Mismunun í námi barna og unglinga

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Menntun»  Mismunun í námi barna og unglinga

Verklegar greinar

KSS63_A04_156a

Rauðsokkar vildu breyta kynjaskiptingu í verklegum greinum í barna- og unglingaskólum. Að mati starfshóps þar um byggðist hún á aldagamalli verkaskiptingu kynjanna í bændasamfélaginu þegar konur sáu um fatagerð og matseld, stelpur þyrftu því að læra hannyrðir og matreiðslu. Karlar sinntu smíðum og viðhaldi verkfæra og strákar þyrftu því að læra smíðar. Almennt voru engir möguleikar fyrir nemendur á að velja sig frá þessari aðgreiningu. Rauðsokkar lögðu áherslu á að bæði kyn stunduðu nám í heimilisfræði, smíðum og hannyrðum og bæði kyn fengju styrkjandi líkamsþjálfun í leikfimi. Starfshópurinn sendi opinbert bréf til skólastjóra skyldunámsskóla með hvatningu um að afnema mismunun eftir kynferði í verklegri kennslu barna og því þyrfti að sameina  þrískipta menntun handíðakennara.

Mismunun í verklegum greinum náði einnig út fyrir hefðbundið skólastarf. Í maí 1970 auglýsti fræðslustjórinn í Reykjavík, fyrir hönd fræðsluráðs, fjögurra vikna námskeið í júní og ágúst í hússtjórn fyrir stúlkur sem lokið hefðu barnaprófi og hefði gert allt frá árinu 1968. Sama var uppi á teningnum í sumarstörfum unglinga. Á fundi stjórnar Vinnuskóla Kópavogs 19. nóvember 1971 var bókað að sérstaklega væri „örðugt að fá verkefni við hæfi stúlkna.“ Nokkrum árum síðar kom fram í svari bæjarstjóra á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 18. júlí 1975 við fyrirspurn um Vinnuskólann að þetta sumar væru stúlkur talsvert fleiri en piltar í skólanum. Stúlkur og piltar voru sögð í aðgreindum hópum vegna þess að þannig væri auðveldara að stjórna hópunum, samkvæmt reynslu annars staðar frá reyndust blandaðir hópar erfiðari.

Námsefni

Barnagaman bls. 5Rauðsokkar bentu á hvernig efnistök og myndir í námsbókum héldu við mismunun kynjanna og væru því langt frá því að hvetja stúlkur til mennta. Í lestrarbókum blöstu við fyrirmyndir þar sem kynin voru niðurnjörvuð í hefðbundnum hlutverkum sínum, konurnar með svuntu í eldhúsinu en karlarnir að vinna margvísleg störf. Í reikningsbókum var ekki verið að fela misréttið í launum. Í einni þeirra átti að reikna út kaup kaupamanna og vinnukvenna um sláttinn og þar var tímakaup karlanna sagt vera 1.300 krónur en tímakaup kvennanna 1.075 krónur. Þögn ríkti um framlag kvenna til sögu þjóðarinnar. Í kennslubók í sögu var líf og starf karla í brennidepli en kvenna vart getið, nema þá í sérstökum kafla. Úurnar skoðuðu kennslubækur árið 1972 og töldu meðal annars fjölda stúlkna og drengja sem söguhetjur í lestrarbókum og fjölda lesdæma í reikningsbókum sem fjölluðu um kvenkyns- og karlkynspersónur og kynntu Rauðsokkum niðurstöður sínar. Í ljós kom að það hallaði ótrúlega mikið á konur og móðir sem vann utan heimilis þekktist ekki í algengustu byrjendabókum í lestri.

Á fundi kennara í Neskaupstað sem jafnréttisnefnd bæjarins efndi til í nóvember 1976 var á dagskrá að kanna kynjamisrétti í kennslubókum til að átta sig á innrætandi áhrifum þeirra. Í kennslubók í ensku skyldi meðal annars skoða fólk að störfum, leiki barna og lýsingar á fjölskyldum. Í lestrarbók handa gagnfræðaskólum var á dagskrá að skoða framtíðaráform söguhetja, hverjir skemmtu þegar fólk kæmi saman og margt fleira. Á kvennaársráðstefnunni sumarið 1975 var samþykkt ályktun um skipan nefndar til að endurskoða efni skólabóka með vísan í grein um jafnrétti kynjanna í lögum um skólakerfi frá 1974.

 

Umgjörð skólans

Foreldrablaðið. 1 tbl. 1970

Hluti af baráttumálum Rauðsokka á sviði menntamála var að breytingar yrðu gerðar á skipulagi innan skólakerfisins og þjónustu í skólum. Markmiðið var að bæta hag og menntun barna og stuðla að jöfnuði á aðstæðum og tækifærum kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins, eins og lýst var í einum útvarpsþætti Rauðsokka um uppeldi og barnaheimili árið 1972. Fyrst má nefna möguleika á heilsdagsdvöl fyrir yngstu börnin í leikskólum og lögfestingu skólaskyldu sex ára barna. Skipulag barnaskóla gerði í raun ráð fyrir því að einhver væri heima til að sjá um börnin sem voru til dæmis í skólanum eftir hádegi að mestu, en þurftu að sækja tíma í handmenntum eða íþróttum suma daga fyrir hádegi. Það þurfti líka að hafa mat í hádeginu heima fyrir börnin. Áhersla var því lögð á að skólar væru einsetnir, í stað skólasóknar annað hvort fyrir eða eftir hádegi, og þar með yrði loks unnt að lengja skóladaginn og hafa hann samfelldan frá morgni og fram á miðjan dag. Jafnframt þyrfti að koma upp skólamötuneytum í skólum og gæslu yngstu barna eftir skólatíma.

Á Norðurlöndunum utan Íslands virtist umræða um jafna stöðu kynja til menntunar vera komin lengra en hér á landi á þessum árum. Í blaðinu Forvitinni rauðri árið 1970 er greint frá því að nýlega hefði nefnd á vegum Norðurlandaráðs lokið rannsókn og gert ályktun um jafnrétti og menntun í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku, en Íslendingar ekki séð ástæðu til þátttöku. Jafnframt er greint frá því að í nýjum lögum um grunnskóla í Noregi sé sérstök grein um jafnrétti kynjanna og birtur kafli úr greinargerð með henni.

 

Sjá nánar: Dagvistun.

Fyrri síða Aðgangur að námi

Næsta síða Arfleifð