Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Sagan»  Arfleifð

hnappur193Margt ávannst í kvenfrelsisbaráttunni á 12 ára ferli Rauðsokkahreyfingarinnar og annað undirbúið sem konur unnu áfram að og náði síðar fram að ganga. Frá Rauðsokkaárunum má nefna lagabreytingar í átt til aukins jafnréttis, úrbætur varðandi námskrá skólabarna og víðtækar umræður um stöðu kvenna á vinnumarkaði og í fjölskyldunni. Sókn kvenna í nám jókst jafnt og þétt og hélt áfram að vaxa á síðasta fjórðungi 20. aldar. Konur fóru smám saman í meira mæli en áður að hasla sér völl í starfsgreinum sem lengst af voru eingöngu í höndum karla.

Málefnaumfjöllun Rauðsokka hafði í för með sér almennar viðhorfsbreytingar sem breiddust nokkuð fljótt um þjóðfélagið. Skólar löguðu starfið að jafnrétti, vinnustaðir hættu að láta konur einar um kaffistofuna. Fjarvera kvenna í lykilstöðum stjórnmála og vinnumarkaðar þótti ólíðandi. Staða margra kvenna á heimilum tók að breytast með aukinni virkni kvenna á vinnumarkaði og vaxandi þátttöku karla í heimilisstörfum og uppeldi barna.

Áratuga bið var aftur á móti eftir árangri í öðrum baráttumálum. Hátt í þrír áratugir liðu þar til afgerandi framfarir urðu í dagvistunarmálum barna  í kjölfar pólitískra breytinga hjá Reykjavíkurborg og breytingar voru gerðar á skóladegi grunnskólabarna. Enn lengri bið var eftir frjálsu þungunarrofi. Sama átti við um styttingu vinnutíma. Konur hafa nú hætt að þola lítilsvirðandi framkomu karla — sem á tímum Rauðsokkahreyfingarinnar þótti tæpast tiltökumál.

Eftir að hreyfingin var lögð niður héldu konur sem hlotið höfðu reynslu og þjálfun í starfi með Rauðsokkahreyfingunni kvennabaráttunni áfram – hver á sínum vettvangi, í félagasamtökum, á vinnustöðum og á sviði lista og fræða. Konur úr hreyfingunni tóku að sér stjórnunarstörf í stofnunum og fyrirtækjum og létu að sér kveða á sviði stjórnmála. Baráttan gegn ofbeldi gagnvart konum hófst fyrir alvöru. Konur sem verið höfðu mjög virkar í Rauðsokkahreyfingunni komu að stofnun Samtaka um kvennaathvarf sem stofnuð voru árið 1982 og reka nú athvörf í Reykjavík og á Akureyri, auk áfangaheimilis og ráðgjafarþjónustu. Síðast en ekki síst skal nefnt að margar af stofnendum Kvennaframboðs og Kvennalista höfðu starfað með Rauðsokkahreyfingunni um lengri eða skemmri tíma.

Baráttunni er ekki lokið, langt frá því. Launamisrétti milli karla og kvenna hefur haldið ótrautt áfram og leiðin til æðstu áhrifa á nokkrum sviðum þjóðfélagsins, sem á árum Rauðsokka var nær óhugsandi, er enn þá torfær. Ofbeldið sem karlar beita konur í krafti valds síns þrífst sem áður. Kvennahreyfingar hafa ekki haft roð við þeim sterku efnahagslegu öflum sem ráða útlitsbransanum – og einkum móta líf kvenna. Enn er verk að vinna.

Fyrri síða Hreyfingin hættir

Næsta síða Skjöl