Efnisyfirlit
Rauðsokkahreyfingin var opin körlum jafnt sem konum. Liðsmenn hreyfingarinnar voru þó alla tíð að lang-stærstum hluta konur og með tímanum þverskurður af þjóðfélaginu. Fyrstu Rauðsokkarnir voru flestar á aldrinum 25 til 40 ára. Margar voru kennarar, skrifstofukonur, afgreiðslukonur, fóstrur, konur úr heilbrigðisstéttum og nemendur. Með því að beina máli sínu til allra íslenskra kvenna og taka frá byrjun upp baráttuna fyrir launakjörum kvenna og möguleikum þeirra í atvinnulífinu, fóstureyðingum og fleiri dagvistunarrýmum, uppskar hreyfingin fylgi kvenna úr öllum stéttum og á víðu aldursbili, ekki síst verkakvenna. Eftir kvennafrídaginn 24. október 1975 náði Rauðsokkahreyfingin betur til kvenna og þeim fjölgaði svo um munaði. Fjöldatölur fyrirfinnast ekki, þar sem ekki var haldið félagatal.
Aðsetur og fjármögnun
Fyrstu árin átti hreyfingin fasta fundaraðstöðu og geymslupláss í kjallararými í húsi einnar Rauðsokkunnar, Helgu Ólafsdóttur, að Ásvallagötu 8 í Reykjavík og þar komu reglulega saman minni og stærri hópar, allt upp í 30 manns. Á árunum sem Rauðsokkar höfðu þessa vinnuaðstöðu á Ásvallagötunni komu þær saman annan hvern laugardag í morgunkaffi í félagsheimilinu Hamragörðum, Hávallagötu 24. Starfsmannafélag Sambands íslenskra samvinnufélaga hafði húsnæðið til umráða og fyrir milligöngu Rauðsokka sem störfuðu hjá Sambandinu fékkst húsnæðið fyrir laugardagskaffið. En nú hófst leit að heppilegu og varanlegu húsnæði undir starfsemi Rauðsokkahreyfingarinnar, og jafnvel kom hústaka til tals, að hætti danskra Rauðsokka. Erindi var sent til forsætisráðherra með fyrirspurn um mögulegt opinbert húsnæði, sem ekki fékkst. En úr rættist og á haustdögum 1974 sendu Rauðsokkar út tilkynningu um flutning í nýtt húsnæði sem þær höfðu tekið á leigu. Samastaður Rauðsokka að Skólavörðustíg 12, nefndur Sokkholt, var kynntur fjölmiðlum.
Rauðsokkar unnu hörðum höndum við að gera húsnæðið vistlegt með rúmgóðu fundarherbergi þar sem innréttað var barnahorn, settir upp sófar og útbúnir kollar úr pappahólkum úr prentsmiðjum sem sagaðir voru niður og á þá settar bútasaumssessur. Nokkuð minna herbergi var skrifstofa og þar tróndi stór kaffikanna. Húsnæðið gagnaðist Rauðsokkum vel. Þar voru haldnir fundir og samkomur og lánaðar út bækur um frelsisbaráttu kvenna úr bókasafni Sokkholts. Opið hús var á laugardagsmorgnum tvisvar í mánuði, stundum með fyrirlestri eða umræðum, og mættu þá gjarnan um 20 til 30 manns. Tekið var fyrir efni ofarlega á baugi fyrir konur, Einar Olgeirsson og Guðrún Hallgrímsdóttir fluttu til dæmis fyrirlestra, Rauðsokkar utan af landi litu við og jafnvel komu erlendar kvenfrelsiskonur í heimsókn. Oft var gestkvæmt hjá Rauðsokkahreyfingunni og fundir vel sóttir sem sjá má af gestabókum sem eru varðveittar í skjalasafni hreyfingarinnar.
Frá upphafi var öll vinna hjá hreyfingunni unnin í sjálfboðaliðavinnu en árið 1976 var starfsmaður ráðinn í hlutastarf. Hún annaðist peningamál og annan rekstur húsnæðisins í Sokkholti og svaraði fyrirspurnum þann stutta tíma sem ráð var á starfsmanni. Rauðsokkar leituðust við að hafa opið hús hálfa aðra klukkustund á virkum dögum. Þær skiptu með sér símavörslu í Sokkholti og unnu þessi störf samkvæmt vaktaplönum. Hreyfingin hafði enga fasta tekjustofna og misjafnlega gekk að fjármagna starfsemina enda þótt hún byggðist mjög á sjálfboðaliðastarfi. Á tímabili skráðu félagar sig fyrir reglubundnum fjárframlögum til greiðslu húsaleigu í Sokkholti, en það fyrirkomulag fjaraði út.
Árið 1972 sáu Rauðsokkar um útvarpsþáttaröðina „Ég er forvitin rauð“ og runnu tekjurnar frá útvarpinu til útgáfu fyrsta tölublaðs af málgagni hreyfingarinnar, nefnt Forvitin rauð sem selt var í smásölu, einkanlega 1. maí. Á árunum 1977–1980 fengu Rauðsokkar greitt fyrir vikulega jafnréttissíðu í Þjóðviljanum. Ágóðinn fyrir þessi skrif rann til reksturs húsnæðisins. Þegar á leið var farið að selja póstkort, límmiða, kaffikrúsir og hálsmen með merkjum hreyfingarinnar til fjármögnunar. Bókhald var haldið og skráð í stílabækur.
Sjá nánar: Hugmyndafræði.
11 images
Fyrri síða Undirbúningur að starfi
Næsta síða Kynning á málstaðnum