Áfram stelpur

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Kvennaárið 1975»  Áfram stelpur

Árið 1975 kom út platan Áfram stelpur en þar sungu sjö leikarar: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Bríet Héðinsdóttir, Guðrún Alfreðsdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Sigrún Björnsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir fimmtán kvennabaráttulög. Ellefu þeirra voru úr revíunni „Ertu nú ánægð kerling“ sem sýnd hafði verið við gríðarlegar vinsældir í Þjóðleikhúsinu og víða um landið allt það ár.

KSS63_A28_014

Þrándur Thoroddsen, Böðvar Guðmundsson og Megas þýddu texta eftir Gunnar Edander. Fyrir utan lag Megasar voru öll lögin sótt í smiðju sænska þríeykisins Margareta Garpe, Suzanne Osten og Gunnar Edander en þau gerðu gríðarvinsæla femíníska revíu sem hét „Jösses flickor, befrielsen er nära“ (Ja hérna stelpur, frelsið er í nánd). 

Tvö lög á plötunni, „Um kvenmannslausa sögu Íslendinga“ og „Íslands fátæklingar“ höfðu verið frumflutt á Hátíðafundi kvennaársins 14. júní 1975 fyrir troðfullu Háskólabíói. Þau voru hluti af dagskránni „Stóðu meyjar að meginverkum: Um vinnandi konur á Íslandi“. Textana gerðu Kristján Jóhann Jónsson og Dagný Kristjánsdóttir.

Þriðji texti þeirra Dagnýjar og Kristjáns á plötunni var íslenskun á textanum Jösses flickor sem fékk heitið „Áfram stelpur. Í augsýn er nú frelsi.“ Textinn var gerður fyrir Kvennafrídaginn og frumfluttur þar og hefur síðar verið fluttur í alls kyns útsetningum og stíltegundum og orðið nokkurs konar einkennislag fyrir Rauðsokkahreyfinguna.

Áfram stelpur er því miður enn þá eina platan með lögum úr kvennabaráttunni á Íslandi.

 

*Fyrst birt 24. október 2022. Síðast breytt 12. desember 2022.

 

 

 

 

Fyrri síða Stóra kvennaráðstefnan - verkfall verður frí

Næsta síða Arfleifð