Efnisyfirlit
Rétt fyrir upphaf Rauðsokkahreyfingarinnar eða vorið 1970 var sett á laggirnar nefnd til að undirbúa ný lög um fóstureyðingar og var hún í byrjun skipuð þremur körlum – og voru þeir allir læknar. Ýmis samtök kvenna, þar með talin Rauðsokkahreyfingin, fóru fram á að meirihluti nefndarinnar yrði skipaður konum. Í kjölfarið eða í janúar 1971, tæplega ári eftir skipan nefndarinnar, óskað einn karlanna eftir því að vera leystur undan nefndarstarfinu. Þá tók sæti hans Guðrún Erlendsdóttir, hæstaréttarlögmaður. Haustið eftir tók Vilborg Harðardóttir, ein stofnenda Rauðsokkahreyfingarinnar, sæti í nefndinni um nýja löggjöf.
Í nóvember sama ár tóku Rauðsokkar þátt í samstöðu kvenna víða um heim til að krefjast skynsamlegrar og heilbrigðrar löggjafar um fóstureyðingar og lögð var áhersla á að „konur [réðu] barneignum sínum, án íhlutunar embættismanna.“ Þær stilltu sér upp við verslanir og afhentu konum ávarp til íslenskra kvenna um þetta mál. Strax í fyrsta tölublaði af Forvitinni rauðri sem út kom í desember 1972 er önnur opna blaðsins helguð þessu eldfima máli.
Fóstureyðingafrumvarp lagt fram 1973
Þáverandi heilbrigðisráðherra, Magnús Kjartansson, lagði frumvarp nefndarinnar fram á Alþingi í nóvember 1973 sem bar heitið Frumvarp til laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Í því er lagt til að endanlegur ákvörðunarréttur um fóstureyðingu skuli vera hjá konunni sjálfri, tilefni fóstureyðingar geti verið erfiðar félagslegar aðstæður, aðgerð skuli framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngu og skuli framkvæmd af lækni á sjúkrahúsi (9. og 10. gr.). Einnig segir að ráðgjafarþjónustu um kynlíf og getnaðarvarnir skuli komið á fót við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og ófrjósemisaðgerðir heimilaðar að ósk viðkomandi.
Frumvarpið, einkum 9. grein þess, olli miklu deilum, jafnt innan þings sem utan. Í umræðu á Alþingi benti Magnús Kjartansson á böl matarskorts og hungurs í heiminum sem lenti á börnum og fjölda þeirra barna sem deyja skömmu eftir fæðingu, hann sagði meðal annars: „Þeir menn, sem segja, að ekki megi framkvæmda fóstureyðingar af virðingu fyrir helgi mannlegs lífs hljóta að eiga við eitthvert annað líf.“ Umsagnir um frumvarpið voru lagðar fram af ýmsum aðilum sem ýmist andmæltu því eða studdu.
Stuðningur við frumvarpið frá 1973
Rauðsokkar studdu frumvarpið eindregið. Heilbrigðis- og trygginganefnd neðri deildar sendi Miðstöð Rauðsokkahreyfingarinnar erindi með beiðni um umsögn við frumvarpið strax eftir framlagningu þess í nóvember 1973. Því var svarað með bréfi í janúar 1974 þar sem lýst var yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið og vísað í nýlegt bréf frá hreyfingunni til þingmanna í nóvember 1973 og blaðið Forvitin rauð frá janúar 1974.
Starfshópur Rauðsokka um nýja fóstureyðingarlöggjöf hafði sent öllum alþingismönnum bréf í nóvember 1973 um frumvarpið. Þar voru sett fram rök fyrir því að fyrirliggjandi frumvarp öðlaðist samþykki á Alþingi í óbreyttri mynd og nefndur til dæmis sjálfsákvörðunarréttur kvenna, sambærileg lög í nágrannalöndum, ferðir í fóstureyðingar til útlanda, ólöglegar fóstureyðingar og félagsleg og andleg heilsa og loks lögð áhersla á að það væri „skref í áttina að mannúðlegra þjóðfélagi að þegnar þess séu velkomnir í heiminn.“
Nefnd á vegum Hjúkrunarfélags Íslands, skipuð sex félagskonum, taldi frumvarpið til mikilla bóta og mælti með því nær óbreyttu. Félagsráðgjafi skrifaði grein í dagblað í desember 1973 og taldi að einna merkilegasti og athyglisverðasti þátturinn í frumvarpinu væri ákvæðið í 9. grein, sem gerði ráð fyrir sjálfsákvörðunarrétti konu varðandi fóstureyðingu og undirstrikaði þá staðreynd að allir nefndarmenn væru sammála um réttmæti þessarar niðurstöðu. Hún dró einnig fram tvískinnungsháttinn í umræðunni og þá niðurlægingu sem konur yrðu fyrir við að vera meðhöndlaðar eins og óábyrgir einstaklingar.
Andmæli í þjóðfélaginu við frumvarpið frá 1973
Andstaða gegn ákvæði frumvarpsins um sjálfsákvörðunarrétt konu til fóstureyðingar var mjög hörð úti í þjóðfélaginu, bæði meðal karla og kvenna. Sama átti við um marga lækna sem tjáðu sig um efnið, en það heyrðust líka öndverðar skoðanir meðal þeirra. Nefnd á vegum biskups þjóðkirkjunnar, sem skipuð var þremur körlum og hafði fjóra karla að auki sér til ráðuneytis, sendi frá sér umsögn um fóstureyðingafrumvarpið í nóvember 1973. Í henni er mikil áhersla lögð á félagslegan stuðning við fjölskyldur og varnaðarstarf. Meginniðurstaða nefndarinnar var að fóstrið ætti óvéfengjanlegan rétt til lífs.
Félag læknanema stóð fyrir ráðstefnu um fóstureyðingar í Stúdentaheimilinu 9. desember 1973 og var ein Rauðsokka meðal sex frummælenda. Þarna féllu afar þung orð um fóstureyðingar og þær konur sem krefðust sjálfsákvörðunarréttar kvenna í þessum efnum. Frumvarpið fór í gegnum eina umræðu í þinginu, en aldrei kom til annarrar umræðu um það.
Fyrri síða Staðan 1970
Næsta síða Sjálfsákvörðunarréttur kvenna