Jafnréttisnefnd Neskaupstaðar

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Rauðsokkaandi um landið»  Jafnréttisnefnd Neskaupstaðar

KSS 2021_24-146Ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, Helga Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi, hafði á miðju kvennaári forgöngu um stofnun fyrstu jafnréttisnefndarinnar á vegum bæjarfélags að norskri fyrirmynd. Hugmyndin frá Kópavogi breiddist út, meðal annars til Neskaupstaðar. Að frumkvæði Rauðsokka í bænum stofnaði bæjarstjórn Neskaupstaðar jafnréttisnefnd sveitarfélagsins ári síðar eða 1976 og var henni í upphafi ætlað að starfa út jafnréttisáraratuginn eða til ársins 1985. Nefndin var mjög virk, gerði könnun á stöðu kynjanna í bænum og sinnti verkalýðs-, uppeldis- og menningarmálum, auk þess sem hún sendi frá sér bréf og álitsgerðir. Slíkar nefndir voru stofnaðar í fleiri sveitarfélögum. Jafnréttisráð (stofnað 1976) sendi í ágúst 1978 öllum sveitarstjórnum landsins áskorun um að koma á fót jafnréttisnefndum, þremur árum eftir að fyrsta jafnréttisnefndin var stofnuð og sjö árum áður en jafnréttisnefndir í sveitarfélögum voru nefndar í lögum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Könnun og dreifibréf

Skoðanakönnun um stöðu kynjanna var gerð í samvinnu jafnréttisnefnda í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Neskaupstað undir handleiðslu félagsfræðings til að kanna stöðu kvenna, viðhorf íbúa til jafnréttismála, verkaskiptingu á heimilum, dagvistarmál og fleira. Fulltrúar í nefndinni í Neskaupstað báru spurningalista til 100 kvenna og 100 karla úrtaks bæjarbúa í maí 1976 og sóttu þá síðan nokkru síðar. Niðurstöður voru vel kynntar í bænum með opinberum kynningarfundi og fimm dreifibréfum sem borin voru í hvert hús. Þau fjölluðu um viðhorf til jafnréttismála, vinnutíma, menntun, börn og verkaskiptingu á heimilum og voru skreytt með léttu yfirbragði af myndlistarkennara í bænum. Síðar eða í ágúst 1980 sendi nefndin frá sér dreifibréf um ofbeldi sem innlegg í umræðu sem þá var uppi um ofbeldi sem konur verða fyrir af hendi eiginmanna eða sambýlismanna.

Fundir um stöðu kynjanna

Ein leið jafnréttisnefndarinnar til að ná til bæjarbúa með erindi sitt var að efna til funda um ýmis málefni. Á sviði verkalýðsmála stóð nefndin fyrir um 100 manna vinnustaðarfundi á kaffistofu frystihússins um tvöfalt vinnuálag í mars 1978 í samvinnu við Verkalýðsfélag Norðfirðinga. Á dagskrá voru ávörp verkakvenna, söngur og upplestur með léttu ívafi. Gestur fundarins var verkakona frá Vestmannaeyjum, Jóhanna Friðriksdóttir. Nefndin tók einnig þátt í dagskrá verkalýðsfélagsins 1. maí 1979 í félagsheimilinu. Á alþjóðlegum baráttudegi verkakvenna 8. mars 1979 var formanni Jafnréttisnefndarinnar falið að skrifa leiðara vikublaðsins Austurlands sem fjallaði um stöðu verkakvenna, en á þessum árum kom varla fyrir að kona skrifaði leiðara blaðsins.

8 mars í Neskaupstað 1980

Uppeldismál voru á dagskrá en þar má nefna fund jafnréttisnefndarinnar með kennurum grunnskólastigs í bænum til að ræða mismunun kynjanna í skólum og þá einkum í kennslubókum. Niðurstöður starfshópa voru sendar Skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins og Ríkisútgáfu námsbóka. Sameinuðu þjóðirnar beindu því til aðildarríkja sinna að árið 1979 skyldi velferð barna sett í brennidepil. Í samvinnu við barnaársnefnd Neskaupstaðar hafði jafnréttisnefndin umsjá með tveggja daga foreldranámskeiði í apríl 1979. Stjórn námskeiðsins var í höndum Sigrúnar Júlíusdóttur félagsráðgjafa og voru þátttakendur um 20 talsins. Nefndin tók þátt í undirbúningi barnadags sem haldinn var í Egilsbúð 17. desember 1979 og dagskrá um barnabókmenntir í febrúar 1979 þar sem Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur flutti erindi.

Jafnréttisnefndin skipulagði dagskrá þann 8. mars 1980, á alþjóðlegum baráttudegi verkakvenna, í samvinnu við menningarnefnd bæjarins. Þar flutti Helga Kress bókmenntafræðingur erindi um hlut kvenna í íslenskum bókmenntum og sett var upp málverkasýning tveggja myndlistarkvenna, þeirra Guðrúnar Svövu Svavarsdóttur og Þorbjargar Höskuldsdóttur. Sama dag var haldinn baráttufundur á Egilsstöðum, en Rauðsokkahreyfingin hafði blásið nýju lífi í þennan dag með opnum fundum frá árinu 1978. Sá siður breiddist til fleiri staða á landinu. Sem dæmi var haldið upp á 8. mars af jafnréttishópi á Akureyri árið 1981. Jafnréttisnefnd Neskaupstaðar efndi aftur til dagskrár í tilefni af 8. mars 1983 og þá um kvennamenningu, nýja nálgun í frelsisbaráttu kvenna, þar sem Helga Sigurjónsdóttir flutti erindi. Hún flutti fyrirlesturinn daginn eftir á Egilsstöðum á vegum Jafnréttisnefndar bæjarins og starfshóps þar um kvennamenningu. Síðar þetta vor hittist umræðuhópur kvenna í Neskaupstað á nokkrum kvöldfundum og ræddi kvennamenningu.

Álitsgerðir

Jafnréttisnefnd Neskaupstaðar sendi frá sér álit um frumvörp til laga um jafnstöðu kvenna og karla og skattlagningu hjóna, auk umsagnar um fyrirmynd að reglugerð fyrir lífeyrissjóði. Jafnframt var söguritara bæjarins sent erindi um hlut kvenna í sagnaritun. Nefndin var í samstarfi við Jafnréttisráð Íslands og nefndarmenn sóttu fundi á vegum þess.

 

Sjá nánar: Menntun og Hugmyndafræði.

 

Fyrri síða Dreifbýlishópur Rauðsokkahreyfingarinnar

Næsta síða Arfleifð