Hreyfingin hættir

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Sagan»  Hreyfingin hættir

Í upphafi níunda áratugarins dró úr starfsemi Rauðsokkahreyfingarinnar. Deilur um hugmyndafræði kvennabaráttunnar höfðu gengið hreyfingunni mjög nærri. Í fundarboði um neyðarfund 1981 er það sett alvarlega til umræðu að leggja hreyfinguna niður:

KSS63_A20_0139a

 

Kæri félagi. Reykjavík, 06.12.81.

Miðstöð Rauðsokkahreyfingarinnar hefur ákveðið að boða til almenns félagsfundar mánudaginn 14. des. kl. 20:30. Þennan dag er áætlað að miðstöð haldi sinn síðasta fyrirlestur á námskeiðinu. Fyrirlesturinn á að fjalla um framtíðarstarfið í hreyfingunni. Við höfum ákveðið að halda um leið félagsfund þar sem við teljum að ekki sé grundvöllur fyrir áframhaldandi starfi hreyfingarinnar. Fundurinn yrði því að taka ákvörðun í þessu máli það er hvort að kjósa á nýja miðstöð þar sem við sem nú sitjum í miðstöð viljum og getum ekki setið áfram vegna almenns áhuga- og starfsleysis, eða hreinlega leggja hreyfinguna niður vegna starfsleysis. Ákvarðanir sem þessar er aðeins hægt að taka á almennum félagsfundi.

Miðstöð

 

 

 

 

 

 

Samkvæmt frásögn af fundinum í Forvitinni rauðri 1982 kemur fram að fundarkonur vildu halda starfinu áfram. Þær vildu gera breytingar á skipulagi hreyfingarinnar, virkja fleiri til starfa og ganga fram á veginn af endurnýjuðum krafti. Að áliti margra tókst Rauðsokkum ekki að blása nýju lífi í hreyfinguna og þær sáu ekki merki þess að hún efldist við skipulagsbreytingarnar. Þessir Rauðsokkar litu svo á að ekki yrði áfram haldið. Árið 1982 var Rauðsokkahreyfingin lögð niður. Nýjar kvennahreyfingar urðu til.

Sjá nánar: Hugmyndafræði.

Fyrri síða Menning og listir

Næsta síða Arfleifð