Efnisyfirlit
Umræða Rauðsokka um húsmóðurhlutverkið tengdist ekki síst stjórnun á barneignum, möguleikum á menntun, þátttöku í atvinnulífinu og fæðingarorlofi, viðhorfi karla til heimilisstarfa og tvöföldu vinnuálagi kvenna.
Stjórnun barneigna
Ljóst var að mikill barnafjöldi og barneignir á unga aldri hafði sett konum skorður og bundið þær við móður- og húsmóðurhlutverkið stóran hluta ævinnar áður en öruggar getnaðarvarnir komu til. Í upphafi áttunda áratugarins var lykkjan komin til sögunnar, smokkurinn hafði verið til í áratugi en pillan varð fyrst fáanleg hér á landi árið 1966. Yfirráð kvenna yfir eigin líkama varð áhersluþáttur í starfi Rauðsokkahreyfingarinnar. Það kom skýrt fram þegar nokkrir Rauðsokkar, ásamt fleirum, þýddu og staðfærðu dönsku bókina Nýi kvennafræðarinn, handbók fyrir konur á öllum aldri, sem fjallaði meðal annars um heilsufræði, barneignir, kynlíf, kynhneigð, getnaðarvarnir og klám.
Atvinnuþátttaka og húsmóðurhlutverk
Tilvonandi húsmóðurhlutverk hafði áhrif á menntun kvenna og þar með stöðu og möguleika í atvinnulífinu. Í könnun Rauðsokka í Kópavogi 1971 kom meðal annars í ljós að þær konur sem unnu úti höfðu betri menntun en hinar. Í niðurstöðum starfshóps á Kvennaársráðstefnunni í júní 1975 um háskólanám kvenna kom fram að áberandi væri að margar konur „[veldu] sér nám með hið tvöfalda hlutverk konunnar í huga, það er annars vegar húsmóðurstarfið og uppeldi barna sinna og hins vegar að geta starfað utan heimilis.“ Afleiðingin væri sú að þær veldu auðveldasta og stysta námið. Í öðrum starfshópi kom fram að konur veldu sér störf sem „væru hentug í ígripavinnu eða hlutastarf“ og að starfsvalsbækur á unglingaskólastigi stuðluðu að slíku vali stúlkna. Rauðsokkar vildu breyta þeirri hefð að kynferði réði starfsvali og kæmi í veg fyrir að einstaklingur gæti valið sér starf í samræmi við hæfileika sína og áhugamál. Rauðsokka segir í blaðagrein að furðulegt væri „að láta sér detta í hug, að helmingur mannkyns hneigðist allur að einu starfi, þegar hinn helmingurinn skiptist á óteljandi störf.“ Dagvistun barna var lykilþáttur í þessu efnum. En fram kom í fyrrnefndri könnun í Kópavogi að 30% svarenda höfðu áhuga á starfi utan heimilis væri kostur á öruggri vistun fyrir börnin.
Fæðingarorlof
Rauðsokkahreyfingin setti fram kröfu um sex mánaða fæðingarorlof sem foreldrar gætu skipt á milli sín. Litið var á slíkt orlof sem mikilvægt skref í átt til jafnræðis kvenna og karla innan fjölskyldu og í atvinnulífinu. Þágildandi réttindi til fæðingarorlofs voru kynnt ítarlega í Forvitinni rauðri á árinu 1979 en þar kom fram að konur sem væru opinberir starfsmenn eða bankastarfsmenn ættu kost á þriggja mánaða fæðingarorlofi á launum. Konur í verkalýðsfélögum nytu aftur á móti aðeins tveggja til þriggja vikna orlofs á launum. Til viðbótar var möguleiki á greiðslu úr atvinnuleysistryggingasjóði verkalýðsfélaganna. Miðað var við 70% af næstlægsta taxta Dagsbrúnar, en greidd voru 80% launa ef um var að ræða „aðalfyrirvinnu“ eða konu sem átti fyrir óvinnufærum manni að sjá, en gilti ekki um einstæðar mæður. Árið 1975 hafði verið bætt inn í lög um atvinnuleysistryggingar ákvæði um að konur „sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar [skuli] njóta atvinnuleysisbóta í 90 daga samtals.“
Á ráðstefnu kvennaársins í júní 1975 var mótmælt þeirri mismunun „að fé til að greiða fæðingarfrí verkakvenna skuli tekið úr sameiginlegum sjóðum verkafólks, sem ætlað er annað hlutverk, meðan þær sem vinna hjá ríki og bæ fá það greitt af almannafé. ... Ráðstefnan telur eðlilegast að fæðingarfrí á launum til allra kvenna verði fellt inn í almannatryggingar.“ Aðrir hópar báru fram og studdu hugmyndir Rauðsokka um fæðingarorlof. Barnaársnefnd ASÍ setti til dæmis fram ákveðnar kröfur sem ættu að koma í samninga, svo sem um þriggja mánaða fæðingarorlof mæðra á fullum launum sem greitt væri úr Almannatryggingum, fullnægt yrði dagvistarþörf og foreldrar ættu kost á leyfi frá vinnu til umönnunar barna vegna veikinda. Jafnréttismálanefnd BSRB kom fram með sömu kröfur, en þær voru ekki einu sinni ræddar í næstu samningaviðræðum BSRB við ríkið.
Loks voru samþykkt lög um fæðingar- og foreldraorlof á síðustu árum Rauðsokkahreyfingarinnar (lög nr. 97/1980). Með þeim öðluðust allar mæður á vinnumarkaði réttindi til sex mánaða fæðingarorlofs á launum greiddum úr Fæðingarorlofssjóði, upphæð bundin við fjölda dagvinnustunda síðustu 12 mánuði, og viðurkenndur var réttur þeirra til að snúa aftur til fyrra starfs. Feðrum var á vissan hátt veittur réttur til fæðingarorlofs með lögunum þar sem móðir gat óskað sérstaklega eftir því að faðirinn tæki síðasta mánuð fæðingarorlofsins.
Viðhorf karla til heimilisstarfa
Viðhorf karla til hlutverks og stöðu kvenna í fjölskyldu og á heimili, húsmóðurhlutverksins, þróuðust reyndar ekki í takt við viðhorf margra kvenna á þessum tíma. „Karlar byggja á því að fá þjónustu á heimilinu, fyrst í föðurgarði, þar sem mæður og systur elda, taka til, þrífa, dytta að fötum og annast alla umhirðu þeirra, en síðar í hjónabandi gera þeir kröfur til hins sama af eiginkonu sinni,“ segir í niðurstöðum starfshóps á Kvennaársráðstefnunni sumarið 1975. Ári síðar segir í sama dúr í ályktun frá þingi Rauðsokkahreyfingarinnar: „Í atvinnulífi, félagsstarfi og uppeldismálum er gert ráð fyrir að á hverju heimili sé kona til að sjá um hverskonar þjónustu við heimilismenn. Börn eru alin upp til að líta á heimili sem aðal starfsvettvang kvenna.“ Stelpur hjálpa til við heimilisstörfin en strákar ekki því það þurfa þeir „ekki að gera seinna meir,“ segir í grein í Forvitinni rauðri 1979. Viðhorfin um „eðlilega“ hlutverkaskiptingu kynjanna voru að vissu marki undirtónn á barnaárinu 1979 þegar móðurhlutverkið var í brennidepli, en minni áhersla á föðurhlutverkið. Rauðsokkar hristu upp í þeirri umræðu og sögðu í leiðara Forvitinnar rauðrar á barnaári: „Konum er skipað inn og út af atvinnumarkaðnum eftir þörfum atvinnurekenda. Þegar kreppa dynur yfir upphefst hið hjáróma væl um hið heilaga móðurhlutverk; hlutverk sem þeir kæra sig kollótta um þegar þeir hafa hag af útivinnu kvenna.“ Þannig voru konur „stundum settar á stall – en oftast vísað til óvirðingarsætis.“
Tvöfalt vinnuálag kvenna
Konur sem unnu utan heimilis báru gjarnan einar ábyrgð á heimilishaldinu og umönnun barnanna og bjuggu því við tvöfalt vinnuálag. Blaðamaður Þjóðviljans, ein Rauðsokkanna, vildi draga fram vinnutíma móður og húsmóður og fylgdist því með störfum ungrar móður og fjölskyldu hennar einn venjulegan vinnudag frá morgni til kvölds í nóvember 1974. Hún segir í lok greinar um efnið að „hlaup og flýtir ... hafa verið einkenni dagsins hjá þessari útivinnandi þriggja barna móður. Nema kannski helst í vinnunni.“ Síðan spyr hún: „En hvað telst vinnutími móður? Aðeins sá tími sem hún tekur laun fyrir eða allur dagurinn, frá morgni til kvölds?“
Í ályktun frá þingi Rauðsokkahreyfingarinnar 1976 var dregið fram að „tvöfalt vinnuálag sem margar konur bú[i] við ásamt gömlum fordómum um eðli og hlutverk kvenna vald[i] því, að þær tak[i] lítinn þátt í félags- og stjórnmálum.“ Á kjörtímabilinu 1970−1974 voru konur 28 af rúmlega 1.150 sveitarstjórnarmönnum í landinu eða 2,4%. Í Forvitinni rauðri frá 1979 er stöðu einstæðra mæðra lýst sem gjarnan eru í láglaunastörfum, vinna aukavinnu til að drýgja tekjurnar og bera síðan einar ábyrgð á fjölskyldunni, rekstri heimilisins, andlegri og líkamlegri umönnun barnanna, skólagöngu þeirra og tómstundum sem allt saman hefur í för með sér tvöfalt og jafnvel þrefalt vinnuálag. Stundum bætist við ýmiss konar vandi vegna meðlagsgreiðslna. Styttingu vinnutímans fyrir bæði kyn (úr 40 klukkustunda vinnuviku, samanber lög frá 1971) var því lykilatriði, að mati Rauðsokka, fólk væri komið heim til sín um miðjan dag og gæti skipt með sér verkum á heimili og við barnauppeldi, ella drægjust konur gjarnan aftur úr á starfssviði sínu, misstu af tækifærum í starfi og svo framvegis. Tilkoma ýmiss konar tækja við eldamennsku, þvottavélar og breytingar á vöruúrvali í matvöruverslunum dró úr vinnuálagi við heimilisstörf.
Andstaða
Umræða Rauðsokka um fjölskylduna og stöðu húsmæðra í lítt þróuðu velferðarkerfi mætti mikilli andstöðu og var ekki átakalaus. Kona sem féll ekki inn í hefðbundnu myndina var jafnvel talin hættuleg. Í einu dagblaðanna var skrifað haustið 1970: „Á síðari árum hefur meira en nokkru sinni fyrr borið á hvers kyns óróa og andófi gegn öllu því sem gamalt er og viðurkennt, svo mjög, að stundum er um hreinar ofbeldisaðgerðir að ræða. Þar eru „misheppnaðir“ einstaklingar gjarnan fremstir í flokki.“ Annar lesandi skrifaði sama dag: „Hún [konan] getur unnið þjóð sinni göfugt starf með því að vera góð móðir og húsmóðir.“ Í umræðu um samfelldan skóladag og skólamáltíðir í borgarstjórn Reykjavíkur talaði einn borgarfulltrúi um foreldra „sem ekki nenntu að hugsa um börnin sín.“ Sögur Svövu Jakobsdóttur, rithöfundar og alþingismanns, til dæmis Saga handa börnum og aðrar sögur sem birtust í smásagnasafninu Veizla undir grjótvegg (1967), höfðu gríðarleg áhrif á þessum tíma og vöktu einnig mikla reiði. Sama má segja um bók Marilyn French, Kvennaklósettið (á frummáli: The Women's Room (1978)), sem þýdd var af einni Rauðsokkanna, Elísabetu Gunnarsdóttur, árið 1980 og segir af baráttu húsmóður fyrir frelsi og sjálfstæði á sjötta áratugnum.
Sjá nánar: Dagvistun, Þungunarrof, Viðbrögð samfélagsins, Vinnumarkaður.
Fyrri síða Flest baráttumálin tengd fjölskyldunni
Næsta síða Fyrirvinnuhugtakið