Breytt frumvarp og lög 1975

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Þungunarrof»  Breytt frumvarp og lög 1975

KSS63_A48_008Um fimm árum eftir að fyrri nefnd um endurskoðun laga um fóstureyðingar var komið á fót skipaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingaráðherra, Matthías Bjarnason, nefnd í nóvember 1974 til að endurskoða frumvarpið frá 1973 og gera tillögur á grundvelli athugasemda sem borist höfðu. Í þessari nefnd sátu þrír karlar, en engin kona, það er fulltrúi frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti og tveir alþingismenn, og hafði hún samráð meðal annars við landlækni og stjórn Læknafélags Íslands.

Rauðsokkahreyfingin lagði engu að síður áfram áherslu á að styðja frumvarpið sem lagt hafði verið fram á þingi haustið 1973. Á ráðstefnu hreyfingarinnar að Skógum 15.−17. júní 1974 hafði verið samþykkt áskorun til Alþingis um að samþykkja frumvarpið frá 1973 óbreytt. Hreyfingin sendi bréf til nýrra alþingismanna nokkru síðar og allra alþingismanna í nóvember 1974 og hvatti þá til að styðja óbreytt frumvarp um nýja fóstureyðingarlöggjöf frá árinu 1973. Í seinna bréfinu var lögð áhersla á að konur réðu sjálfar yfir líkama sínum og fræðslu um kynferðismál, auk þess sem bent var á þann fjölda kvenna sem færi utan til að fá fóstureyðingu.

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi fyrir frjálsum fóstureyðingum 9. nóvember 1974 sendi Rauðsokkahreyfingin frá sér dreifibréf um nauðsyn þess að frumvarpið frá 1973 yrði samþykkt vegna þess að fólk ætti rétt á ráðgjöf og fræðslu um kynferðismál og konur krefðust sjálfsákvörðunarréttar. Jafnframt sendi hreyfingin fréttatilkynningu til fjölmiðla um dreifibréfið og nýlegt bréf til alþingismanna.

Breytt frumvarp lagt fram

Ráðherra lagði breytt fóstureyðingafrumvarp, samið af fyrrnefndri nefnd, fyrir Alþingi í upphafi árs 1975. Þar hafði einkum 9. greininni verið talsvert breytt, sjálfsákvörðunarréttur konunnar tekinn út og valdið til lokaákvörðunar fært í hendur lækna, stundum ásamt félagsráðgjafa. Annað efni frumvarpsins frá 1973 var nær óbreytt. Meirihluti heilbrigðis- og trygginganefndar þingsins lagði til að þetta frumvarp yrði samþykkt. Einn nefndarmanna, Magnús Kjartansson, skilaði séráliti þar sem fyrra frumvarp var stutt nær óbreytt. Í fréttaþættinum „Þingvikan“ í sjónvarpinu þann 1. febrúar 1975 var sagt frá umræðum um frumvarpið í þinginu. Sýndur var kafli úr framsöguræðu ráðherra og ræðum tveggja karlþingmanna gerð nokkur skil, en ekki minnst á hvað tvær þingkonur hefðu haft fram að færa um málið. Rauðsokkar voru í hópi fimm aðila sem átöldu þennan fréttaflutning. Umsjónarmenn þáttarins báru því við í blaðagrein nokkru síðar að kvikmyndafilma hefði verið alveg á þrotum þegar kom að ræðum kvennanna.

Breytingum á 9. greininni mótmælt

Í febrúar 1975 sendi Rauðsokkahreyfingin þingmönnum aftur bréf þar sem því var mótmælt að aðeins karlar hefðu skipað nefnd sem falið var að leggja drög að lögum sem „konur einar verða að hlíta“ og gerðar athugasemdir við nýja frumvarpið, einkum þá breytingu frá fyrra frumvarpi að nú væri „sjálfsákvörðunarréttur kvenna um fóstureyðingar tekinn af þeim og ákvörðunin falin óviðkomandi aðilum.“

Rauðsokkahreyfingin var ekki ein um að andmæla þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á frumvarpinu frá 1973 með nýju frumvarpi árið 1975. Formaður stjórnar Kvenréttindafélags Íslands sendi, fyrir hönd meirihluta stjórnarinnar, bréf til Alþingis í janúar 1975 þar sem fram kom það álit að kona væri „þess umkomin að taka sjálf endanlega ákvörðun“ um fóstureyðingu eftir að hafa hlotið tilætlaðar upplýsingar. Í síðari hluta mars 1975 sendu 100 konur alþingismönnum mótmæli vegna breytinganna á frumvarpinu frá 1973 og kröfðust þess að sjálfsákvörðunarréttur kvenna væri virtur

Alþýðublaðið 73. tbl 1975

Stofnuð voru Baráttusamtök fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna til löglegra fóstureyðinga og héldu þau fjölmennan stofnfund á Hótel Sögu í Reykjavík þann 24. mars 1975.

Aðalfundur Félags læknanema sendi frá sér ályktun um sama leyti þar sem segir meðal annars að sérþekking læknis sé óviðkomandi mikilvægustu atriðum sem ákvörðun um fóstureyðingu byggist á og henni lýkur með þeim orðum að „endanleg ákvörðun um löglega fóstureyðingu á fyrstu 12 vikum meðgöngutímans [eigi] að vera í höndum hinnar vanfæru konu.“ Alls 40 konur af 54 í læknanámi tóku í sama streng og sendu áskorun til Alþingis í byrjun apríl 1975 um að samþykkja 9. grein frumvarpsins frá 1973 óbreytta. Þær studdu skýlausan rétt kvenna til fóstureyðinga og töldu að læknar hefðu ekki „sérþekkingu eða tækifæri til að meta nema mjög takmarkað þátt allra aðstæðna konunnar.“

Umræða gegn breytingum á fyrra fóstureyðingafrumvarpi fór áfram fram á Alþingi og í blöðunum. Þann 16. apríl 1975 fjallaði Svava Jakobsdóttir alþingismaður meðal annars um ábyrgð og val á þingfundi þar sem deilt var um endanlegt ákvörðunarvald um fóstureyðingu. Hún dró fram nýtt sjónarhorn: „Í hinu breytta frv. vantar nefnilega alveg ákvæði um hvernig skuli fara ef kona, sem er læknir eða félagsráðgjafi, óskar eftir fóstureyðingu. Er hún talin fær um að dæma í eigin máli í krafti sérþekkingar sinnar eða koðnar lærdómur hennar og dómgreind niður í ekki neitt þegar hún er orðin vanfær kona?“ Móðir lýsti í heilsíðugrein í Morgunblaðinu 8. apríl 1975 hvernig henni var neitað um fóstureyðingu þótt vitað væri um áhrif rauðra hunda á fóstur og síðan hve langt væri frá því að barni hennar væri vel tekið með viðunandi úrræðum í þjóðfélaginu.

Breytingum á 9. greininni fagnað af mörgum

Margir stigu einnig fram til að taka undir þær breytingar sem gerðar höfðu verið á upphaflega frumvarpinu frá 1973. Læknafélag Íslands var sammála breytingunum og sagði í greinargerð sinni frá mars 1975 að „takmarkalaus sjálfsákvörðunarréttur konunnar í sambandi við fóstureyðingu [væri] ... ekki mögulegur“ og krafan ekki réttlát þar sem „fóstrið er ekki hennar nema að hálfu leyti og á sér einhvern tilverurétt.“ Í byrjun apríl 1975 birtist á síðum dagblaða fréttatilkynning frá 190 konum gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna þar sem þær breytingar sem þá höfðu verið gerðar á frumvarpinu frá 1973 voru studdar. Með undirskriftum sínum vildu þær mótmæla röddum sem krafist höfðu frjálsra fóstureyðinga.

Á síðum dagblaðanna mátti sjá sterk andmæli gegn baráttu Rauðsokka fyrir frjálsum fóstureyðingum og var ýmiss konar rökum beitt. Talað var um fóstureyðingar eftir duttlungum, sagt var að hér væri verið að berjast á móti náttúrunni og móðurtilfinningunni og spurt hvers vegna við værum að stæla aðrar þjóðir. Jafnvel var ákvæðum um kynlífsfræðslu mótmælt.

Umræðuþáttur um fóstureyðingar var í sjónvarpinu 16. apríl 1975. Ein úr hópi stofnenda Rauðsokkahreyfingarinnar tók þátt. Kvensjúkdómalæknir gagnrýndi þar hreyfinguna fyrir að gefa konum upplýsingar um fóstureyðingar erlendis og henni borið á brýn að hvetja til slíkra ferða í stað þess að veita upplýsingar um möguleika innanlands. Miðstöð hreyfingarinnar mótmælti þessum ummælum harðlega í fréttatilkynningu til fjölmiðla og sagði þau byggja á misskilningi og vanþekkingu á raunveruleika kvenna sem sæktu um fóstureyðingu hér á landi.

Rauðsokkahreyfingin lagði þrjár spurningar fyrir formenn þingflokka á Alþingi á árinu 1975 um afstöðu þeirra til frumvarpsins um fóstureyðingar og fleira. Svör þeirra voru kynnt í Staglinu, Fréttabréfi Rauðsokkahreyfingarinnar. Svörin um sjálfsákvörðunarrétt kvenna voru nokkuð loðin, bæði með og á móti, eða vísað til þess að málið hefði ekki enn verið tekið fyrir innan viðkomandi þingflokks. Magnús T. Ólafsson studdi sjálfsákvörðunarrétt kvenna um fóstureyðingu með þeim rökstuðningi að „frá öndverðu hefðu karlar ráðið því sjálfir, hvort þeir gerist í raun og sannleika feður barna sem þeir geta.“

Breytt frumvarp samþykkt sem lög 1975

Barátta Rauðsokka fyrir óbreyttu frumvarpi frá 1973 bar ekki árangur. Breytt frumvarp var samþykkt á Alþingi árið 1975 og hafði einkum 9. greinin tekið umtalsverðum breytingum. Félagslegar ástæður fyrir fóstureyðingu voru takmarkaðar við óviðráðanlegar félagslegar aðstæður, svo sem mörg börn, bágar heimilisaðstæður, æsku og þroskaleysi og þungun vegna nauðgunar. Læknisfræðilegar aðstæður voru takmarkaðar við heilsufar konu, hættu á að barn fæddist vanskapað eða væri með alvarlegan sjúkdóm. Áfram var miðað við fóstureyðingu fyrir 12. viku meðgöngu. Nú var sett inn ákvæði um að skrifleg rökstudd greinargerð tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa yrði að liggja fyrir um nauðsyn aðgerðarinnar. Þannig var nú búið „að sníða burt það sem fór í taugarnar á læknum, kirkju og „almenningsálitinu“, eins og ein Rauðsokka komst að orði í grein. Hún lagði áherslu á að sjálfsákvörðunarréttur kvenna í þessum efnum væru mannréttindi.

Eftir samþykkt fóstureyðingarlaga árið 1975 hélt umræðan um sjálfsákvörðunarrétt kvenna til fóstureyðingar áfram og Rauðsokkar héldu umræðunni vakandi í blaði sínu Forvitinni rauðri. Fram komu á Alþingi tillögur um breytingar á lögunum, til dæmis var lagt fram frumvarp þar sem lagt var til að ákvæðið um fóstureyðingu af félagslegum ástæðum yrði hreinlega fellt niður. Raunin varð reyndar sú að fóstureyðingu af félagslegum ástæðum var almennt ekki neitað fram að 12 vikna meðgöngu.

Fyrri síða Sjálfsákvörðunarréttur kvenna

Næsta síða Arfleifð