Efnisyfirlit
Rauðsokkar héldu fundi og ráðstefnur um baráttumál sín, birtu greinar í blöðum og tímaritum, tóku þátt í umræðum í útvarpi og sjónvarpi og fluttu erindi í útvarp. Eitt tölublað af tímaritinu Samvinnunni var helgað Rauðsokkahreyfingunni í nóvember 1971. Klúbbar og félagasamtök, svo sem Lions, Kiwanis, Rótarý, stjórnmálahreyfingar og kvenfélög, kölluðu Rauðsokka til sín á fundi með fræðsluerindi allt frá byrjun nóvember 1970. Á fyrsta starfsárinu eru til dæmis skráðar um 20 slíkar ferðir. Á þessum fundum spruttu oft upp heitar umræður um hreyfinguna og kröfur kvennanna og stundum sóttu fundarboðendur hart að fulltrúum Rauðsokka þannig að vissast þótti að senda tvær eða fleiri á þessa fundi.
Rauðsokkar sáu um útvarpsþáttaröð í Ríkisútvarpinu haustið 1972 sem nefndist „Ég er forvitin rauð.“ Í tíu þáttum var fjallað um vitundarvakningu kvenna, sambýlishætti og samlíf, dagvistun barna, menntun kvenna, atvinnumál, kvenímyndir í bókmenntum og fleira. Blaðið Forvitin rauð kom út árlega, ýmist eitt blað eða fleiri í ellefu ár, frá 1972–1982. Fyrsta blaðið kom út í tvö þúsund eintökum og næsta blað í þrjú þúsund eintökum. Í blaðinu var birtur fjöldi greina um stöðu kvenna á vinnumarkaði, málefni verkakvenna, dagvistunarmál, fjölskylduna, sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama, pólitískt inntak kvenfrelsisbaráttunnar og aðrar fréttir úr baráttunni. Útgáfan náði út fyrir landsteinana þegar námskonur í Kaupmannahöfn mynduðu kvennahópa og önnuðust útgáfu á einu tölublaði 1981. Myndræn framsetning þeirra Eddu Óskarsdóttur, Hildar Hákonardóttur og Sigrúnar Eldjárns undirstrikaði oft í einföldum dráttum og í léttum tón en með afgerandi hætti umfjöllunarefni Rauðsokka í Forvitinni rauðri.
Á árunum 1973 til 1976 hélt Vilborg Harðardóttir blaðamaður úti jafnréttissíðu í helgarblaði Þjóðviljans. Hún átti síðan frumkvæði að því í nóvemberbyrjun 1977 að hleypt var af stokkunum sérstakri Rauðsokkasíðu í helgarblaði Þjóðviljans. Fimm Rauðsokkar önnuðust ritstjórn sem skipt var um reglulega. Þetta innlegg blaðsins varð mikilvægur vettvangur til að miðla upplýsingum, greinum og viðtölum um kvenfrelsismál frá viku til viku og vöktu þær athygli og umræður. Rauðsokkasíðan birtist í blaðinu til ársins 1980. Fréttabréfið Staglið kom út óreglulega og beindist að innra starfi, svo sem verkefnum miðstöðvar og hópastarfi.
Sjá nánar: Útgefið efni Rauðsokka.
.
.
.
Fyrri síða Hverjir voru þessir Rauðsokkar?
Næsta síða Baráttumálin