Innri átök

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Hugmyndafræði»  Innri átök

KSS 146-150aEftir kvennafrídaginn höfðu konur sýnt alþjóð hvílíku pólitísku afli þær bjuggu yfir. Nýjar konur sópuðust að hreyfingunni. Um margt má segja að hún hafi alls ekki verið undir þá skyndilegu fjölgun búin, ekkert kynningarefni hafði verið undirbúið sérstaklega eða rætt um hvernig tekið skyldi á móti mögulegum nýliðum og þeir virkjaðir til starfa.

Rauðsokkahreyfingin hafði ef til vill ekki heldur séð það fyrir, að með því að taka sér svo skörulega stöðu á vinstri væng stjórnmálanna væri hún komin yfir á „yfirráðasvæði“ lítilla en ákafra stjórnmálasamtaka á róttækasta vinstri væng pólitískrar umræðu. Þau höfðu engan áhuga sýnt á kvennabaráttunni áður. Það breyttist við kvennafrídaginn 1975.

Meðal hinna nýju liðsmanna sem gengu í hreyfinguna árið 1976 voru engir byrjendur í baráttunni, ungar og baráttuglaðar konur í háskólanámi og háskólapólitík og konur úr maóískum hreyfingum eins og KSML (Kommúnistasamtökin marxistarnir-lenínistarnir) Eik-ml (Einingarsamtök kommúnista marxistar-lenínistar) og trotskýísku samtökunum Fylkingunni sem upphaflega var Æskulýðsfylking Sósísalistaflokksins. Flestar komu úr Eik-ml. Þær gagnrýndu Rauðsokkahreyfinguna harðlega frá upphafi, einkum fyrir skort á skilvirkni og forystuhlutverkum, vanvirku hópaskipulagi og „borgaralegum femínisma“. Borgaralegur femínismi, öðru nafni „kvenremba“ var samkvæmt skilgreiningu Eik-ml hreyfingarinnar kvenréttindastefna yfirstéttarkvenna og femínismi þeirra beindist eingöngu að því að ryðja félagslegum hindrunum úr þeirra eigin vegi en hagga í engu hinu kapítalíska hagkerfi sem þær styddu. Eins og alþýðukonur væru þær kúgaðar en fyrst og fremst af körlum sínum og síðan af auðvaldsþjóðfélaginu. Frelsi gætu þessar konur aldrei fengið fyrr en eftir byltinguna og afnám auðvaldsþjóðfélagsins. Þetta vildu hinir nýju félagar að Rauðsokkahreyfingin undirstrikaði og þær kvörtuðu jafnframt yfir fjandsamlegu viðmóti kvennanna sem fyrir voru í hreyfingunni, árið 1976, og tregðu þeirra við að laga sig að tillögum þeirra um endurskipulagningu.

Allir umræðufundir um ólík efni vildu snúast upp í marxískar túlkanir og þrætubók sem vöktu ekki áhuga óinnvígðra og upp úr sauð þegar hópur Rauðsokka stöðvaði dreifingu 1. maí blaðs Forvitinnar rauðrar. Eikarar voru í hópnum sem sá um blaðið. Það endurspeglaði pólitískar áherslur þeirra í einu og öllu og skartaði til dæmis fróðlegri grein um verkakonur í Kína. Þetta var eins konar Trójuhestur sem Rauðsokkar brugðust hart við. Eftir þessi átök yfirgáfu félagar úr Eik-ml Rauðsokkahreyfinguna og stofnuðu eigin kvennahreyfingu, 8. mars hreyfingunaþann 1. maí 1978. Rauðsokkar reyndu að vinna með henni um einstakar aðgerðir en þar bar of mikið á milli.

Sjá nánar: Kvennaár.

Fyrri síða Skógarráðstefnan 1974

Næsta síða Gagnrýni frá vinstri