Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Dagvistun»  Arfleifð

KSS63_A49_029

Þrír til fjórir áratugir áttu eftir að líða þar til sýn Rauðsokka frá upphafi áttunda áratugar 20. aldarinnar um dagvistarmál varð að veruleika. Sérstök heildarlöggjöf um leikskóla leit ekki dagsins ljós fyrr en árið 1991. Með henni var lögfest hugtakið „leikskóli“ um dagvistun barna, sem áður var ýmist nefnd leikskóli um hálfs dags dvöl og dagheimili um heils dags dvöl. Miklu munaði um umfangsmikið byggingarátak leikskóla á vegum nýs meirihluta R-listans í borgarstjórn Reykjavíkur í kringum aldamótin 2000 og stefnu um að leikskólar skyldu öllum börnum opnir frá ákveðnum aldri. Þegar á leið varð markmiðið að öll börn ættu kost á dvöl í leikskóla frá því að fæðingarorlofi foreldra lyki. Leikskólar eru almennt staðsettir í hverfum en ekki við vinnustaði. Foreldrar greiddu um 14% af kostnaði árið 2015 í Reykjavík og enn er uppi umræða um ókeypis leikskóla, eins og við á um grunnskóla og framhaldsskóla.

Skólasókn sex ára barna var lögfest árið 1991. Þegar leið að aldamótunum 2000 og árin þar á eftir urðu grunnskólar einsetnir og skóladagurinn lengdist samkvæmt grunnskólalögum frá 1995 og komið var á fót frístundaheimilum að loknum skóladegi við alla grunnskóla. 

Í samanburði við önnur lönd er Ísland í fremstu röð í málefnum dagvistunar barna. Hér eru konur ekki neyddar til að velja á milli þess að taka þátt í atvinnulífinu og eiga börn.

Sjá nánar: Menntun, Fjölskyldan.

Fyrri síða Lagasetning í dagvistunarmálum

Næsta síða Skjöl