynhvöt sagði meðal annars: „Ráðandi stéttir verða að byggja á kynbælingarþjóðfélaginu til að fá stöðugt vinnuafl og nægilega undirgefni.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Umræðan hélt einnig áfram í dagblöðunum og Forvitinni rauðri. Til dæmis má nefna grein í Morgunblaðinu um bágar aðstæður einstæðra mæðra.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrri síða Fóstureyðingafrumvarpið 1973

Næsta síða Breytt frumvarp og lög 1975