Efnisyfirlit
Rauðsokkar stóðu fyrir fjölbreyttum uppákomum með leik, gamansemi og kröfu- og hvatningarspjöldum. Fyrsti gjörningurinn var þegar Rauðsokkar sneru sínum hluta verkalýðsgöngunnar 1. maí 1970 upp í gleðigöngu og boðuðu breytta tíma. Rauðsokkar líktu fegurðarsamkeppnum við gripasýningar og mótmæltu þeim við Laugardalshöllina árið 1970 og dreifðu þar skoplegri skoðanakönnun um meyjarmat, við Háskólabíó 1971 og á Akranesi 1972 og efndu til kvennauppboðs við Bernhöftstorfuna 1980. Árið 1974 efndu þær til mótmæla í Austurstræti gegn þrælkun á konum í aðdraganda jóla.
Rauðsokkahátíðir voru daglangar fjölskylduhátíðir þar sem baráttumálum voru gerð skil með ívafi söngs og gleði. Fjölskylduhátíðin Frá morgni til kvölds var haldin í Tónabæ árið 1979 og endurtekin að hluta á Akureyri. Önnur dagskrá með texta og söngvum var haldin í Vestmannaeyjum á hátíðinni Maðurinn og hafið. Þá var Kvennahátíð haldin í Félagsstofnun stúdenta árið 1980.
Rauðsokkar héldu 8. mars-hátíð 1978 í samvinnu við Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna og Kvenfélag sósíalista og einnig var farið með dagskrána út á land. Segja má að starf Rauðsokka hafi falist í hörkuvinnu, glensi og gamni.
Skógaráðstefnan
Um vorið 1974 var blásið til ráðstefnu á Skógum undir Eyjafjöllum. Á dagskrá voru drög að nýrri stefnuyfirlýsingu fyrir hreyfinguna. Aðalbitbeinið var fyrsta málsgreinin sem var svohljóðandi: „Barátta kvenna fyrir jafnrétti kynjanna verður ekki slitin úr tengslum við baráttu undirokaðra stétta fyrir þjóðfélagslegum jöfnuði, né heldur verður sigur unninn í verkalýðsbaráttunni án virkrar þátttöku kvenna.“ Tillagan var samþykkt með 23 atkvæðum gegn fimm. Uppgjörið var mjög sársaukafullt og nokkrar af frumkvöðlum hreyfingarinnar sáu sér ekki annað fært en að ganga úr hreyfingunni eftir að hafa lagt þar fram mikla vinnu. Þær sem eftir sátu töldu þetta hafa verið óhjákvæmilegt til að skýra línur.
Hreyfingin þurfti einnig að reyna að ná betur til nýrra hópa kvenna. Sömuleiðis var bent á að hreyfingin hefði verið farin að forðast baráttumál sem ekki var sátt um í Rauðsokkahópnum sem á þeim tíma rúmaði breiðar pólitískar skoðanir frá hægri til vinstri, en konur voru sammála um að uppgjörið hefði þjappað þeim saman sem eftir voru. Þessi átök tóku á hreyfinguna en fram undan var gríðarlegt verkefni Kvennaársins 1975. Í viðtali við Rauðsokka í 1. des blaðinu 1980 ræddu Rauðsokkar áherslubreytingar sem urðu í Rauðsokkahreyfingunni árið 1974.
Kvennaárið 1975 og kvennafríið
Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu konum árið 1975, undir kjörorðunum: Jafnrétti, framþróun, friður. Í janúar 1975 var haldin láglaunaráðstefna í Lindarbæ á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar í samstarfi við Félag afgreiðslustúlkna í mjólkurbúðum, Iðju, félag verksmiðjufólks, Sókn og Starfsmannafélag ríkisstofnana. Þar var hugmyndinni um kvennaverkfall komið á framfæri og í lok ráðstefnunnar var tillaga um kvennaverkfall samþykkt. Kvennaársnefnd var síðan skipuð í lok maí 1975 og átti Rauðsokkahreyfingin fulltrúa í nefndinni. Haldin var ráðstefna á Hótel Loftleiðum með þátttöku sex samtaka, í lok fundar var hugmyndin um kvennaverkfall lögð fram. Eftir nokkrar umræður var að lokum sammælst um að kalla aðgerðina frí frekar en verkfall.
Breytt stefna
Með kvennafrídeginum höfðu konur sýnt sitt pólitíska afl og málflutningur Rauðsokkahreyfingarinnar höfðaði nú betur til fólks en áður. Fjöldi kvenna kom í Sokkholt og lýsti áhuga sínum á að kynnast og taka kannski þátt í starfi hreyfingarinnar. Um margt má segja að Rauðsokkar hafi alls ekki verið undir þetta búnar, ekkert kynningarefni hafði verið undirbúið eða rætt um hvernig tekið skyldi á móti nýliðunum. Rauðsokkar voru heldur ekki undir það búnar að stefnubreyting Skógaráðstefnunnar þýddi að hreyfingin hefði tekið sér ákveðna pólitíska stöðu og úr „villta vinstrinu“ komu ungar konur sem skráðu sig inn í hreyfinguna gagngert til að móta hana í mynd sinna eigin samtaka. Grunnur þessara róttæku hreyfinga var marxískur og þegar myndaðir voru kvennahópar eða samtök byggðu þau á þeim grunni.
Sjá nánar: Hugmyndafræði, Kvennaár og Útlitsdýrkun.
Fyrri síða Baráttumálin
Næsta síða Menning og listir