Kannanir á dagvistunarþörf

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Dagvistun»  Kannanir á dagvistunarþörf

KSS63_A04_006eEngar upplýsingar lágu fyrir um þörf eða óskir fólks um opinbera dagvistun barna þegar Rauðsokkahreyfingin fór af stað. Starfshópur Rauðsokka í Kópavogi gerði könnun á dagheimilisþörf í Kópavogi dagana 8−10. janúar árið 1971. Saminn var spurningalisti sem lagður var fyrir úrtak kvenna í bænum á aldrinum 20−50 ára (alls 525 konur). Rauðsokkar báru listana í hús og sóttu nokkru síðar. Niðurstöður voru kynntar bæjarstjórn Kópavogs og almenningi á fundi 5. maí 1971.

Niðurstöðurnar voru sýndar á 10 veggspjöldum en meginskilaboðin voru að í bæinn vantaði 250 pláss fyrir börn kvenna sem þegar unnu úti. Til viðbótar vantaði tæplega 600 pláss fyrir börn þeirra mæðra sem vildu vinna utan heimilis ef örugg gæsla barna væri í boði. Einnig kom í ljós mikil þörf fyrir skóladagheimili, nú nefnd frístundaheimili.

Niðurstöður voru kynntar í bréfi til bæjarstjórnarinnar. Skilaboðin voru í hnotskurn: „Það þarf að byggja einn leikskóla á ári til aldamóta í Kópavogi!“ Hópurinn sendi nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem athugaði tekjustofna sveitarfélaga niðurstöður sínar með hvatningu um þátttöku ríkisins í rekstri leikskóla með sama hætti og grunnskóla.

Í kjölfar framtaks Rauðsokka gerði félagsmálaráð Reykjavíkur könnun á dagvistunarþörf í borginni árið 1971. Niðurstöður leiddu í ljós að rými vantaði fyrir að minnsta kosti 2.500 börn að 10 ára aldri umfram það rými sem þá var fyrir hendi í borginni, þar af um 900 rými fyrir börn á skólaaldri. Sú stefna var aftur á móti uppi hjá stjórn Reykjavíkurborgar á þessum árum að fullnægja ætti þörf forgangsflokka, en frekari uppbygging dagvistarheimila skyldi miðast við að foreldrar greiddu fullan kostnað. Þessu mótmæltu Rauðsokkar og einkum þeirri áætlun borgarinnar um að árið 1974 ættu 25% barna að eiga kost á dagvistun í borginni.

KSS63_A49_023

Starfshópur á vegum Starfsmannafélags Sambands íslenskra samvinnufélaga gerði könnun á þörf á gæslu fyrir börn starfsfólks Sambandsfyrirtækjanna í Reykjavík árið 1971. Félag íslenskra símamanna gerði sams konar könnun meðal félaga sinna árið 1972. Í báðum hópum kom fram brýn þörf. Í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var lögð fram tillaga 5. nóvember 1974 um að gerð yrði könnun á dagvistarþörf í bænum. Hún fékk hörð viðbrögð, sagt var að jafnrétti væri hið versta tískuorð notað í áróðursskyni og dagheimili tískufyrirbrigði. Rauðsokkar fóru á næsta bæjarstjórnarfund og afhentu bréf um efnið.

Þörfin var einnig mikil í öðrum sveitarfélögum í landinu, til dæmis á Akureyri. En staðan var önnur á einstaka stað. Bæjarstjórinn í Neskaupstað taldi það borga sig fyrir bæjarfélagið fjárhagslega að reka dagheimili og leikskóla og í félagsmálaráði Dalvíkur var bent á að tekjur bæjarins af útsvari þeirra sem áttu börn á dagheimili bæjarins slagaði hátt upp í upphæðina sem bærinn legði til dagvistarmála.

 

Fyrri síða Hugmyndir og viðhorf

Næsta síða Hvatningaraðgerðir