Kvennaár í Neskaupstað

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Rauðsokkaandi um landið»  Kvennaár í Neskaupstað

Hópur Rauðsokka að sunnan heimsótti Neskaupstað á vordögum á kvennaári 1975. Þær héldu kynningarfund um hreyfinguna í félagsheimilinu Egilsbúð, sem auglýstur var á vegum „10 Rauðsokka“, sögðu frá starfi sínu og markmiðum og sátu fyrir svörum. Daginn eftir tóku þær þátt í ráðstefnu sem haldin var í Gagnfræðaskólanum um kjör kvenna til sjávar og sveita sem starfshópur kvenna í bænum hafði undirbúið. Um 40 manns, bæði konur og karlar, sóttu ráðstefnuna (íbúar í Neskaupstað þá um 1.600). Konur lýstu aðstæðum sínum og kjörum, kynntar voru niðurstöður könnunar á þátttöku kvenna í atvinnulífi bæjarins og opinberum nefndum, starfað í starfshópum og endað með umræðum. Samþykktir og ályktanir voru sendar meðal annars til ASÍ og skólanefndar Neskaupstaðar.

Kynning á verkum Ástu Sig 5 mars 1977

Nokkrum dögum síðar var einni af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, Gerði G. Óskarsdóttur, falið af halda eina af þremur ræðum á 1. maí dagskrá verkalýðsfélaganna í bænum ásamt tveimur körlum. Í tilefni kvennafrídagsins birtust svo viðtöl við níu konur á forsíðu vikublaðsins AusturlandsAllar nema ein ætluðu að taka sér frí. Flestar töldu mikilvægast að sýna samstöðu og draga fram mikilvægt framlag kvenna í þjóðfélaginu, bæði í atvinnulífi og á heimilum, þótt þær væru ekki vissar um að fríið breytti í sjálfu sér miklu. Kröfurnar voru um jafnrétti á vinnumarkaði, einkum í ráðningum og launum, og viðurkenningu á að konur væru jafningjar og jafnokar karla.

Alls komu á þriðja hundrað konur saman á Kvennafrídaginn 24. október 1975 í Egilsbúð, þar af hópur kvenna frá Eskifirði, og tóku þátt í dagskrá sem hófst kl. 10:30 og stóð allan daginn með upplestri og söng, meðal annars með frumsömdum textum. Á fundinn bárust skeyti með hamingjuóskum frá skipshöfnum átta báta og sendar voru baráttukveðjur frá fundinum til kvennafundarins á Lækjartorgi.

Samstaða kvennanna varð til þess að fjarsímaþjónusta lagðist af, kaupfélagið varð að loka verslunum sínum, skólahald fór úr skorðum, ekki var unnið í frystihúsinu og börn fylgdu feðrum sínum til vinnu. Sömu sögu var að segja víða um land auk Reykjavíkursvæðisins, til dæmis á Akureyri, Akranesi, Ísafirði og nágrannasveitarfélögum, í Stykkishólmi og Vestmannaeyjum.

Rauðsokkahópur úr Reykjavík heimsótti Neskaupstað öðru sinni, nú á vegum menningarnefndar bæjarins, og hélt kynningu á rit- og myndverkum Ástu Sigurðardóttur í Egilsbúð í mars 1977. Þessi kynning fór víðar um landið.

 

Sjá nánar: Kvennafrí.

Fyrri síða Hugmyndirnar breiðast út

Næsta síða Dreifbýlishópur Rauðsokkahreyfingarinnar