Rauðsokkasíðan

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Viðbrögð samfélagsins»  Rauðsokkasíðan

jóðviljinn 28. september 1979

Á árunum 1973−1980 hélt Þjóðviljinn úti Jafnréttissíðu. Þar gafst Rauðsokkum tækifæri til að koma hugmyndum sínum og boðskap á framfæri, halda uppi rökræðum um kvenfrelsismálin og leiðrétta missagnir sem voru uppi á opinberum vettvangi. Í fyrstu var hún í umsjón Vilborgar Harðardóttur blaðamanns en frá árinu 1977 var henni ritstýrt af hópi Rauðsokka, að jafnaði fimm í senn. Á Jafnréttissíðunni birtist ýmiss konar efni af vettvangi kvennabaráttunnar og var hún mikið lesin. Þarna fengu konur rödd sem bjuggu við fjölbreyttar aðstæður, komu úr margbreytilegum hópum, bjuggu víða um land og voru á ýmsum aldri. Nokkrum sinnum vakti síðan þó uppnám.

Á árinu 1979 geisaði mikil umræða um framtíð kvennabaráttunnar. Í þeirri umræðu var Jafnréttissíðan kölluð kynlífs- og móðurlífssíða en á þessum tíma var allt sem snerti kynlíf mikið feimnismál á síðum dagblaða. Rauðsokkar kröfðust kynfræðslu í skólum og skrifuðu meðal annars um kostnað við getnaðarvarnir og misjafnt viðmót á kynsjúkdómadeild. Birtar voru greinar þar sem Rauðsokkar voru gagnrýndir fyrir skrif sín en þeir væru uppteknari af kynlífi en kvennapólitík. Þessu svöruðu þær Dagný Kristjánsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir í greininni „Kynlífs- hvað?“ og lögðu fram úttekt á efni síðustu 68 síðna sem sýndi að mest var þar fjallað um málefni verkakvenna. Listinn var eftirfarandi:

1. Kjör verkakvenna og alþýðukvenna (20)
2. Af kvennahreyfingunni heima og erlendis (15)
3. Um börn og unglinga (9)
4. Kvennalist og listakonur (6)
5. Kynferðismál og getnaðarvarnir (6)
6. Tískublöð og kvennablöð (5)
7. Fjölskyldan og ný sambýlisform (3)
8. Um karlmannahreyfinguna (2)
9. Annað efni (2)

Niðurstaðan var sú að kynlífi og kynferði hefði verið alltof lítill gaumur gefinn á Jafnréttissíðunni í ljósi þess að hið persónulega væri pólitískt! Ekki er nokkur vafi að Rauðsokkasíðan var öflugt baráttutæki en eins og hæfir slíkri síðu vakti hún stundum hörð viðbrögð þegar tabú voru brotin og valdaöflum ögrað. Síðasta Rauðsokkasíðan birtist 15. október 1980.

Fyrri síða Tónabæjarhátíðin

Næsta síða Arfleifð