'68 og Perla Fáfnisdóttir

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Útlitsdýrkun»  '68 og Perla Fáfnisdóttir

KSS63_A51_052

Rauðsokkar urðu ekki fyrstir til að andæfa óþægilegri og þvingandi tísku, sjöundi áratugurinn var tími mini-pilsanna, gallabuxna, Bítlanna og hippanna. '68-kynslóðin steig fram og andófshreyfingarnar voru allar meira og minna samstiga í því að snúa baki við formföstum fata- og hegðunarreglum kaldastríðssamfélagsins. Fata- og snyrtivöruiðnaðurinn var heldur ekki svifaseinn, tefldi fram nýrri týpu fyrirsæta, grennri en nokkru sinni fyrr, svo sem Twiggy, og svo fyrstu svörtu ofurfyrirsætunni Naomi Sims til að auglýsa það sem helst átti að höfða til kvenna. 

 

 

 

 

 

 

 

LR JÓÞ Reykjavík 1

Rauðsokkar voru aftur á móti eina hreyfingin sem tók útlitsdýrkunina skipulega fyrir. Í fyrstu göngu þeirra 1. maí 1970 var Venusarstytta fremst í flokki og bar hún borða að hætti  fegurðardrottninga þar sem á var skrifað „Manneskja en ekki markaðsvara“. Þar með var stefnan mörkuð. Á annan dag jóla sama ár mótmæltu Rauðsokkar fegurðarsamkeppni í Laugardalshöllinni þar sem kjósa átti Ungfrú Reykjavík og líktu sýningunni við gripasýningar bændasamtakanna, lögðu fyrir gesti „skoðanakönnun um meyjamat“ þar sem gestir voru meðal annars spurðir hvert þeir teldu að ágóðinn af sýningunni rynni. Svo voru höfð uppi ýmiss konar háðuleg slagorð. Lögreglan var kölluð til en allt fór friðsamlega fram.

 

 

KSS63_A51_051

Frægasta aðgerð hreyfingarinnar á þessu sviði var þegar farið var upp á Akranes í september 1972 þar sem haldin var fegurðarsamkeppni. Rauðsokkar höfðu með sér kvíguna Perlu Fáfnisdóttur Blesasonar frá Galtalæk í Skilmannahreppi og krýndu hana „Ungfrú Ísland – Miss Young Iceland.“ Eins og áður fóru báðar samkomurnar vel fram, jafnt innan dyra sem utan, og eitt dagblaðanna tók sérstaklega fram að „Rauðsokkurnar“ hefðu verið „mjög prúðar og háttvísar“. Annað blað vildi frekar kalla kvíguna „Rauðkollu" en að kenna hana við sokkana. Ekki voru menn þó með öllu sammála um hvor ungfrúin ætti skilið að hljóta kórónuna, þó þótti Perla „í fallegri hosum“ – og auðvitað rauðum.

Ekki tókst að fá nema þrjár stúlkur til að taka þátt í keppninni á Akranesi og eftir þetta gagnrýndu konur keppnina linnulítið og höfðu hana að háði og spé. Konur á Akureyri komu saman nokkrum dögum eftir keppnina á Akranesi og báru saman brjóstmál og brjóstgæði. Á Dalvík var valin eyfirsk fegurðardís og Rauðsokkar komu saman og mótmæltu því. Árið 1979 voru Rauðsokkar enn að og nú fyrir utan Hótel Sögu. Ári seinna var svo komið að spurt var „Hvar eru nú rauðsokkar?“ og vitnað til þess að „fyrir nokkrum árum lá við, að Rauðsokkar dræpu niður í eitt skipti fyrir öll svokallaða fegurðarsamkeppni hér á landi“ og saga Perlu síðan rifjuð upp. Rauðsokkar voru ekki langt undan og í júlí var haldið uppboð á konum á Bernhöftstorfunni og voru þar boðnar upp einstæð húsmóðir, iðnverkakona, afgreiðslustúlka og heilu „verkalýðskippurnar“ og skilaboðum dreift. Tilboðin voru „heldur treg“. Fjörutíu árum seinna var Héraðsskjalasafn Akraness farið að auglýsa eftir upplýsingum um dýrðardag hinnar sögufrægu kvígu, Perlu Fáfnisdóttur.

Fyrri síða Klæði

Næsta síða Arfleifð