Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Rauðsokkaandi um landið»  Arfleifð

KSS2021.24_094a

Kvennabaráttuandinn frá áttunda áratugnum lifði áfram. Árið eftir að Rauðsokkahreyfingin var lögð niður, eða í júní 1983, stóðu Jafnréttisnefndir Neskaupstaðar, Eskifjarðar og Nesja og Kvennahreyfingin á Héraði fyrir tveggja daga námskeiði um kvennasögu í Barnaskólanum á Eiðum. Litið var á námskeiðið sem lið í fullorðinsfræðslu og sóttu það hátt í 30 konur af Austurlandi. Markmiðið var að draga fram sögu kvenna og efla sjálfstraust þeirra. Aðalfyrirlesari á dagskránni var Anna Sigurðardóttir, stofnandi Kvennasögusafnsins, sem fjallaði um vinnu kvenna á Íslandi um aldaraðir og varpaði ljósi á sögu kvenna sem ekki á sér stað í kennslubókum og er oft sleppt í sagnfræðiritum.

Í Neskaupstað var haldið upp á 10 ára afmæli kvennafrídagsins 24. október 1985 með göngu kvenna eftir aðalgötu bæjarins sem báru skilti með áletrunum eins og „Hér um bil en ekki nóg“ og „Eru tippi stöðutákn?“ Dagurinn endaði með opnu húsi í félagsheimilinu. Þegar 35 ár voru liðin frá kvennafrídeginum árið 2010 var efnt til dagskrár í félagsheimili bæjarins undir kjörorðinu „Já við ætlum!“

KSS2021.24_Image00106

Jafnréttisnefndir voru ekki nefndar í lögum um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976. Þær voru fyrst nefndar í jafnréttislögum frá 1985 (15. gr., 9. liður). Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 1991 var aftur á móti sérstök grein um skipun jafnréttisnefnda í sveitarfélögum með yfir 500 íbúa og annars staðar þar sem því yrði við komið (13. gr.) og aftur í lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 2008 (12. gr.), en þá án ákvæðis um íbúafjölda. Tvenn lög leystu lögin frá 2008 af hólmi árið 2020. Eftir það var ákvæði í lögum um stjórnsýslu jafnréttismála (13. gr.) sem fjallaði um gerð áætlana í hverju sveitarfélagi um markmið og aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun vegna kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna.

Sem dæmi starfaði Jafnréttisnefnd Neskaupstaðar með hléum fram á tíunda áratug tuttugustu aldarinnar. Í júní 1989 sendi nefndin frá sér fréttabréf þar sem minnt var á ákvæði jafnréttislaga frá 1985 og birtar upplýsingar um stöðu kvenna í atvinnulífinu. Í maí árið 1994 sendi hún frá sér annað fréttabréf um konur í sveitarstjórnarmálum, launamál kvenna, kynskiptan leikskóla og fleira – með tilvísunum í viðhorf bæjarbúa sem fram komu í fyrrnefndum dreifibréfum fyrri jafnréttisnefndar frá árinu 1976.

Þegar fram liðu stundir störfuðu jafnréttisnefndir ekki aðeins á vegum sveitarfélaga heldur var slíkum nefndum komið á fót í stofnunum og fyrirtækjum um allt land. Þær sinntu ekki aðeins jafnrétti kynja heldur unnu gjarnan á breiðari grundvelli.

 

 

Fyrri síða Jafnréttisnefnd Neskaupstaðar

Næsta síða Skjöl