Friðhelgi einkalífsins

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Fjölskyldan»  Friðhelgi einkalífsins

forvitin rauð 1. tbl 79Á síðari árum Rauðsokkahreyfingarinnar fóru sjónir að beinast að ofbeldi gagnvart konum og kúgun í fjölskyldum – sem gjarnan var látin óáreitt í nafni friðhelgi einkalífsins. Friðhelgin var tekin fyrir í grein Sigrúnar Júlíusdóttur, félagsráðgjafa, í Forvitinni rauðri 8. mars 1979. Hún bendir á að „þótt einstaklingum sé refsað harðlega samkvæmt lögum fyrir svo lítið sem að dangla í náunga sinn á götu, þá getur karlmaður lúskrað á eiginkonu sinni, nauðgað henni og kúgað og foreldrar beitt börn sín hinum ótrúlegustu kúgunaraðferðum og jafnvel líkamlegu ofbeldi innan friðhelgi einkalífsins án þess að yfir slíkt nái nokkur lög eða að þjóðfélaginu beri nokkur skylda til að vernda þar einstaklingana fyrir hvor öðrum.“ Heimilis- og hjónabandserjur séu einkamál fólks.

Árið 1978 var stofnaður hópur til að lesa sér til um og kanna kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum. Í morgunkaffi Rauðsokkahreyfingarinnar í Sokkholti var rætt um nauðganir og ofbeldi gegn konum og hvernig tekið væri á þeim málum og í Neskaupstað var bæklingi dreift um ofbeldi á heimilum á árinu 1980. Miðstöð hreyfingarinnar lagði til að ofbeldi, andlegt og líkamlegt, yrði til umræðu á ársfjórðungsfundi 1981.

Þegar leið á starfstíma Rauðsokkahreyfingarinnar varð umræðan pólitískari. Í leiðara Forvitinnar rauðrar í tilefni af 8. mars 1979 var fjallað um einkarétt hins kapítalíska þjóðfélags og sagt meðal annars: „maðurinn á konuna og konan á börnin. ... Faðirinn, sem oftast er fyrirvinnan er kúgaður á sínum vinnustað. Eftir erfiðan dag kúgar hann kannski konu sína, sem aftur fær útrás á börnum sínum. Börnin fá útrás á öðrum börnum, börnum minni máttar, sem einskis mega sín.“

Sjá nánar: Kynbundið ofbeldi.

 

Fyrri síða Fyrirvinnuhugtakið

Næsta síða Arfleifð