Um vefinn

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin»  Um vefinn

Síðla árs 2018 komu fulltrúar stofnanda Rauðsokkahreyfingarinnar saman og ræddu möguleika á að opna sérstakan skjala- og upplýsingavef í samstarfi við Kvennasögusafn og Landsbókasafn. Á fundi þeirra við Landsbókavörð, sviðstjóra varðveislu og fagstjóra Kvennasögusafns þann 19. nóvember sama ár var tillagan samþykkt og samstarfið fór af stað. Í verkefnisstjórn fyrir hönd Rauðsokka voru Auður Hildur Hákonardóttir, Dagný Kristjánsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Helga Ólafsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.

gestabok_050175Við tók vinna um að ákveða hvaða efni skildi fara á vefinn, hvernig það væri sett upp, hvaða skjöl skyldi mynda sem og í hvaða sjóði var hægt að sækja um til að styrkja verkefnið. Fulltrúar Rauðsokkahreyfingarinnar ákváðu efnistökin í sameiningu og skiptu kaflaskrifum á milli sín. Allir kaflarnir voru lesnir saman á fundum þar sem þeim var ritstýrt í sameiningu. Fagstjóri Kvennasögusafns leiddi þá vinnu. Eftir að styrkir fengjust var Emma Björk Hjálmarsdóttir, MA í menningarfræði, ráðin til að vinna að uppsetningu hans. Myndastofa Landsbókasafns sá um stafræna endurgerð skjalanna og vefstjóri Landsbókasafns hafði yfirumsjón með uppsetningu vefsins.

Dagbok1975

Á vefnum eru birtar stafrænar endurgerðir af frumheimildum hreyfingarinnar ásamt skýringartextum frá fulltrúum hennar. Með verkefninu eru frumheimildir færðar inn í almannarými og atburðir settir í samhengi sem annars myndi glatast. Markmiðið er að vefurinn verði nýttur í kennslu á nokkrum skólastigum, verði stökkpallur rannsókna sem og stuðli að vitundarvakning almennings um þróun kynjajafnréttis á Íslandi. 

Vefnum er skipt upp í þemu eftir helstu baráttumálum hreyfingarinnar sem setti meðal annars launajafnrétti á dagskrá verkalýðsfélaganna, barðist fyrir frjálsu þungunarrofi, aðgengi að dagvistun barna og aukinni menntun kvenna. Kvennafrídagurinn 1975 fær veigamikið pláss en hugmyndin um kvennaverkfall var upprunalega sprottinn frá hreyfingunni. Sá viðburður vakti athygli langt út fyrir landsteinana og er hans enn minnst af baráttufólki víða um heim. Rauðsokkahreyfingin var umbóta- og umbrotaafl í íslensku samfélagi á áttunda áratug 20. aldar og var brimbrjótur fyrir þær kvennahreyfingar sem á eftir komu.

Í ritnefnd fyrir hönd Rauðsokka voru:

 

 

  • Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emerita frá Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands. Hún kenndi við Háskólann í Osló í sjö ár og lauk doktorsprófi í kvennabókmenntum frá Háskóla Íslands. Hún er höfundur fimm fræðibóka og fjölmargra fræðigreina um bókmenntir og listir.
  • Elísabet Gunnarsdóttir lauk BA-prófi og kennaraprófi frá HÍ og stundaði seinna framhaldsnám við HÍ, í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Hún var kennari í Framhaldsdeildunum við Lindargötu og í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Auk þess var hún myndlistargagnrýnandi og þýðandi bæði kennslubóka og skáldverka. Þá var hún einn af stofnendum Kvennaathvarfsins.
  • Gerður G. Óskarsdóttir hefur verið kennari og stjórnandi á grunn-, framhalds- og háskólastigi, ráðunautur ráðherra, yfirmaður leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar og fengist við rannsóknir og skrifað bækur og greinar um menntamál. Lauk meistaraprófi frá Bostonháskóla og doktorsprófi frá Kaliforníuháskóla í Berkeley.
  • Guðrún Ágústsdóttir var fulltrúi í Hjúkrunarskóla Íslands, flugfreyja, aðstoðarmaður ráðherra, framkvæmdastjóri tveggja kvennaþinga, norræns og vestnorræns, fræðslu- og kynningarfulltrúi í Kvennaathvarfinu og borgarfulltrúi í Reykjavík um árabil, síðast forseti borgarstjórnar. Lauk BSc prófi í félagsvísindum frá Háskólanum í Hróarskeldu.
  • Guðrún Hallgrímsdóttir var forstöðumaður Rannsóknastofu Búvörudeildar SÍS, iðnþróunarfulltrúi hjá Sþ í Vínarborg,  forstöðumaður hjá Ríkismati sjávarafurða og vann einkum við gæðastjórnun, starfaði í Stjórnarráðinu, við Iðntæknistofnun og annaðist margvíslega fræðslustarfssemi. Er matvælaverkfræðingur frá Humboldt Universitet, Berlin, kennsluréttindi frá HÍ og  leiðsöguréttindi.
  • Helga Ólafsdóttir starfaði sem kennari í dönsku, bókasafnsfræðingur í Borgarbókasafni Reykjavíkur, forstöðumaður Blindrabókasafns Íslands frá stofnun og stundakennari í bókasafnsfræði við HÍ. Lauk BA-prófi í dönsku og bókasafnsfræði frá HÍ og MLS í bókasafnsfræði frá Florida State University.
  • Kristín Ástgeirsdóttir lauk MA-prófi í sagnfræði og BA-prófi í bókmenntafræði. Hún hefur unnið sem blaðamaður, sögukennari, þingkona, friðargæsluliði og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Kristín hefur stundað rannsóknir og skrifað fjölda greina um sögu íslenskra kvennahreyfinga, kvennabaráttu og stjórnmála. Hún var meðal stofnenda Kvennaframboðs og Kvennalista í Reykjavík sem og Friðarhreyfingar íslenskra kvenna.

Vefurinn er styrktur af Jafnréttissjóði, mennta- og menningarmálaráðuneytinu (sem þá var, nú menningar- og viðskiptaráðuneytið), mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, myndríkri miðlun um sögu Reykjavíkur og Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar hjá ASÍ.

 

asi-logo (003)stjornarradidMerki-a-vef-skjoldur-vinstrJafnrettissjodur-islands-logo-prent

Vefurinn var formlega opnaður þann 24. október 2022. Ábyrgðarmaður vefsins er Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri Kvennasögusafns. Senda inn ábendingu um vefinn. 

Athugið að vefurinn verður þýddur yfir á ensku árið 2023. 

 

jafnrettissjodur

 

 

Fyrri síða Jafnréttissíða Þjóðviljans

Næsta síða Tímaás