Staðan 1970

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Kynbundið ofbeldi»  Staðan 1970

Konur hafa sætt kynbundnu ofbeldi frá örófi alda. Það má sjá á fornum myndum og ýmiss konar sögum, goðsögnum og öðrum textum, þar á meðal Íslendingasögunum, Sturlungu og fleiri heimildum. Ofbeldið er eitt af valdatækjum feðraveldisins og er andlegt, líkamlegt, kynferðislegt og fjárhagslegt. Margvíslegt eðli og umfang ofbeldis gegn konum varð þó ekki þekkt fyrr en farið var að rannsaka það á áttunda áratug síðustu aldar og síðar.

Auðvitað var vitað um ofbeldi í nánum samböndum þegar Rauðsokkahreyfingin birtist á götum Reykjavíkur vorið 1970. Nauðganir á konum komust stundum í fjölmiðla, einkum ef þær áttu sér stað úti í samfélaginu, utan heimilis, til dæmis á útihátíðum og ef nauðgarinn var óþekktur. Forvitin rauð 1. tbl 1980 bls. 8Ofbeldi á átakasvæðum, sérstaklega skipulagðar nauðganir, var líka vel þekkt fyrirbæri úti í hinum stóra heimi en lítið sem ekkert var gert til að bregðast við því og fæstir gerðu sér grein fyrir því hve útbreitt og alvarlegt ofbeldið var. Þöggun var ríkjandi og lög náðu ekki yfir ofbeldi fólks í nánum samböndum. Það var talið einkamál nema að um stórkostlegan skaða væri að ræða. 

Skáldkonur voru þó farnar að skrifa um ofbeldi. Má þar til dæmis nefna Svövu Jakobsdóttur, en sögur hennar fjalla margar um andlegt ofbeldi, og Ásu Sólveigu sem fjallaði um ofbeldishjónaband í verðlaunasögu sinni Einkamál Stefaníu sem kom út 1978. Auður Haralds skrifaði Hvunndagshetjuna sem kom út 1979 og vakti mikla athygli. Einnig var farið að þýða erlendar skáldsögur þar sem kvennakúgun og ofbeldi kom við sögu, til að mynda Kvennaklósettið eftir Marilyn French og Rúmið brennur eftir Faith McNulty. Báðar þessar bækur voru þýddar af Rauðsokkunni Elísabetu Gunnarsdóttur. 

Forvitin rauð birti oft ljóð um kvennakúgun, svo sem ljóðið Mig langar svo til að vera engill eftir Jette Andersen í þýðingu Dagnýjar Kristjánsdóttur. Þar lýsir hún vel andlegri kúgun kvenna og þar með ofbeldi feðraveldisins.

Sjá nánar: Lesefni Rauðsokka.

Fyrri síða Kynbundið ofbeldi

Næsta síða Umræðan hefst