Efnisyfirlit
Á fundi í Þjóðleikhúskjallaranum sunnudagskvöldið 14. júní 1970, þar sem mættu um 60 manns, var kosin 20 manna framkvæmdanefnd til að móta hreyfinguna, skipulag og stefnumál. Þann 7. september 1970 hélt framkvæmdarnefnd svo fund í litla sal Norræna hússins um hreyfinguna, skipulag hennar og stefnu. Í fundargerð kemur fram að Hildur Hákonardóttir lagði fram tillögu að skipulagi hreyfingarinnar í anda nýrra baráttuaðferða erlendra hreyfinga.
Hildur skýrði mál sitt með teikningum og texta um óhefðbundið, flatt félagsform sem gerir ráð fyrir að hreyfingin starfi í starfshópum án yfirstjórnar. Félagslegri skilvirkni starfshópa er lýst í þremur þrepum: þekkingaröflun, félagsþróun og félagsleg notkun þekkingar. Í slíku félagsformi safna félagarnir hugmyndum til að vinna með og deila síðan með ýmsum hætti því sem út úr starfinu hefur komið. Tengiliður milli hópanna yrði miðstöð án stjórnunarhlutverks, sem fylgdist með starfshópum og styddi félagana eftir því sem við ætti. Í greininni „Hornsteinar og höfuðpaurar“ í Samvinnunni 1971 útskýrir Hildur í myndmáli félagsform Rauðsokkahreyfingarinnar og ber saman við ríkjandi skipulag félagasamtaka. Þessum hugmyndum var mjög vel tekið og þær urðu strax grundvöllur að starfinu.
Hreyfingin hélt fast við upphaflegt skipulag allan starfstímann, enda þótt upp kæmi gagnrýni síðari starfsárin innan hreyfingarinnar um að án yfirstjórnar væri starfið óskilvirkt og laust í reipunum.
Á fyrrnefndum fundi 7. september var skjali jafnframt dreift með drögum að markmiðum fyrir Rauðsokkahreyfinguna sem starfshópur sex kvenna vann um sumarið, þar af voru þrjár úr 20 manna framkvæmdanefndinni. Hópurinn las til dæmis gildandi lög í mikilvægum málaflokkum og kynnti sér stöðu kvenna meðal annars í atvinnulífinu, menntakerfinu og kennslubókum til undirbúnings stefnumörkun. Tillögur hópsins voru kynntar á fundinum en hafði áður verið komið fjölrituðum til nefndarmanna. Litið var á markmiðin sem verkefni hreyfingarinnar á hverjum tíma en ekki markmið til að ná. Þær samanstóðu af fimm atriðum: að vinna að fullkomnu jafnrétti karla og kvenna, að vinna gegn því að kynferði móti starfsval, að hvetja konur til að nýta sér réttindi sín, að vinna að því að uppræta fordóma varðandi verkaskiptingu í þjóðfélaginu eftir kynjum og loks að hvetja félagana til að kynna sér þjóðfélagsmál og vera virkir þátttakendur í þjóðfélaginu. Þessi stefnumörkun var hreyfingunni leiðarljós í starfinu fyrstu árin. Ný samþykkt um hreyfingu var síðan gerð sumarið 1974.
Síðasti undirbúningsfundur framkvæmdanefndarinnar fyrir opinbera kynningu á hreyfingunni var haldinn í Norræna húsinu 15. september 1970. Fundinn sóttu 20 konur. Þarna sameinuðust þær um helstu baráttumál, skipulag Rauðsokkahreyfingarinnar og markmið hennar.
Fjöldafundur í Norræna húsinu
Eftir undirbúningsfundina efndu Rauðsokkar til kynningarfundar í Norræna húsinu 19. október 1970 til að kynna hreyfinguna, hugmyndir hennar og fyrirhugað starf. Fullt var út úr dyrum, og birtist frétt um fundinn í Vísi undir heitinu „Jafnréttið á fundi Rauðsokkahreyfingarinnar“. Á fundinum héldu konurnar sem stóðu að undirbúningi fundarins framsögur um baráttumál hreyfingarinnar og starfshætti hennar. Jafnframt voru lagðar fram hugmyndir að starfshópum og athyglisverðar tillögur að starfshópum bárust úr sal. Meðal annarra hélt Helga Sigurjónsdóttir hvatningarræðu til kvenna um að mæta á áhorfendapalla borgarstjórnar og fylgjast með umræðum þegar dagvistarmál yrðu afgreidd og menntaskólastúlka ræddi um þýðingu Rauðsokkahreyfingarinnar fyrir sína kynslóð. Spjöld voru uppi í anddyri hússins, meðal annars eitt með stefnunni og annað þar sem fundargestir gátu ritað sig í starfshópa. Það gerðu um 100 manns og hringdu fulltrúar í miðstöð í framhaldinu í alla sem skráðu sig til að heyra nánar um áhuga þeirra og stuttu síðar fóru fimm hópar af stað um jafnmörg mál. Óánægja kvenna var djúpstæð, á fundinum ríkti samstaða og engu líkara en að fundargestir eygðu nú langþráðar breytingar eftir stöðnun síðustu ára.
Miðstöð tók til starfa í kjölfar kynningarfundarins 19. október 1970. Hún hélt utan um starfið og var starfshópum til aðstoðar eftir því sem við átti. Í fyrstu miðstöðinni sátu Vilborg Dagbjartsdóttir, Hildur Hákonardóttir og Gerður G. Óskarsdóttir. Fyrstu fimm árin hélt miðstöð dagbók um það sem á döfinni var í hreyfingunni. Eftir það var haldin fundargerðarbók miðstöðvar. Þegar á leið var hlutverk miðstöðvar aukið og henni falin umsjá fjármála og aðgerða. Jafnframt var fjölgað í henni og kveðið á um reglubundin fulltrúaskipti. Þannig færðist starfið smám saman í fastari skorður. Meðal fyrstu starfshópa hreyfingarinnar voru svokallaðir nýliðahópar. Frumkvöðlarnir tóku á móti nýjum félögum og ræddu helstu baráttumál kvenna. Nýliðarnir sögðu sögu sína og ef til vill var mikilvægasta hlutverk hópsins að gefa nýliðum vettvang til að deila sameiginlegri reynslu, gæða hver aðra baráttuanda og skapa þannig aðstæður fyrir vitundarvakningu félaganna um stöðu sína og kvenna almennt.
Fyrri síða Upphafið
Næsta síða Hverjir voru þessir Rauðsokkar?