Kvennafrídagur 24. október 1975

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 skyldi sérstaklega helgað málefnum kvenna. Íslensk kvennasamtök tóku höndum saman í upphafi árs 1975 til að skipuleggja aðgerðir ársins og héldu m.a. fjölsótta ráðstefnu í júní þar sem staða og kjör kvenna voru rædd og fjölmargar ályktanir og tillögur samþykktar. Meðal þeirra var tillaga frá Rauðsokkahreyfingunni þess efnis að konur tækju sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna, þann 24. október.
Kvenfélög og kvennasamtök mynduðu sérstaka nefnd í september 1975 til að undirbúa kvennafrí. Hún undirbjó daginn mjög vel um allt land og stóð m.a. fyrir útifundi á Lækjartorgi. Talið er að um 25.000 konur hafi safnast þar saman. Líklega er þetta einn stærsti útifundur Íslandssögunnar. Fjölmargir fundir voru haldnir um allt land sem voru einnig fjölsóttir. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og atvinnulífið lamaðist. Hér má lesa skemmtilega frásögn af verkfalli þriggja ungra kvenna á millilandafraktskipinu Fjallfossi.
Framtak íslenskra kvenna vakti athygli erlendra blaða- og fréttamanna og víða birtust myndir af útifundum og viðtöl við íslenskar konur í erlendum fjölmiðlum. Aðgerð af þessu tagi hafði verið undirbúin í öðrum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, en sú íslenska bar af þeim öllum. Má það ekki síst þakka skipulagi og undirbúningi Kvennaársnefndar. Nefndina skipuðu Elísabet Gunnarsdóttir, Valborg Bentsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Ásthildur Ólafsdóttir, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Björk Thomsen, Erna Ragnarsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Margrét S. Einarsdóttir og Stella Stefánsdóttir.

Kvennafrí 1975. KSS 1.
38 images
Hvað gera karlmenn þá? Svör frá 1975.
17 images
Dagskrá fundarins:

- Fundarstjóri: Guðrún Erlendsdóttir
- Dagskrárstjóri: Guðrún Ásmundsdóttir
- Lúðrasveit stúlkna í Kópavogi leikur
- Fundur settur - Guðrún Erlendsdóttir, fundarstjóri
- Ávarp - Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, verkakona
- Fjöldasöngur undir stjórn Guðrúnar Á. Símonar. Lag: „Hvers vegna kvennafrí?“
- Alþingismannahvatning - Sigurlaug Bjarnadóttir og Svava Jakobsdóttir alþingismenn koma fram
- Fjöldasöngur - lag: „Svona margar“
- Þáttur Kvenréttindafélags Íslands: „Til Fósturlandsins Freyju“ eftir Valborgu Bentsdóttur, höfundur flytur. Völvuþáttur tekinn saman af konum í stjórn KRFÍ. Lilja Ólafsdóttir, Amalía Sverrisdóttir og Elfa Björk Gunnarsdóttir flytja.
- Sólveig Ólafsdóttir, formaður KRFÍ flytur ljóðið ,,Kvennaslagur" eftir Guðmund Guðmundsson.
- Kór kvenna undir stjórn Jónínu Gísladóttur syngur lag Sigfúsar Einarssonar við þetta ljóð, en höfundar tileinkuðu KRFÍ lag og ljóð á fyrstu starfsárum þess.
- Ávarp - Björg Einarsdóttir, verslunarmaður
- Fjöldasöngur - lag: „Ó, ó, ó stelpur“
- Þáttur Rauðsokkahreyfingarinnar - Rauðsokkur flytja ávörp og kynna baráttusöngva
- Ávarp - Ásthildur Ólafsdóttir, húsmóðir
- Kvennakróníka í þríliðu - Anna Sigurðardóttir, Sigríður Thorlacius og Valborg Bentsdóttir tóku saman. Þáttinn flytja Anna Kristín Arngrímsdóttir, Helga Bachmann, Sigríður Hagalín, Bríet Héðinsdóttir, Sigurður Karlsson og Herdís Þorvaldsdóttir, sem stjórnar
- flutningi
- Fjöldasöngur - lag: „Öxar við ána“
- Fundi slitið- Guðrún Erlendsdóttir, fundarstjóri
- Lúðrasveitin leikur - lag: „Saman við stöndum“ og fleiri lög


Gögn Kvennafrídagsnefndarinnar eru varðveitt á Kvennasögusafni: KSS 1. Kvennafrí 1975. Einkaskjalasafn.
Einnig má finna gögn varðandi kvennafrídaginn 1975 á Hérðasskjalasafni Akureyrar.
Ítarefni
- Björg Einarsdóttir, „Kveikja að kvennafríi“, Húsfreyjan 1, 37. árg. 1986, s. 9-18.
- Gerður Steinþórsdóttir, „Í samstöðunni felst sigur kvenna—Framlag íslenskra kvenna til alþjóðlega kvennaársins“, Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur. Sögufélag, Reykjavík 1980, s. 45-55.
- Guðrún Erlendsdóttir, „Áhrifin eru enn að skila sér í þjóðfélaginu : Guðrún Erlendsdóttir rifjar upp Kvennafrídaginn 1975 [viðtal]. 19. Júní (2010), bls. 28-30.
- Hildur Hákonardóttir, Já, ég þori, get og vil : Kvennafrídagurinn 1975, Vilborg Harðardóttir og allar konurnar sem bjuggu hann til. Reykjavík: Salka, 2005.
- Jónína Margrét Guðnadóttir.,Konur, hvað nú? : Staða íslenskra kvenna í kjölfar kvennaárs og kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna 1975-1985. Reykjavík: Jafnréttisráð, 1985.
- Kristín Svava Tómasdóttir, „24. október 1975 - kvennafrí eða kvennaverkfall?“ Sagnir, 2009, bls. 19-25.
- Kvennaársnefnd. Skýrsla Kvennaársnefndar. Reykjavík: Forsætisráðuneytið, 1977.
- Olga Guðrún Árnadóttir. Á rauðum sokkum : Baráttukonur segja frá. Reykjavík: Háskólaútgáfan : Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum, 2011.
- Steinunn Jóhannesdóttir. „Kvennafríið 1975 – þor og vilji tryggðu samstöðuna“ Morgunblaðið 29. nóvember 2018, bls. 48–49
Myndband frá deginum í eigu RÚV má finna á youtube,.
Aðgerðir á Kvennafrídaginn hafa verið endurteknar árin 1985, 2005, 2010, 2016, 2018 og 2023.
*Síðast uppfært 24. október 2024